[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rómantíkin var allsráðandi þegar Karl Lagerfeld sýndi hátísku línu Chanel fyrir vor og sumar 2006 í París síðastliðinn þriðjudag.

Rómantíkin var allsráðandi þegar Karl Lagerfeld sýndi hátísku línu Chanel fyrir vor og sumar 2006 í París síðastliðinn þriðjudag. Sýningin þykir með því allra fegursta sem Lagerfeld hefur skapað fyrir tískuhúsið og var haldin á hringlaga sviði í Grand Palais galleríinu í grennd við Champs-Elysées; stórri stálhöll með glerhvolfþaki sem byggð var fyrir heimssýninguna árið 1900. Grand Palais hefur verið í viðgerð um nokkurt skeið og var engin kynding í húsinu, sem átti vel við hið jökulhvíta en mjúka yfirbragð. Til allrar hamingju voru ansi margir í pels.

Pífur, fjaðrir og pastellitir voru áberandi í túlkun Lagerfelds fyrir næsta vor og sumar, og voru fyrirsæturnar bæði með fíngert skraut í hárinu og um úlnliðina. Lögun og mýkt, léttleiki og frelsi voru skilgreiningar sem hönnuðurinn hafði í huga við vinnu sína, að eigin sögn, og voru sýningarstúlkurnar farðaðar með ljósum, hlutlausum tónum í andliti og pastellitum á augnlok, út á gagnaugun. Takið eftir uppsettu en frjálslegu hárinu. Þennan hár- og förðunarstíl er vel hægt að heimfæra upp á íslenskar aðstæður. Hvort sem maður tilheyrir þotuliðinu í anda eða raun. | helga@mbl.is