Hekkenfeld er skipuð þeim Jóni, Bigga, Unnsteini, Stebba og Óskari. Hljómsveitin semur lögin utan tvö ("Stórir strákar" og "Jón var kræfur karl og hraustur"). Upptökur og hljóðblöndun var í höndum meðlima og Poul Steinbeck. Hljómsveitin gefur sjálf út.

Á BOL sem merktur er Hekkenfeld, og ber með sér útúrsnúning á Brennivínsmerkinu, stendur "Probably the worst band in the world!". Hressandi að vita til þess að meðlimir vita nokkurn veginn sjálfir hvar þessi plata stendur sem er greinilega fyrst og fremst gefin út til að skemmta meðlimum sjálfum og áhangendum, séu þeir til. Hana er ekki hægt að taka alvarlega, er tilkomin eins og sveitin sjálf, tylliástæða til að hittast og glamra saman á hljóðfæri. Sem er virðingarvert í sjálfu sér. Mig grunar þá að Hekkenfeld virki vel á tónleikum, vonandi betur en þessi plata a.m.k.

Hljómsveitin er starfrækt í Danmörku og er skipuð Íslendingum sem þar búa. Hún á rætur í pönk-tökulagabandi sem stofnað var 1999 sem seinna þróaðist í Hekkenfeld. Hinir og þessir hafa runnið í gegnum bandið sem hefur verið starfandi í núverandi mynd síðan 2002.

Tónlistin er groddalegt pönkrokk, með klúrum og bjánalegum textum. Flestir textarnir fara offari í einkahúmornum, lagið "Hreðjatak" er gott dæmi um einkaflipp sem er gjörsamlega óþolandi í eyrum þess sem ekki var á staðnum eða tók þátt í gjörningnum sjálfur. Utan texta er tónlistin nákvæmlega eins og hún á að vera, hrá og losaraleg og t.a.m. í laginu "Glæpadvergar" fer sveitin á sæmilegasta flug. Mörg laganna eiga það hins vegar til að dragnast stefnulaust áfram. "Stórir strákar" (eða "Stórir strákar fá raflost") er þá illa heppnað í meðförum Hekkenfeld en "Jón var kræfur karl og hraustur" er ágætt.

Plötuútgáfa sem þessi er vel skiljanleg, hún gefur hljómsveitinni markmið og varðar þá leið sem hún er á. Platan mun fara vel í hillu meðlima sjálfra og hugsanleg gleðja nánasta vinahóp. En fyrir okkur hin er þetta skammlífur, og í langflestum tilfellum, lítt skemmtilegur brandari.

Arnar Eggert Thoroddsen