Martröð Önnu Kareninu eins og hún er túlkuð í teiknimyndasögunni.
Martröð Önnu Kareninu eins og hún er túlkuð í teiknimyndasögunni.
ALLT má finna á netinu. Nýjasta uppgötvunin er teiknuð útgáfa af meistaraverki Leos Tolstoys, Önnu Karenínu . Sagan um Önnu er með mínum uppáhaldsverkum enda Tolstoy óviðjafnanlegur.

ALLT má finna á netinu. Nýjasta uppgötvunin er teiknuð útgáfa af meistaraverki Leos Tolstoys, Önnu Karenínu .

Sagan um Önnu er með mínum uppáhaldsverkum enda Tolstoy óviðjafnanlegur. En bókin er löng og eflaust margir sem veigra sér við allri lesningunni, þó skemmtileg sé.

Fyrir þá sem vilja kynna sér inntak sögunnar með hraði er teiknimyndasagan því ágætis kostur.

Að baki teiknimyndasögunni standa þeir Valerí Kachev og Ígor Saposjkov sem saman mynda Studioks. Af heimasíðu þeirra félaga virðist sem þeir hafi í nógu að snúast, bæði við teiknimyndasögugerð og auglýsingavinnu. Þannig gefur, meðal annars, að líta á síðunni vinnu að auglýsingu fyrir "íslenska" Bochkarev bjórinn og einnig undirbúningsteikningar fyrir nýju rússnesku hasarmyndina "Dagvaktin" (r. Dnevnoi Dozor) sem sló öll aðsóknarmet í Rússlandi á dögunum, framhald hinnar vinsælu "Næturvaktar" (r. Nochnoi Dozor) sem sýnd var í íslenskum kvikmyndahúsum fyrir skemmstu.

Söguna um Önnu má nálgast ókeypis á vef Studioks og er frásögnin nokkuð trú sögu Tolstoys, en þó færð nær samtímanum á stílfærðan hátt og höfundarnir leyfa sér um leið vissa aðlögun að rússneskum samtímagildum, s.s. þegar Anna sendir Vronsky, elskhuga sínum, sms-skeyti um barnið sem hún ber undir belti.

Þó ekkert jafnist á við stílbrigði Tolstoys er teiknimyndasagan ekki amaleg, og helst að kvarta megi yfir að frásögnin sé fullhröð á köflum. Þeir sem freistast til að lesa Önnu Karenínu í teiknimyndaformi verða að muna að fegurð sögunnar liggur í sjálfu sér ekki í söguþræðinum sjálfum heldur innsæi og lýsingum Tolstoys á mannlegu eðli.

Rétt er að taka fram að frásögnin er bæði á ensku og rússnesku, svo íslenskir lesendur ættu ekki að eiga í neinum vandræðum með lesturinn, og læra kannski einhverja rússnesku í leiðinni.

Ásgeir Ingvarsson