MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Bauhaus AG, í tilefni orða Steins Loga Björnssonar, forstjóra Húsasmiðjunnar, í Morgunblaðinu í fyrradag, um afkomu Bauhaus á Norðurlöndum.

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Bauhaus AG, í tilefni orða Steins Loga Björnssonar, forstjóra Húsasmiðjunnar, í Morgunblaðinu í fyrradag, um afkomu Bauhaus á Norðurlöndum. Fyrir hönd Bauhaus sendir Helmut Diewald athugasemdina: "Í Morgunblaðinu á föstudag er haft eftir forstjóra Húsasmiðjunnar, að fjárhagsleg afkoma Bauhaus á Norðurlöndum hafi verið undir væntingum. Bauhaus vill vekja athygli á því að sl. 16 ár hefur fyrirtækið rekið Bauhaus Gerðu það sjálf/ur verslanir (Do It Yourself) á Norðurlöndum. Verslunum okkar hefur verið vel tekið af viðskiptavinum okkar á Norðurlöndum og vegna hinna góðu undirtekta hefur verslunum okkar á Norðurlöndum stöðugt fjölgað. Á þessu ári einu, munum við opna nýjar verslanir á Norðurlöndum, sem eru að fermetrafjölda stærri, en samanlagður fermetrafjöldi Húsasmiðjunnar.

Og það fer ekki á milli mála, að við erum í viðskiptum af fullri alvöru: Við opnum ekki nýjar verslanir til þess að tapa peningum. Jafnvel forstjóri óttaslegins keppinautar á markaði, hlýtur að átta sig á því.

Bauhaus AG fer fram á að þessi leiðrétting birtist, ekki síst vegna þess að rekstur fyrirtækisins á Norðurlöndum hefur gengið í fullkomnu samræmi við allar væntingar. Jafnframt vill Bauhaus benda á, að félagið er einkafyrirtæki, sem veitir engar upplýsingar um fjárhagslega afkomu sína. Því hefur forstjóri Húsasmiðjunnar á engu að byggja, er hann kemur fram með staðhæfingar um afkomu Bauhaus og því verða orð hans ekki túlkuð á annan veg, en að hér sé um getgátur að ræða."