SAMANALAGT birtust um 170 þúsund innlendar fréttir og greinar í helstu fréttamiðlum landsins, bæði prent- og ljósvakamiðlum, á síðasta ári eða 14-15 þúsund á mánuði, auk þess sem birtist í tímaritum og sérhæfðum útgáfum, að því er fram kemur í samantekt...

SAMANALAGT birtust um 170 þúsund innlendar fréttir og greinar í helstu fréttamiðlum landsins, bæði prent- og ljósvakamiðlum, á síðasta ári eða 14-15 þúsund á mánuði, auk þess sem birtist í tímaritum og sérhæfðum útgáfum, að því er fram kemur í samantekt Fjölmiðlavaktarinnar ehf.

Þar af birtust um 125 þúsund fréttir og greinar í dagblöðunum og var hlutdeild Morgunblaðsins mest eða 37%, Fréttablaðsins 29% og DV 20%. Hlutdeild Blaðsins var 10%, en það hóf ekki útgáfu fyrr en í maímánuði og Viðskiptablaðsins 5% en það kemur út tvisvar í viku. Einungis er um að ræða samantekt á fjölda greina en ekki stærð þeirra.

Í ljósvakamiðlum virtust rúmlega 32 þúsund innlendar fréttir á síðasta ári. Þar af voru flestar fluttar af fréttastofu Ríkisútvarpsins eða 38%, fréttastofu sjónvarps 20%, Stöðvar 2 20% og Bylgjunnar 18%. Um er að ræða fjölda innlendra frétta en ekki lengd þeirra.

Tíðast um stjórnmál

Svo dæmi sé tekið af lögreglufréttum voru þær hlutfallslega flestar í DV 34%, í Morgunblaðinu 31% og í Fréttablaðinu 28%.

Fram kemur að tíðast var fjallað um stjórnmál, bæði í dagblöðum og ljósvakamiðlum í fyrra. Viðskipti voru í öðru sæti í ljósvakamiðlum og dóms- og rétttarfarsmál í þriðja sæti og sveitarstjórnarmál í fjórða sæti. Í dagblöðum var fjölmiðlun í öðru sæti, popptónlist í þriðja sæti, viðskipti og rekstur í fjórða sæti og sveitarstjórnarmál í fimmta sæti, en ítrekað skal að um er að ræða talningu á fjölda en ekki lagt mat á lengd umfjöllunar.