W.A. Mozart: La clemenza di Tito.

W.A. Mozart: La clemenza di Tito. Einsöngvarar: Gunnar Guðbjörnsson (Títus), Danielle Halbwachs (Vitellia), Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir (Sextus), Rannveig Fríða Bragadóttir (Annius), Hallveig Rúnarsdóttir (Servilia) og Davíð Ólafsson (Publius) ásamt kammerkórnum Hljómeyki og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi: Rumon Gamba. Fimmtudaginn 26. janúar kl. 19:30.

HAFI það farið fram hjá einhverjum tónlistarunnendum að 250. afmælisár Mozarts hófst í gær, þá var varla Ríkisútvarpinu um að kenna, ef marka má Mozartmettaða dagskrá þess sama föstudag. Aðrar málsmetandi menningarstofnanir lýðveldisins, jafnt sem tónlistarhópar og einstaklingar, eiga eftir að minnast þess með ýmsum hætti, og sjálft flaggskipið, SÍ, byrjaði fyrir sitt leyti með konsertuppfærslu kvöldið áður á "Mildi Títusar" - Le Clemenza di Tito á ítölsku frummáli.

La Clemenza varð næstsíðasta ópera Mozarts, samin 1790 við afar stressandi aðstæður á litlum 18 dögum í miðjum tveimur öðrum aðkallandi verkefnum - Sálumessunni fyrir Walsegg greifa og Töfraflautunni í samvinnu við Schikaneder. Hún ber fyrir vikið merki tímaeklu tónskáldsins við sára fjárþröng. Því þótt engu að síður votti innan um fyrir skugganum af undangenginni meistarasnilld Da Ponte-óperanna og hinni eftirkomandi ævintýralegu upphafningu frímúrarahugsjóna, þá má á flestu heyra að ekki var um neina óskapöntun að ræða í tilefni af krýningu Leopolds II, nýs keisara "Hins heilaga rómverska ríkis af þýzkri þjóð", sem konungs yfir Bæheimi í Prag sama haust. Öðru nær. Alvarlega barokkóperugreinin opera seria var löngu farin að ganga sér til húðar, og margtónsett söngrit Metastasios úr fornsögu Rómverja, ritað á háskeiði einveldisins um 1700, ber með sér holan undirsátahljóm liðins tíma sem tæplega gat tendrað uppreisnarneista tónlífgara Fígarós.

Þegar við bætist að Mozart þurfti að umrita tvö tenórhlutverk fyrir geldingssöngvara Pragóperunnar er ekki undarlegt þó að Mildi Títusar höfði síður til nútímahlustenda en flestar aðrar þroskaáraóperur hans, enda mun sjaldnar flutt. Í því ljósi mætti kannski segja að Mozartárið hjá SÍ hafi byrjað með viðsnúningi orðtaksins yfir í "hefja skal leik meðan lægst er" - í frómri von um hið gagnstæða áður en Mozartárið er á enda.

Samt sem áður var vissulega nokkur áfangi fólginn í því að verkið skyldi nú, ef rétt er skilið, fært upp í fyrsta sinn á Íslandi; að vísu án búninga og leiktjalda. Það var ekki tekið fram í tónleikaskrá, en af ítarlegri afrekakynningu mátti þó geta sér til um að líklega hefði Atli Rafn Sigurðarson leikstjóri tekið að sér upplestur söguframvindu á milli atriða, hvað hann gerði með rösklegum tilþrifum - utan þess hvað óhóflegar áherzlur á fyrstu atkvæði orða klipptu jafnan af endingum þeirra í framsögn. Kom framlag hans samt í góðar þarfir.

Ekki verður annað sagt um hljóðfæraleikinn en að hann hafi allt frá byrjun verið í toppformi undir hnitmiðaðri stjórn Rumons Gamba; nákvæmur, snarpur og fágaður - og ekki sízt vel samtaka við sönginn. Hinn tiltölulega litli þáttur kórsins var í beztu höndum hins upp í 30 manns stækkaða Hljómeykis. Af einsöngvurum bar mest á stórum hlutverkum Gunnars Guðbjörnssonar, er söng Títus Vespaníanusarson af þróttmikilli tilfinningu fyrir textainntaki, og Daniellu Halbwachs, er söng Vitelliu í forföllum Söruh Fox. Söngsvið rullunnar var óvenjuraddvítt, enda áttu lægstu tónar til að detta áþreifanlega niður í styrk, en hásviðið var hins vegar glansandi þétt og tilkomumikið. Meðal annarra hlutverka skar Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir sig einna fallegast úr í hlutverki Sextusar, en einnig stóðu Rannveig Fríða Bragadóttir, Hallveig Rúnarsdóttir og Davíð Ólafsson sig prýðisvel í hlutverkum Anniusar, Serviliu og Publiusar lífvarðaforingja.

Ríkarður Ö. Pálsson