Íslenska vetnisstöðin
Íslenska vetnisstöðin
Eftir Kristján Torfa Einarsson kte@mbl.
Eftir Kristján Torfa Einarsson kte@mbl.is

Vetnislandið Ísland - draumsýn eða möguleiki

Orkan frá Kárahnjúkavirkjun eða frá þremur stækkuðum Nesjavallavirkjunum myndi duga til að framleiða vetni í nægilegu magni til að knýja allan bíla- og skipaflota Íslendinga. Í dag flytjum við inn tæplega 30% af þeirri orku sem við notum. Ef vetnisbílar og dreifingarkerfi fyrir vetni verða að veruleika á Ísland möguleika á að vera algerlega sjálfbært hvað varðar orku.

Iðntæknistofnun hefur undanfarna mánuði unnið fyrir iðnaðarráðuneytið svokallaðan vetnisvegvísi, þar sem fjallað er um stöðu Íslands í vetnismálum og reynt að leggja mat á hvaða stefnu Íslendingar eigi að taka í framhaldinu. Ingólfur Þorbjörnsson, forstöðumaður Iðntæknistofnunar, segir að vegvísirinn eigi að gegna álíka hlutverki og landakort; vera tæki til að ákveða hvert við viljum fara og hvernig við eigum að komast þangað.

"Hann á að hjálpa okkur að sjá hvar og hvernig við getum best nýtt möguleika okkar í þeirri vetnisvæðingu sem er að eiga sér stað í heiminum. Í honum eru helstu spurningar sem varða nýtingu vetnis teknar fyrir. Til dæmis um hagkvæmni vetnisframleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum, á borð við vatnsfalls- og jarðvarmavirkjanir. Eigum við Íslendingar nóg af orku til að standa undir þessari framleiðslu? Hversu hagkvæm er þessi aðferð miðað við að framleiða á vetni með jarðgasi eins og gert er víðast hvar erlendis? Geymslan á vetni er einnig mjög mikilvægur þáttur í þessari umræðu. Hvers konar geymslutækni myndi henta okkur best? Hvernig á að haga dreifingu til neytenda og áfyllingu á bifreiðirnar? Þá er það sjálf neysla og notkun vetnis sem orkubera sem vekja spurningar um þróunina framundan og hversu langt er í að þetta verði að veruleika," segir Ingólfur.

Ytri aðstæður ýta undir rannsóknir og þróun

Baldur Pétursson, deildarstjóri hjá iðnaðarráðuneytinu, segir að áhuginn á rannsóknum og þróun á vetnistækninni fari sífellt vaxandi í heiminum. "Orkukreppan og hækkandi orkuverð, öryggismál í orkuöflun og mengunarmál. Öll þessi mál hafa orðið til þess að vekja aukna athygli á vetni og nú eru meiri fjármunir veittir til þróunar á vetnistækninni en áður. Þá hafa rannsóknir á þessu sviði gengið mun betur en menn áttu von á. Þó svo sumir þættir gangi hægar en aðrir hefur þróunin verið töluvert hraðari en menn höfðu reiknað með. Og á heildina litið er það eingöngu spurning um tíma hvenær þetta verður að veruleika."

Baldur segir að þróunin á sjálfum vetnisbílunum þurfi að fara saman við uppbygginguna á innviðakerfi fyrir dreifingu og framleiðslu vetnis. "Þetta eru mörg atriði sem haldast í hendur og því mikilvægt að unnið sé gott stöðumat og nákvæm stefnumótun fyrir rannsóknir á þessu sviði í framtíðinni, en í þeim tilgangi er útgáfa vetnisvegvísisins hugsuð," segir Baldur.

Kostnaður minnkað margfalt á síðustu árum

Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor við Háskóla Íslands, segir að árangur þróunarverkefna síðustu ára, bæði hér heima og erlendis, hafi farið langt fram úr björtustu vonum.

"Þegar við byrjuðum með fyrirtækið Íslenska nýorku fyrir um sex árum kostuðu efnarafalar rúmar 10.000 dollara fyrir hvert kílówatt [kílówatt samsvarar 1,36 hestöflum]. Þegar við fengum vetnisstrætisvagnana fyrir um þremur árum var kostnaðurinn á kílówattið kominn niður í um 600 dollara. Nú hafa framleiðendurnir lýst því yfir að þeir hafi lært það mikið af þróunarverkefnum síðustu ára að þeir séu farnir að nálgast 120 dollara fyrir kílówattið í stofnkostnað við efnarafala sem koma 2008.

Bandaríska orkumálaráðuneytið setti það sem takmark fyrir nokkrum árum að kílówattið myndi kosta í kringum 50 dollara þannig að hægt yrði að bera efnarafalana saman við sprengjuhreyflana sem við notum nú í dag. Fyrir fáeinum árum var kostnaðurinn við efnarafalana einn helsti flöskuhálsinn, en með þessum tilraunaverkefnum, m.a. því sem hefur verið rekið hér á landi, hefur þessi ótrúlegi árangur náðst.

Í dag eru það helst vandamál tengd geymslu á vetninu sem menn glíma við. En hvað varðar bifreiðirnar eru menn hins vegar flestir sammála um að hentugast sé að geyma vetnið í formi gass. Ef við miðum okkur aftur við bensínbílana þá er drægni þeirra um 600 kílómetrar á hverjum tanki. Eins og stendur dugar geymsluforðinn á vetnisbílunum um 250 kílómetra miðað við sama rúmmál tanks.

Í þessum tveimur stóru málum, þ.e. hvað varðar efnarafalana og geymsluforðann, þurfum við að tvöfalda árangurinn þannig að vetnið verði orðið sambærilegt við olíuknúða bíla. Á síðustu árum hefur hins vegar tekist að draga kostnaðinn margfalt saman og drægni bílanna hefur aukist töluvert. Þannig að eins og útlitið er nú er þess ekki langt að bíða að þessi tækni verði orðin raunverulegur valkostur við þá sem við notum nú í dag," segir Þorsteinn Ingi Sigfússon.