VELFERÐARRÁÐ Reykjavíkur hefur samþykkt að setja af stað aðgerðir til að mæta þörfum eldri borgara í Reykjavík sem búa við einangrun.

VELFERÐARRÁÐ Reykjavíkur hefur samþykkt að setja af stað aðgerðir til að mæta þörfum eldri borgara í Reykjavík sem búa við einangrun.

Farið verður í heildarúttekt á þjónustu við eldri borgara en á sama tíma verða settir á laggirnar starfshópar í hverfum borgarinnar sem fara yfir stöðu þeirra sem þar búa. Verða þjónustumiðstöðvar borgarinnar nýttar til að samræma aðgerðir og bregðast við þeim aðstæðum sem upp kunna að koma, segir í frétt frá borginni.

"Ástæða þessara aðgerða er margþætt en m.a. er verið að bregðast við fréttum af andlátum fólks sem finnst dögum og jafnvel vikum eftir andlát sitt," segir í fréttinni. "Þá er vitað til þess að margir hafa einangrast á efri árum og þrátt fyrir ýmiss konar tilboð um heimsóknir, félagsstarf, þjónustu heim og fleira þá hefur það ekki náð til þessa fólks. Nú munum við sameina krafta allra þeirra sem eru að bjóða eldri borgurum þjónustu og fá þannig heildarmynd á það hversu margir eru án allra utanaðkomandi afskipta og getum þá boðið þeim aðstoð eftir þörfum og vilja hvers og eins."