Frá undirritun samnings Nýsis og Fjölsmiðjunnar. Frá vinstri: Þorbjörn Jensson forstöðumaður, Stefán Þórarinsson, stjórnarformaður Nýsis, Kristján Guðmundsson, stjórnarformaður Fjölsmiðjunnar, og Steinunn Guðnadóttir, fulltrúi SSH í stjórn Fjölsmiðjunnar.
Frá undirritun samnings Nýsis og Fjölsmiðjunnar. Frá vinstri: Þorbjörn Jensson forstöðumaður, Stefán Þórarinsson, stjórnarformaður Nýsis, Kristján Guðmundsson, stjórnarformaður Fjölsmiðjunnar, og Steinunn Guðnadóttir, fulltrúi SSH í stjórn Fjölsmiðjunnar.
NÝSIR og Fjölsmiðjan hafa gert með sér samkomulag um stofnun sjávarútvegsdeildar við Fjölsmiðjuna í Kópavogi. Stefnt er að útgerð 150 tonna báts þegar á þessu ári. Áhöfnin verður skipuð unglingum sem ekki hefur tekist að fóta sig á almennum...

NÝSIR og Fjölsmiðjan hafa gert með sér samkomulag um stofnun sjávarútvegsdeildar við Fjölsmiðjuna í Kópavogi. Stefnt er að útgerð 150 tonna báts þegar á þessu ári. Áhöfnin verður skipuð unglingum sem ekki hefur tekist að fóta sig á almennum vinnumarkaði. Þekkingarfyrirtækið Nýsir mun leiða hóp stuðningsaðila Fjölsmiðjunnar sem fjármagna bátakaupin og rekstur deildarinnar.

Markmið Fjölsmiðjunnar, sem starfrækt hefur verið í fimm ár, er að hjálpa og styrkja unglinga sem ekki hefur tekist að fóta sig í samfélaginu, þjálfa þá til vinnu og gera þá virka á vinnumarkaði og í skóla.

Nýsir leggur fé í bátakaupin auk þess að fá fleiri bakhjarla til að sameinast um þau.

Þorbjörn Jensson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, segir fulla þörf á því að koma sjávarútvegsdeildinni á legg. "Hugmyndin er sú að áhöfn bátsins verði skipuð ungu fólki, að undanskildum skipstjóra, stýrimanni og vélstjóra. Um borð fá nemarnir tækifæri til þess að kynnast sjómennskunni, aðlagast lífinu á sjó og læra réttu handbrögðin. Markmiðið er að nemar Fjölsmiðjunnar geti síðan verið gjaldgengir skipverjar og svarað kallinu þegar vanan háseta vantar á bát," er haft eftir Þorbirni í fréttatilkynningu.

Sérstakur rekstur verður um sjávarútvegsdeild Fjölsmiðunnar og markmiðið er að verðmætasköpun skólaskipsins standi að mestu undir rekstri deildarinnar.