[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Johnny Cash (1932-2003) var einn fremsti alþýðusöngvari síðustu aldar, goðsögn með kraftmikinn og persónulegan stíl. Það fór aldrei á milli mála hver var á ferð þegar Cash brýndi raustina.

Johnny Cash (1932-2003) var einn fremsti alþýðusöngvari síðustu aldar, goðsögn með kraftmikinn og persónulegan stíl. Það fór aldrei á milli mála hver var á ferð þegar Cash brýndi raustina. Um hann var gerð myndin Walk the Line, sem verður frumsýnd hérlendis um næstu helgi. Hún sópaði til sín helstu Golden Globe-verðlaununum á dögunum og kemur örugglega við sögu þegar Óskarsverðlaunatilnefningarnar verða kynntar á morgun. Sæbjörn Valdimarsson fjallar um kvikmyndina og litskrúðugt líf söngvarans, sem auðkenndist af miklum sveiflum, hæðum og lægðum.

Við Íslendingar höfum sungið lögin hans Johnny Cash lengur en flesta grunar, eða hver kannast ekki við að hafa raulað þessar línur úr einu vinsælasta og lífseigasta lagi Hauks Morthens:

Hulda spann og hjartað brann,

aldrei fann hún unnustann.

Hér er að sjálfsögðu komin I Walk the Line, ein þekktasta ballaða Cash og dægurtónlistarinnar og vel við hæfi að myndin dregur nafn af henni. Hún naut ómældra vinsælda hér sem annars staðar, heyrist enn af og til og er eitt af sígildum lögum eins af okkar dáðustu söngvurum.

Djúp rödd og dökk föt

Vörumerki Johnny Cash var dimm, djúp og myrk barítonrödd og hrafnsvartur fatnaður, "allt frá hatti ofan í skó". Hann var aldrei lagvissastur manna, slíkt skipti engu máli þegar Cash átti í hlut. Þeir sem heilluðust af söngvaranum og hófstilltum gítarslættinum, vissu að aðeins þannig átti hann að hljóma. Flutningurinn var algjörlega sér á báti, eilítið frábrugðinn Nashville og hefðbundnu rokki; Han ríkti eins og langsjóaður kapteinn á sínum eigin útsæ.

Cash hafði geysileg áhrif á samferðamenn sína og kom víða við, söng kántrí, rokk, blús, gospel, allt með sínu einstaka nefi. Hann kom fram á sjónarsviðið á sama tíma og rokkið, steig fyrstu alvöru skrefin hjá Sun-útgáfunni, ásamt Elvis Presley, Carl Perkins, Ray Orbison og Jerry Lee Lewis.

Cash er fædddur og uppalinn Arkansasbúi, sonur bónda sem barðist jafnan í bökkum. Alþýðutónlist á sér djúpar rætur í Suðurríkjunum og Cash var innan við fermingu þegar hann byrjaði að semja eigin lög. Hann flutti til Detroit um miðja öldina og vann um tíma við bílaiðnaðinn, eða þangað til Kóreustríðið skall á. Cash gekk í flugherinn, eignaðist fyrsta gítarinn og hélt áfram lagasmíðinni þegar tími gafst til. Hann kvaddi herinn með sæmd árið 1954, flutti til Memphis og giftist æskuunnustunni. Á kvöldin þeyttist hann vítt og breitt ásamt bassa- og gítarleikara.

Frá Sun til Columbia

Árið 1955 fór að rofa til á tónlistarbrautinni. Sam Phillips gaf honum tækifæri hjá hinu sögufræga Sun Records og Cash hljóðritaði Cry, Cry, Cry; fyrsta smellinn sinn af rösklega 100. Ári síðar bætti hann um betur með Folsom Prison Blues, síðan var röðin komin að fyrsta laginu sem flaug alla leið í toppsætið; I Walk the Line.

Næstu árin naut Cash sívaxandi velgengni, samdi lög sem komust langt og spilaði með hljómsveit sinni í Grand Ole Opry, virtustu hljómleikahöll Nashvilleborgar. Andstætt hinum litríku kántrímönnum mætti Cash á sviðið, íklæddur svörtum jakkafötum, sem síðan varð einkennisklæðnaður söngvarans, sem fékk fljótlega viðurnefnið fræga, The Man in Black.

1958 kom stæsti smellurinn til þessa, Ballad of a Teenage Queen, sem var í 10 vikur í efsta sætinu.

Gospeltónlistin stóð Cash jafnan nærri, en var í litlum metum hjá Sun og Phillips. Cash sneri sér til Columbia 1958 og var hjá fyrirtækinu lungann af starfsferlinum. Cash ruddi frá sér topplögum en ánetjaðist um þetta leyti amfetamíni sem hann notaði óspart til að sligast ekki undan ofboðslegu vinnuálagi; hann var á sviðinu 300 kvöld á ári á þessu tímabili. Neyslan jókst hrikalega árið 1961, tveimur árum síðar var hann sigldur í algjört strand, norður í New York. Fjölskyldan flúin á braut og hann átti í útistöðum við lögin.

Cash og Carter

Nú var komið til kasta June Carter, hún var komin af "kántríaðlinum", var sjálf góð söngkona og lagasmiður. Cash hljóðritaði eitt þeirra, Ring of Fire og það var í sjö vikur í efsta sætinu. En Adam var ekki lengi í Paradís, Cash sökk aftur niður á botninn. Konan skildi við hann og Cash hröklaðist til Nashville. Sjálfseyðingarhvötin tók öll völd, Cash var seinþreyttur við að brjóta allar brýr að baki sér. Þá kom June til hjálpar og ásamt vinum þeirra náði hún Cash úr greipum eiturlyfjadjöfulsins og hin heittrúaða June frelsaði að lokum Svartklædda manninn. Þau giftust 1968 og ferill söngvarans tók aftur fjörkipp og naut fyrri virðingar sem stóð óslitið til dauðadags, 35 árum síðar.

Árið 1968 var breska poppbylgjan, með Bítlana í fararbroddi, búin að leggja undir sig dægurtónlistarheiminn, þá kom Sá svartklæddi með "fangelsisalbúmin" góðu; At Folsom Prison ('68) og Johnny Cash at San Quentin ('69), og gerði allt vitlaust. Hann var orðin poppstjarna sem átti eftir að láta mikið að sér kveða en Bítlarnir lögðu upp laupana.

Næstu árin lék Cash í kvikmyndum og söng með Bob Dylan og fleira góðu fólki, þó einkum konu sinni og saman ferðuðust þau um Bandaríkin til að berjast fyrir málstað frumbyggja landsins. Cash átti af og til smelli sem fóru á og upp undir toppinn.

Á níunda áratugnum fór að halla undan fæti hvað vinsældirnar snerti, Cash brást við með því að stofna The Highwaymen ásamt þremur öðrum goðsögnum úr kántríheiminum; Kris Kristofferson, Waylon Jennings og Willie Nelson. Þeir nutu talsverðra vinsælda, ekki síst á tónlistarferðalögum. Önnur plata félaganna sló rækilega í gegn og er ein sú söluhæsta á ferli söngvarans.

1993 verða enn kaflaskipti á ferli Johnny Cash, hann gekk til liðs við American Records og til varð hin stórmerkilega fjögurra platna röð American Recording (1993-2002.)

Cash lagði ekki árar í bát en heilsufarið fór síversnandi eftir að líða tók á níunda áratuginn. Auk American-seríunnar gaf hann út efni með vini sínum Nelson og myndbandið Hurt, sem var einstaklega vel heppnað og vakti mikla hrifningu, ekki síst hjá ungu fólki.

June féll frá í maí 2003 og þegar stóra ástin var gengin þvarr lífslöngun söngvarans á svörtu fötunum. Johnny Cash lést tæpum fjórum mánuðum síðar.

Kvikmyndin dregur ekkert undan

Síðla kvölds í maí 2003, heimsótti leikstjórinn James Mangold, goðsögnina Johnny Cash og leist ekki á það sem við honum blasti. Mangold hafði staðið í stífri baráttu fyrir því að kvikmynd um líf og starf Cash og konu hans, June Carter, yrði að veruleika. Maðurinn sem tók á móti leikstjóranum var greinilega orðinn langt leiddur. Það var ekki seinna vænna ef átti að hefjast handa.

Walk the Line, myndin sem varð til eftir torfengnar opinberanir hjónanna, kemur örugglega mörgum á óvart. Þau eru leikin af Joaquin Phoenix og Reese Witherspoon, og leitar langt inn á leyndar lendur sem Cash lýsti jafnvel ekki í ævisögunum tveimur; Man in Black og Cash: The Autobiography.

Til að fá undanbragðalausa lýsingu á nánum og persónulegu samskiptum Cash og Carter, varð að koma til það ótakmarkaða traust og vinátta sem skapaðist á milli Mangolds og söngvaranna. Cash neyddist til að ganga í gegnum þá þolraun að rifja upp sínar sárustu minningar frá gegndarlausum sukkárum sjöunda áratugarins, þegar eiturlyfjaneysla reið honum næstum að fullu; bitra afneitun föðurs hans, sem var Cash alla tíð þungbær, og ástina sem hann bar til annarrar konu - June Carter - á meðan hann var enn fastur í fyrra hjónabandi.

Margt er almennt vitað um Johnny Cash. Flestir þekkja röddina og útlagaímynd söngvarans svartklædda, sem heimsótti fanga í illræmdustu svartholum landsins. Hélt þeim hljómleika sem voru teknir upp og urðu metsöluplötur um allan heim. Sem ungur, uppreisnargjarn villingur á upphafsárum rokksins, málaði hann umhverfið rautt. Lenti í útistöðum við lög og reglu, sökk í dópið með fram því að leggja sinn drjúga skerf á vogarskálar bandarískrar tónlistar.

Slík vitneskja dugði hvergi nærri til að varpa ljósi á manninn undir yfirborðinu. Framleiðandinn, James Keach, Mangold og kona hans og meðframleiðandi, Cathy Conrad, lentu í þeirri erfiðu aðstöðu að vekja samúð með aðalsögupersónunni þótt hann hefði yfirgefið konu og fjögur börn til að vera með June. Og sannfæra Cash í leiðinni að kvikmyndagerðin væri það eina rétta.

Aðalatriðið var að fá áhorfendur til að skilja að þau væru allt aðrar manneskjur í dag en þau voru þá. Virkja visku goðsagnanna og reynslu sem rosknir einstaklingar sem líta um öxl til unga fólksins sem þau voru er þau lærðu sínar lexíur. Fá þau til að lýsa hvernig þau náðu því að vera það sem þau eru í dag. Til þess urðu kvikmyndagerðarmennirnir að sækja inn á myrkar lendur og finna sannleikann.

"Rekald á ólgusjó einmanaleikans"

Hugmyndin að Walk the Line varð til er óvænt vinátta myndaðist við tökur sjónvarpsþáttanna Dr. Quinn, Medicine Woman, árið 1993. Jane Seymour, eiginkona framleiðandans Keach, fór með titilhlutverkið en Cash tók að sér gestahlutverk í þætti sem Keach stjórnaði. June Carter dvaldist hjá manni sínum á meðan á tökum stóð og þarf ekki að orðlengja það að þessi tvenn hjón urðu nánir vinir upp frá því. Þegar Seymour eignaðist tvíbura nokkrum árum síðar, var annar skírður í höfuðið á guðföður þeirra, Cash.

Um miðjan 10. áratuginn fór Cash þess á leit við Keach að hann leikstýrði mynd, byggðri á lífshlaupi sínu. Cash tók það í upphafi skýrt fram að ekkert yrði dregið undan en sannleikurinn leiddur í ljós. Hann vildi heldur ekki kenna öðrum um mistök sín en sagði að bróðurmissirinn hefði um langt árabil gert sig að rekaldi á ólgusjó einmanaleikans og mótað sig sem listamann. Þegar Jack bróðir hans, sem þótti einkar mannvænlegur piltur, lést af slysförum 14 ára gamall var mikill harmur kveðinn að blásnauðri fjölskyldunni.

Handritshöfundurinn Gill Dennis raðaði bútunum saman í handrit árið 1997. Tveimur árum síðar vildi ekkert kvikmyndaver koma nálægt verkefninu og hvorki gekk né rak uns Keach kom ritinu í hendur Mangold. Hann var mikill aðdáandi Cash og hafði fylgst með þróuninni í tvö ár. Mangold og konu hans leist ekki á það sem komið var á blað, fannst góður efniviðurinn kæfður í rómantík. Þau héldu til Tennessee á vit Cash-hjónanna til að fá meira kjöt á beinin. Upp hófst tími ótaldra viðtala við hjónin, öll náin, mörg sársaukafull. Skref fyrir skref, blað fyrir blað var handritið breytt og bætt. Að því kom að Mangold áleit það tilbúið til töku, að undanskildum veikum miðhluta. Þá leysti hin guðhrædda June Carter loks frá skjóðunni og sagði Mangold frá ástarævintýri þeirra Cash í Las Vegas sem legið hafði í þagnargildi. Og Mangold var ekkert að vanbúnaði lengur.

saebjorn@heimsnet.is