Már Sveinbjörnsson hafnarstjóri sýnir uppdrátt af hafnarsvæðinu.
Már Sveinbjörnsson hafnarstjóri sýnir uppdrátt af hafnarsvæðinu. — Morgunblaðið/Þorkell
ATLANTSSKIP og Hafnarfjarðarbær hafa undirritað samning um aðstöðu fyrir fyrirtækið á tæplega fjörutíu þúsund fermetra svæði í Hafnarfjarðarhöfn.

ATLANTSSKIP og Hafnarfjarðarbær hafa undirritað samning um aðstöðu fyrir fyrirtækið á tæplega fjörutíu þúsund fermetra svæði í Hafnarfjarðarhöfn. Gert er ráð fyrir að tekjur hafnarinnar aukist um nálægt 50 milljónum króna árlega vegna þessa, en um Hafnarfjarðarhöfn er flutt árlega tæp ein milljón tonna, um 300 þúsund tonn um Hafnarfjarðarhöfn sjálfa og rúm 600 þúsund tonn um höfnina í Straumsvík, sem tilheyrir Hafnarfjarðarhöfn.

Mjög ánægðir

Gunnar Bachmann, framkvæmdastjóri Atlantsskipa, segir að þeir séu mjög ánægðir með að flytjast til Hafnarfjarðar. Þarna fái fyrirtækið stórt og mikið svæði sem gefi því möguleika til að vaxa í framtíðinni

Stefnt sé að því að öll starfsemi fyrirtækisins muni flytjast til Hafnarfjarðar á næstu tveimur árium eða þar um bil. Byggð verði vöruafgreiðsla og skrifstofur fyrir fyrirtækið á nýja svæðinu.

Gunnar sagði að þrengt hefði að starfseminni í Kópavogi og ótrygg framtíð í því að vera þar miðað við umfang fyrirtækisins, en gert væri ráð fyrir 70% vexti á þessu ári.

Már Sveinbjörnsson hafnarstjóri segir að Atlantsskip hafi keypt lóð við höfnina af lóðarhafa sem hafði fengið lóðina úthlutaða, en höfnin hafi ekki haft neinar nýjar lóðir til ráðstöfunar.

Þá sé fyrirtækinu einnig úthlutað átta þúsund fermetra svæði til viðbótar undir farmafgreiðslu og skrifstofur. Már sagði að lóðin væri á nýja hafnarsvæðinu í Hafnarfirði. "Við erum afskaplega fegnir að þessir samningar skyldu takast," sagði hann.