Curtis Adams hefur verið líkt við sjálfan David Copperfield.
Curtis Adams hefur verið líkt við sjálfan David Copperfield.
BANDARÍSKI töframaðurinn Curtis Adams er væntanlegur hingað til lands í byrjun apríl en hann hefur stýrt einni vinsælustu töfrasýningu í Las Vegas undanfarin misseri og verið líkt við sjálfan David Copperfield. Ísleifur Þórhallsson hjá Event Ehf.

BANDARÍSKI töframaðurinn Curtis Adams er væntanlegur hingað til lands í byrjun apríl en hann hefur stýrt einni vinsælustu töfrasýningu í Las Vegas undanfarin misseri og verið líkt við sjálfan David Copperfield.

Ísleifur Þórhallsson hjá Event Ehf., sem flytur töframanninn til landsins, sá Curtis í Las Vegas og segir hann að töframaðurinn sé einn sá magnaðasti sem hann hafi augum litið. "Hann sjálfur er ótrúlega kraftmikill og hefur töfrandi nærveru. Auk töfrabragðanna er mikil og skemmtileg tónlist í sýningunni með dansatriðum og svo spila áhorfendur sjálfir stóra rullu í sýningunni. Þetta er töfrasýning sem rokkar!"

Gengið upp veggi

Leikstjóri og annar höfundur sýningarinnar er Don Wayne en hann var leikstjóri og brelluhöfundur Davids Copperfield í tæp 20 ár. Á hann til dæmis heiðurinn að brellum eins og hvarfi Frelsisstyttunnar og Austurlandahraðlestarinnar auk brellunnar sem snýst um að ganga í gegnum Kínamúrinn. Ísleifur segir að Adams nýti sér nýjustu tækni í sýningunni, hann storki nútímalæknavísindum með því að klóna sjálfan sig aftur og aftur (?). Hann gangi upp veggi, eftir loftinu og niður aftur og þar fram eftir götunum.

Hann segir sýninguna höfða til allra en nokkur atriði gætu þó vakið óhug barna undir tíu ára aldri. Curtis Adams hefur sýnt fyrir fullu húsi í Las Vegas mörgum sinnum í viku síðastliðna mánuði og að sögn Ísleifs var það ekki auðvelt að fá hann til að stoppa sýningar þar, pakka saman öllu dótinu sínu og ferðast með það alla leið til Íslands til að sýna í Austurbæ. Eftir mikið púsluspil og langar viðræður tókst það þó loksins og hingað koma rúmlega 10 listamenn og 20 tæknimenn, ásamt nokkrum gámum af ýmiss konar búnaði.

Las Vegas í Reykjavík

Í fréttatilkynningu sem barst frá Event Ehf. segir að fyrirtækið hafi lengi haft augastað á spennandi sýningum frá Las Vegas og unnið að því hörðum höndum í þó nokkurn tíma að koma slíkri sýningu til landsins. Markar þessi sýning upphafið að nýjum kafla í atburðahaldi hérlendis, þar sem Event hyggst flytja þó nokkuð fleiri sýningar frá Las Vegas til Íslands. Ef allt gangi að óskum verði það reglulegur viðburður héðan í frá að geta farið á alvöru Las Vegas sýningu í öllu sínu veldi - í henni Reykjavík.
Curtis Adams kemur fram í Austurbæ föstudaginn 7. apríl kl. 20. Mjög takmarkað magn miða er í boði, áætlað er að hefja miðsölu um miðjan febrúar. www.event.is