Frá Halldóri Sigurðssyni: "HR. STURLA Böðvarsson. Á málaskrá Alþingis liggja fyrir drög að frumvarpi frá yðar ráðuneyti. Það fjallar um að veita Vegagerðinni aukið vald til að stöðva og rannsaka bíla á þjóðvegum landsins."

HR. STURLA Böðvarsson.

Á málaskrá Alþingis liggja fyrir drög að frumvarpi frá yðar ráðuneyti.

Það fjallar um að veita Vegagerðinni aukið vald til að stöðva og rannsaka bíla á þjóðvegum landsins.

Þar getið þér, sem ráðherra, ákveðið að eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar verði heimilt að stöðva ökutæki.

Einnig að ökumanni verði skylt að stöðva ökutæki þegar eftirlitsmaður gefur stöðvunarmerki.

Honum er einnig skylt að hlíta því að eftirlitsmaður athugi ástand ökutækis og hleðslu og skal veita honum aðgang að upplýsingum og gögnum sem varðveitt eru í ökurita ökutækis, á ökuritakorti, á skráningarblöðum ökurita eða með öðrum hætti. Ef við eftirlit vaknar grunur um alvarlegt brot er eftirlitsmönnum heimilt að banna frekari för ökutækis til að hindra áframhaldandi brot þar til lögregla kemur á vettvang. Ökumaður skal hlíta banni eftirlitsmanns um frekari för þar til því hefur verið aflétt.

Er með þessu verið að veita Vegagerðinni algert lögregluvald á þjóðvegum landsins. En samkvæmt gildandi lögum þá hafa ekki margir þetta vald hér.

Þar vísa ég í lög frá 1996 nr. 90 13. júní, en þar segir:

9. gr. Handhafar lögregluvalds. 1. Ríkislögreglustjóri, vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórar, varalögreglustjórinn í Reykjavík, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, löglærðir fulltrúar lögreglustjóra og lögreglumenn fara með lögregluvald.

2. Dómsmálaráðherra er heimilt í undantekningartilvikum að fela öðrum starfsmönnum lögreglu lögregluvald tímabundið til að sinna sérstökum verkefnum.

3. [Áhafnir varðskipa og gæsluflugvéla] 1 fara með lögregluvald þegar þær annast eða aðstoða við löggæslu.

4. [Tollstjórar, löglærðir fulltrúar þeirra og tollverðir fara með lögregluvald á sínu starfssviði og þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu.] 2

5. Hreppstjórar fara með lögregluvald samkvæmt lögum um hreppstjóra.

6. Héraðslögreglumenn fara með lögregluvald þegar þeir gegna starfinu.

7. Þeir sem kvaddir eru lögreglu til aðstoðar lögum samkvæmt fara með lögregluvald á meðan þeir gegna starfanum.

8. Nemar í Lögregluskóla ríkisins fara með lögregluvald þegar þeir gegna lögreglustarfi.

Einnig verður Vegagerðinni gefin heimild, samkvæmt þessum nýju lögum, til að sekta flytjanda eða ökumann, hvort sem brotið verður rakið til saknæms verknaðar starfsmanns flytjanda eða ekki, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir flytjanda eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.

Og neiti ökumaður eða flytjandi að verða við tilmælum lögreglu eða eftirlitsmanns um stöðvun ökutækis, banni við áframhaldandi för þess eða um aðgang að upplýsingum og gögnum má gera þeim að greiða in solidum sekt fyrir brot á lögum þessum.

Og af þeim takmörkuðu upplýsingum sem ég hef aflað mér hefur mér verið sagt hvað "in solidum" þýddi.

Mér var svarað, að hægt væri að sekta bíla, án þess að stoppa þá.

T.d. ef nokkrir bílar frá sama fyrirtækinu ækju í samfloti og vegagerðarmenn gæfu stöðvunarmerki og fyrsti bíllinn stoppaði ekki og allir hinir bílarnir fylgdu honum, þá gætu þeir sent einn reikning á alla bílana, til þeirra höfuðstöðva, og þeir yrðu að borga.

Þér segið á heimasíðu yðar (sturla.is) að markmiðið með þessu frumvarpi sé aukið umferðaröryggi.

Ég tel svo ekki vera, því það að veita lítt menntuðum starfsmönnum Vegagerðarinnar það vald sem hér er lýst, sem aðrir opinberir starfsmenn þurfa að vera mörg ár að læra (Lögreglan), segir mér, að þér eruð að veita Vegagerðinni það vald, með sinni takmörkuðu menntun, að stöðva, sekta og jafnvel kyrrsetja bíla hvar sem er!

Og að veita þeim það vald að sekta og nota upplýsingar úr bílavigtum, sem eru ólöglegar (ólöggiltar vigtir).

Og samkvæmt upplýsingum íslenskra laga á Löggildingarstofa Íslands að sjá um eftirlit með vigtum, sem eru á undanþágu, til að reikna vigt bíla og sekta ef þeir eru of þungir. En Löggildingarstofa sér víst ekki um það eftirlit, þrátt fyrir lagagrein þess efnis, heldur skoðar Frumherji ehf. vigtirnar einu sinni á ári.

Hér áður fyrr var alltaf lögreglumaður með starfsmanni Vegagerðarinnar. Lögreglan sá um að stöðva bílinn, biðja um ökuritaskífu, ökuskírteini og þess háttar, en vegagerðarmaðurinn sá um að athuga og vigta bílinn.

Hvað ríkið sparar marga lögreglumenn veit ég ekki, en hættan sem fylgir þessu frumvarpi margfaldar hættuna á þjóðvegunum.

Ef Vegagerðin fær þetta vald (lögregluvald) tel ég skilaboðin vera þess eðlis, að ef þeir sem aka stórum bílum út um allt land koma að slysi, þar sem enginn hefur slasast en samt þarf lögregluaðstoð, skuli þeir hringja í Vegagerðina, þar sem hún hefur þetta vald, og þá er eins gott að það séu menn á símanum dag og nótt.

Eftir hvaða lögum skal maður fara?

Með kveðju

HALLDÓR SIGURÐSSON

vörubílstjóri.

Frá Halldóri Sigurðssyni: