Árni Finnsson
Árni Finnsson
ÁRNI Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að það sé einfaldlega ekki frétt að þorri Íslendinga telji að hægt sé að ná sátt um stóriðju- eða virkjanamál og vísar þar til könnunar sem IMG Gallup vann fyrir Samtök atvinnulífsins.

ÁRNI Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að það sé einfaldlega ekki frétt að þorri Íslendinga telji að hægt sé að ná sátt um stóriðju- eða virkjanamál og vísar þar til könnunar sem IMG Gallup vann fyrir Samtök atvinnulífsins. Samkvæmt könnuninni er meirihluti þjóðarinnar sáttur við álver á Íslandi. Segir Árni að alveg eins sé hægt að spyrja hvort fólk telji hægt að ná sátt um fiskveiðistjórnun og kvótakerfi og fengjust þá sömu niðurstöður. "Allir vilja sátt á Íslandi. Það er reglan og niðurstaðan nánast gefin."

Segir Árni að Gallup hafi einnig gert könnun fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands í mars 2005 sem sýndi að 40% aðspurðra telja að rangt hafi verið að ráðast í byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Þegar Reykjavík var skoðuð sérstaklega kom í ljós 50% aðspurðra töldu þá ákvörðun ranga. Stóriðja kom neðst á blaðið í könnun Gallup fyrir Náttúruvaktina fyrir ári.

"Nær 80% Íslendinga telja að stjórnvöld geri lítið til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda samkvæmt könnun Gallup fyrir Náttúruverndarsamtökin sl. nóvember. Stóriðjuáform munu vart bæta þær tölur fyrir umhverfisráðherra.

Þegar við bætist að kaupandi kynnir niðurstöður Gallup sem að sátt ríki um stefnu í stóriðju- og virkjanamálum finnst mér Gallup þurfa að verja sinn heiður. Um það var einfaldlega ekki spurt. Heldur hitt: hvort hægt væri að ná sátt.

Ekki er ástæða til að ætla að afstaða almennings til Kárahnjúkavirkjunar eða uppbyggingar stóriðju hafi breyst mikið frá því fyrir ári," segir Árni.

"Vissulega er hægt að ná sátt um viðkvæm deilumál. Nú virðast stjórnvöld vilja taka tillit til þess að 2/3 aðspurðra í könnun Gallup fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands haustið 2004 töldu að stækka ætti friðlandið í Þjórsárverum. Stjórn Landsvirkjunar hafnaði þó þeirri sáttagjörð á fundi sínum í morgun og vill einungis leggja málið til hliðar um sinn. Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera hefur nú staðið í 35 ár," að sögn Árna.

"Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að ég lenti í spurningavagni Gallup um þessi mál fyrir nokkrum vikum. Mig grunar að það sé sá sami og spurt var fyrir Samtök atvinnulífsins (Landsvirkjun og álfyrirtækin) og Þóra Ásgeirsdóttir kynnti á ráðstefnunni í dag [á föstudag]. Ég tek eftir að margar þeirra spurninga sem fyrir mig voru lagðar er ekki að finna á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins. Sennilega hentar það ekki SA," að sögn Árna Finnssonar.