[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vonir standa til að hægt verði að taka fyrstu skóflustunguna að menningar- og fræðasetri á Hólum á afmælisárinu. Með því er ætlunin að nýta sérstöðu staðarins; stefna saman lærdómi sögunnar og því frumkvæði sem býr í fólkinu.

Vonir standa til að hægt verði að taka fyrstu skóflustunguna að menningar- og fræðasetri á Hólum á afmælisárinu. Með því er ætlunin að nýta sérstöðu staðarins; stefna saman lærdómi sögunnar og því frumkvæði sem býr í fólkinu. Gert er ráð fyrir að húsið rísi á tveimur til þremur árum og verði þjóðargjöf til staðarins.

Fellur vel að staðarmyndinni

"Við höfum notið skilnings bæði af hálfu atvinnulífsins og stjórnvalda og erum að vinna að fjármögnun, en ekki er hægt að segja til um kostnað á þessu stigi málsins," segir Jón Aðalsteinn Baldvinsson, vígslubiskup.

"Við snerum okkur til Guðmundar Jónssonar arkitekts, sem kunnur er fyrir hönnun menningarhúsa, og óskuðum eftir tillögu," segir Skúli Skúlason, rektor Hólaskóla. "Guðmundur hefur lagt fram fyrstu hugmyndir að fjölnota húsi og er mál manna að hönnunin falli mjög vel inn í landslagið og staðarmyndina."

Merk söfn í setrinu

Ráðgert er að húsið rísi þar sem gamla fjósið og hlaðan stendur núna. Það verði þrjú þúsund fermetrar og geti rúmað söfn og sýningar. Þar verður ráðstefnusalur sem tekur 300 manns í sæti, en er einnig hægt að breyta í tónleikasal eða kennslustofur. Einnig verður þar 450 manna veitingaaðstaða.

"Húsið er forsenda áframhaldandi uppbyggingar á starfseminni hér á Hólum," segir Skúli. "Það húsnæði sem er fyrir hendi á staðnum er þegar fullnýtt og því þurfum við meira rými undir starfsemina."

Og þörfin er mikil, enda mikil uppbygging í vændum á Hólum. "Hér fara fram gríðarlegar fornleifarannsóknir, sem skapa mikla þörf fyrir sýningarhald," segir Jón. "Þá vonumst við til að geta haft til sýnis gamla Gutenberg-prentsmiðju, þó að við reiknum ekki með að hér verði virk prentsmiðja í framtíðinni. En við reiknum fastlega með prentlistasafni í nýja menningar- og fræðasetrinu og auðvitað bókasafni, þar sem Hólaprentið, bækurnar sem prentaðar voru á Hólum, verða kjarninn. Einnig verður hér kirkjulistasafn, sem er að vissu leyti þegar fyrir hendi í Hóladómkirkju. Síðan má ekki gleyma því að hér er til staðar sögusafn íslenska hestsins, sem vantar húsnæði. Þannig að merk söfn verða hýst hér á Hólum og við hyggjumst gera það með glæsibrag."

Tugir þúsunda ferðamanna

Um tuttugu þúsund ferðamenn leggja leið sína að Hólum á ári hverju og stefnt er að 40 þúsund á afmælisárinu.

"Við þurfum betri aðstöðu til að taka á móti þessum fjölda ferðamanna og sinna þeim eins og skyldi," segir Jón. "Húsið opnar nýja möguleika á því sviði með veitingaaðstöðu, minjagripum og þjónustu. Þá getum við hýst stóra viðburði, s.s. samkomur, ráðstefnur og hestamannamót. Að auki er þörfin mikil fyrir húsið í öllu kirkju- og skólastarfi. Í kirkjunni er öflugt tónleika- og helgihald, sem dregur að fjölmarga, og það þarf að vera hægt að sinna þessu fólki með viðunandi hætti."

"Staðinn vantar þetta andlit," segir Skúli. "Í menningar- og fræðasetrinu yrði hreiður Guðbrandsstofnunar með aðstöðu fyrir fræðimenn sem og kennslustofur fyrir vaxandi skólastarf. Þá myndi skólahúsið gamla þróast smám saman í skrifstofuhúsnæði, en mikil þörf er á því samhliða auknu umfangi starfseminnar."

Hólaprentið heim

En víkjum aftur að bókakostinum. "Stóra átakið fyrir utan byggingu húss undir menningar- og fræðasetrið er að eignast Hólaprentið," segir Jón. "Flestar þær bækur, sem eiga það sammerkt að vera prentaðar á Hólum og á tólf ára tímabili í Skálholti, eru til í safni séra Ragnars Fjalars Lárussonar heitins. Við vonumst til að fá öflugan stuðning til að eignast þetta safn svo hægt verði að afhenda það Hólasafni til varðveislu. Það var hans ósk að safnið yrði á Hólum. Þetta er algjörlega einstakt safn, það besta í einkaeigu sem vitað er um, og það á heima hér á Hólum."