— Morgunblaðið/RAX
LAUNAVÍSITALA Hagstofu Íslands hækkaði um 0,6% í desember frá fyrri mánuði en á síðastliðnum 12 mánuðum hefur vísitalan hækkað um 7,2%.

LAUNAVÍSITALA Hagstofu Íslands hækkaði um 0,6% í desember frá fyrri mánuði en á síðastliðnum 12 mánuðum hefur vísitalan hækkað um 7,2%. Verðlag reiknað út frá vísitölu neysluverðs hækkaði um 4,4% árið 2005 og samkvæmt því óx kaupmáttur landsmanna um 2,8% á síðasta ári. Í hálffimmfréttum KB banka kemur fram að vaxandi kaupmáttur ýtir undir einkaneyslu. Þar segir:

"Ljóst er að hækkanir á vísitölu neysluverðs á síðustu mánuðum hafa einkum verið reknar áfram af hækkandi fasteignaverði, en vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði einungis um 1% á síðasta ári. Þannig - ef húsnæðisverð er undanskilið - hækkaði kaupmáttur einstaklinga um 6,2% á ársgrundvelli. Þessa kaupmáttaraukningu má að stórum hluta rekja til hærra gengis krónunnar sem hefur lækkað verð á innfluttum vörum. Áhrifin eru líka auðsæ af vaxandi einkaneyslu landans sem hefur sjaldan eða aldrei verið meiri. Laun á almennum markaði hækkuðu að meðaltali um 6,9% árið 2005 en á sama tíma hækkuðu laun opinberra starfsmanna og bankamanna að meðaltali um 6,5%. Frá árinu 2000 hafa laun opinberra starfsmanna og bankamanna hins vegar hækkað meira eða að meðaltali um 44,4% miðað við 39,9% launahækkun á almennum markaði. Á sama tíma hefur verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs án húsnæðis hækkað um 16%. Þannig hefur umtalsverð kaupmáttaraukning átt sér stað á síðustu fimm árum. Líklegt er að launavísitalan muni taka einhvern kipp í næsta mánuði en algengt er að laun launþega hækki um áramót, þá sér í lagi samningsbundin laun. Meðalhækkun vísitölunnar í janúar frá fyrri mánuði á árunum 1999 til 2005 er til að mynda um 3%."