(F.v.) Þorgeir Baldursson, varaformaður Samtaka atvinnulífsins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti Alþýðusambands Íslands, undirrita þjónustusamninginn.
(F.v.) Þorgeir Baldursson, varaformaður Samtaka atvinnulífsins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti Alþýðusambands Íslands, undirrita þjónustusamninginn. — Morgunblaðið/Ásdís
AÐILAR vinnumarkaðarins og menntamálaráðuneytið hafa gert þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um sérstakt átak til að efla starfs- og endurmenntun ófaglærðra og einstaklinga með litla menntun og bætta stöðu erlends vinnuafls í íslensku...

AÐILAR vinnumarkaðarins og menntamálaráðuneytið hafa gert þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um sérstakt átak til að efla starfs- og endurmenntun ófaglærðra og einstaklinga með litla menntun og bætta stöðu erlends vinnuafls í íslensku samfélagi.

Samningurinn er gerður á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við endurskoðun samninga síðla síðasta árs, en þar er meðal ananrs kveðið á um að fela Fræðslumiðstöð atvinnulífsins að útbúa námsefni og þjálfa leiðbeinendur í íslenskukennslu fyrir útlendinga til að koma til móts við þarfir þeirra sem leita fótfestu á íslenskum vinnumarkaði og bæta félagslega stöðu þeirra. Einnig er gert ráð fyrir sérstökum framlögum úr ríkissjóði til að greiða fyrir námskeiðahald og endurmenntun einstaklinga á vinnumarkaði sem leggja stund á nám sem byggist á námskrám sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins heftir vottað og menntamálaráðuneytið staðfest. Símenntunarmiðstöðvum, sem starfræktar eru um land allt, verður falið að annast þetta nám, að því er fram kemur á vef Alþýðusambands Íslands.

Mat á raunfærni

Þá er einnig gert ráð fyrir því að framhald verði á samstarfi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og menntamálaráðuneytisins um svokallað mat á raunfærni sem miðar að því að leggja mat á fyrra nám og færni einstaklinga sem vilja bæta við sig menntun.

Einnig hefur verið ákveðið að efla náms- og starfsráðgjöf fyrir ófaglærða og þá sem litla menntun hafa. "Menntamálaráðuneytið og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins munu láta fara fram athugun á því hvernig þeim stuðningi verði fyrir komið þannig að hann nýtist sem best og fleiri nýti sér þau sí- og endurmenntunartækifæri sem í boði eru. Í þessu skyni verða auknir fjármunir veittir til að standa straum af einstaklingsmiðaðri starfs- og námsráðgjöf á vegum símenntunarstöðvanna um land allt," segir einnig á vef ASÍ.