Fáni vor sem friðarmerki...Við Íslendingar getum verið stoltir af "strákunum okkar" eftir vel unnin verk á EM í Sviss.
Fáni vor sem friðarmerki...Við Íslendingar getum verið stoltir af "strákunum okkar" eftir vel unnin verk á EM í Sviss. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Elvar Þórólfsson Handknattleikur er eins og aðrar íþróttir óútreiknanlegur og óvænt úrslit líta dagsins ljós á hverjum degi. Líklega hafa margir haft gaman af því að segja fyrir um...
Sigurður Elvar Þórólfsson

Handknattleikur er eins og aðrar íþróttir óútreiknanlegur og óvænt úrslit líta dagsins ljós á hverjum degi. Líklega hafa margir haft gaman af því að segja fyrir um... [veðmál] úrslit leikja íslenska landsliðsins í handknattleik á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Sviss þessa dagana.

Enda mikið í húfi og "litla" Ísland enn og aftur að etja kappi við stórþjóðir sem eru með íbúafjölda sem er langt frá því að vera jafnmikill og eiginfjárhlutfall stærstu viðskiptabanka landsins.

Ísland er einfaldlega best þessa dagana.

Við erum með þrjú stig með okkur í milliriðil á Evrópumeistaramóti í hópíþrótt og eigum góða möguleika á að skrá nafn landsins í sögubækurnar.

"Strákarnir" eru okkar.

Eftir 36:31-sigur liðsins gegn Serbíu/Svartfjallalandi í fyrsta leik C-riðilsins í Sursee í Sviss glæddust vonir stuðningsmanna Íslands þess efnis að liðið kæmist áfram í milliriðil keppninnar. Þær vonir urðu að veruleika eftir 28:28-jafntefli liðsins á föstudagskvöldið gegn Dönum og íslenska liðið tryggði sér farseðil í milliriðil.

Það er alltaf gaman að velta fyrir sér höfðatölu í slíku samhengi.

Íslendingar hafa á að skipa liði sem er með svipaðan íbúafjölda á bak við sig og Björgvin í Noregi. En það sem skiptir máli í þessu samhengi er að Norðmenn eru tæplega fimm milljónir samtals, og já, Danir. Ekki gleyma því. Gamla einokunarveldið, þeir eru rúmlega sex milljónir að tölu og við getum ekki yfirgefið þessa umræðu án þess að minnast á Svía - það hafa allir heyrt af Svíagrýlunni.

Svíar eru ekki einu sinni með á þessu Evrópumeistaramóti, en þeir eru tæplega tíu milljónir. Jú, Mats Olsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Svía, er þjálfari hjá Portúgal.

Sá sem þetta skrifar hefur ekki einu sinni áhuga á að afla sér upplýsinga um það hvar Svíar eru staddir í sínu uppbyggingarferli.

Íslendingum er nokk sama. Svíar eru ekki að skemmta sér í Sviss þessa dagana.

Íslendingar hafa á að skipa mjög sérstöku fyrirkomulagi þegar kemur að skipulagi og framsetningu á íþróttum fyrir börn og unglinga - og ekki má gleyma "harkinu" sem á sér stað í rekstri "afreksíþrótta". Dugnaður eða "sjálfboðaliðastarf" eru hugtök sem ekki eru einu sinni til í orðaforða sumra Evrópuþjóða.

En þessi hugtök eru mjög ríkjandi í samfélögum í N-Evrópu og Skandinavíu.

Sala á salernispappír - þið vitið hvað um er að ræða. "Betlið" þekkja allir sem hafa komið að rekstri íþróttafélags og þeir aðilar hafa upplifað það starf með sterkum hætti. Höfnun er líklega það sem kemur fyrst upp í hugann hjá þeim sem hafa starfað á þeim vettvangi.

Börn og unglingar á Íslandi geta að öllu jöfnu gengið að ágætri aðstöðu vísri til æfinga og keppni undir handleiðslu þjálfara og kennara sem leggja mikið á sig.

Aðrar þjóðir búa ekki alltaf svo vel að eiga slíkt stoðkerfi.

Hins vegar get ég ekki annað en hrósað þeim sem hafa lagt allt sitt undir í rekstri afreksíþrótta á undanförnum árum. Án þeirra væru "strákarnir okkar" ekki að glíma við stórþjóðir í milliriðli á Evrópumeistaramóti.

Án þeirra væru afreksíþróttir ekki til á Íslandi.

Árangur Íslands á stórmóti sem Evrópumeistaramótinu í Sviss vekur ýmsar spurningar um kynningarstarf og útbreiðslu á því starfi sem unnið er á Íslandi.

Það er tími til kominn að þeir sem hafa áhuga á stjórnmálum fari að huga að því starfi sem unnið er í grasrót íþróttastarfs á "klakanum" og sjái til þess að foreldrar sem vilja fylgjast með börnum sínum í uppbyggilegu íþróttastarfi þurfi ekki að eyða öllum sínum frístundum í að finna leiðir til að fjármagna íþróttastarfið.

Það væri kannski einfaldasta lausnin að "minnka útrásina" í útgjöldum utanríkismála og einbeita sér þess í stað að því að efla innra starf íslenskrar æsku.

Og þá er ekkert undanskilið; íþróttastarf, skátastarf, tónlistarnám eða annað frístundastarf. Dugnaður er okkar einkenni en það má alltaf gera betur.

Áfram Ísland.

seth@mbl.is