Götulíf í Vilníus, höfuðborginni í Litháen. Kirkja, gömul hús, háhýsi, auglýsingaskilti, bílaumferð og stór stytta frá Sovéttímanum.
Götulíf í Vilníus, höfuðborginni í Litháen. Kirkja, gömul hús, háhýsi, auglýsingaskilti, bílaumferð og stór stytta frá Sovéttímanum. — Morgunblaðið/Sigríður Víðis
Íslendingur, segirðu? Þið voruð fyrst til að viðurkenna sjálfstæði okkar," segir leigubílstjóri í Vilníus og lítur kampakátur á mig í baksýnisspeglinum. Hann skiptir eldsnöggt um akrein og segir að ég verði að skella mér í Íslandsgötu.

Íslendingur, segirðu? Þið voruð fyrst til að viðurkenna sjálfstæði okkar," segir leigubílstjóri í Vilníus og lítur kampakátur á mig í baksýnisspeglinum. Hann skiptir eldsnöggt um akrein og segir að ég verði að skella mér í Íslandsgötu. Ég hnykla brýr. Íslands-hvað?

"Nú, þetta er gatan sem nefnd var eftir Íslandi," svarar hann að bragði, eins og ekkert sé sjálfsagðara en að gata sé nefnd í höfuðið á ríki. Ísland varð fyrst af löndum heims til að viðurkenna sjálfstæði Litháens frá Sovétríkjunum árið 1990.

Daginn eftir held ég í pílagrímsferð í miðbæinn, vopnuð litskrúðugu korti. Íslandsgatan mín, hvar ertu? Sól hefur skinið síðustu daga en nú er þungbúið og gengur á með skúrum. Við fjölfarin gatnamót hef ég kortið á loft og mæni á vegskiltið hinum megin við götuna. Stendur ekki Islandijosgata þarna? Jú, þarna er hún, Íslandsgatan mín.

Áður en ég veit af hef ég fyllst einhverju furðulegu stolti. Eitt andartak verð ég meyr og hugsa um íslenskan arf og eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár. Gott ef í rigningarúðanum rennur ekki einmitt eitt titrandi tár niður vangann á mér. Gatan er stutt en ég geng hana með viðhöfn.

"Ég var veikur þegar við fengum sjálfstæði, lá inni á spítala og missti af öllu saman," segir ungur maður um kvöldið og er svekktur. Hann bætir við að landið hafi breyst mikið síðan þá. Margir segja það sama. Litháen gekk í Evrópusambandið í fyrra, ásamt Eistlandi, Lettlandi og fleiri Austur-Evrópuríkjum. Austurlandamæri Evrópusambandsins færðust til við inngöngu nýju ríkjanna. 500 kílómetra landamæri Litháens og Hvíta-Rússlands marka nú landamæri sambandsins til austurs. Við inngöngu Austur-Evrópuþjóðanna hræddust margir að ódýrt vinnuafl myndi flæða yfir ríkari þjóðir sambandsins. Menn sáu fyrir sér að Austur-Evrópubúar flyttu í hrönnum vestur. Sú hefur ekki orðið raunin.

"Það hefur verið mikill uppgangur hérna síðustu ár," segir kona á fertugsaldri og bendir á að viðskipti hafi blómstrað, vextir lækkað og lán séu hagstæð. "Það er voða gott en íbúðaverð í borgunum hefur hins vegar rokið upp. Ég get svarið það, fasteignaverð er örugglega fjórum sinnum hærra í Vilníus en fyrir nokkrum árum," segir hún og bætir við að uppgangurinn sé miklu meiri í borgunum en á landsbyggðinni. "Er það samt ekki svoleiðis í flestum löndum?" spyr hún.

Björk, Sigur Rós og Júróvisjón

Þegar konan heyrir að ég sé frá Íslandi veðrast hún öll upp og lýsir með glampa í auga ferð sinni til landsins fyrir nokkrum árum. Henni fannst Geysir, Gullfoss og Þingvellir hreint undursamlegir. Ég kinka kolli - hef heyrt þennan áður. Jú jú, þetta er eins og að lenda á tunglinu. Einmitt, mjög sérstakt. Fátt fólk á landinu, akkúrat.

Ég hlusta áhugalaus á konuna en glampinn fer ekki úr augunum á henni. Hún ræðir lengi um landslag á tunglinu og á endanum heillast ég af áhuganum. Áður en ég veit af er ég byrjuð að úttala mig um auðn og óbyggðir, tungl og víkinga. "And then we had Leifur the Lucky, you know about him, right?"

Maður frá Finnlandi heyrir samtalið og segir í óspurðum fréttum að hann þoli ekki Björk. Tónlistin hennar sé stórfurðuleg. Stelpa frá Lettlandi kemur Björk til varnar og segir að hún sé frábær, uppáhaldstónlistarmaðurinn sinn og hún sé mjög vinsæl í Lettlandi. "Iss, þú kannt bara ekki gott að meta," segir hún við Finnann sem ranghvolfir í sér augunum.

Samræðurnar leiðast út í tal um Sigur Rós. Gott ef Júróvisjón ber ekki einnig á góma. Síðan ætla allir að sjálfsögðu að koma til Íslands einn daginn.

sigridurv@mbl.is