[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flugan horfði bókstaflega í hundsaugu íslenskrar kvikmyndagerðar þegar hún mætti á opnun Dráttarbrautarinnar í gamla Slippnum á Mýrargötu en þar var henni fagnað fjörlega af ferfætlingi af kyni íslenska fjárhundsins.

Flugan horfði bókstaflega í hundsaugu íslenskrar kvikmyndagerðar þegar hún mætti á opnun Dráttarbrautarinnar í gamla Slippnum á Mýrargötu en þar var henni fagnað fjörlega af ferfætlingi af kyni íslenska fjárhundsins. Tvífætlingar voru þó í meirihluta þeirra sem mættu til að fagna opnun gerjunarmiðstöðvar kvikmyndaliðsins og spjölluðu þeir saman í myrku húsinu sem lýst var með kertaljósum og prýtt með veggspjöldum úr íslenskum bíómyndum. Afi íslenskrar kvikmyndagerðar, F riðrik Þór Friðriksson , var á staðnum og það voru líka Sigurður Pálsson skáld og leikstjórinn Dagur Kári Pétursson .

En meira af hundum; mætti stjörnulögmanninum Sveini Andra Sveinssyni vestur í bæ en hann var í heilsubótargöngu með þýska fjárhundinn sinn. Sagt er að fólk velji sér hundategundir sem hafi líkt lundarfar og það sjálft og ef rétt er þá er Sveinn Andri með eindæmum trygglyndur og gáfaður. Væri verra ef hann ætti huglausan smáhund.

Hálfgerðir hundadagar hjá Flugunni sem flaug á hundatískusýninguna sem haldin var í Blómavali . Fjölmargir krúttlegir hvuttar sýndu nýjustu tískuna undir dillandi tónlist og fórst þeim það afar vel úr loppu. Þótt ég sé fluga en ekki hundur gæti ég vel hugsað mér að klæðast sumum flíkunum sem voru til sýnis. Þyrftu þó að vera klæðskerasaumaðar fyrir fröken Flugu...

CIA (Center for Icelandic Art) , kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, opnaði nýja og endurbætta heimasíðu veftímaritsins List en vefritið verður gefið út á prenti einu sinni á ári í samvinnu við villta götublaðið Grapevine . Haldið var teiti af tilefninu í Ingólfsnausti , neðst á Vesturgötu . Boðið var upp á vín og gos og nýju síðunni varpað á stórt tjald og héldu Jón Proppé og Christian Schoen , framkvæmdastjóri CIA, ræður.

Listamaðurinn Spessi opnaði sýningu í Galleríi Banananas á Barónsstíg og mætti Fluga spennt á spariskónum. Henni varð því óneitanlega nokkuð brugðið þegar í ljós kom að sýningin samanstóð af tveimur gömlum rúmdýnum negldum upp á vegg og var höfuðgafli komið fyrir með samskonar hætti. Ein ljósmynd af rúminu var svo líka á vegg. Upptalið. Búið.

Hótel Borg hefur löngum verið uppáhaldsstaður fjölmiðlamanna til að taka viðtöl. Fluguskott brá sér þangað til að hitta vinkonur í kaffi um miðjan dag og settist við hringborð með hvítum dúk, skammt frá sjónvarpskonunni Völu Matt , sem var í félagsskap stutthærðrar konu. Þegar stöllurnar gengu úr salnum sagði Vala hátt og snjallt: "Oh, ég vildi að ég gæti verið með svona stutt hár!" Heyrðu Vala, þú getur það. Skora hér með á þig að fá þér töff, stutta og úfna greiðslu. Þegar ein drottning hverfur á braut mætir ávallt önnur og að þessu sinni var það ungfrú heimur; Unnur Birna Vilhjálmsdóttir , sem sveif konunglega inn í salinn. Þar tyllti hún sér hjá blaðakonu sem var greinilega að taka viðtal við hana. Ungfrúin, fegurst fljóða, var afskaplega látlaus í klæðaburði, lítið sem ekkert máluð og með svartan makkann í tagli. Og Spaugstofumenn sprelluðu eins og þeir ættu lífið að leysa í upptökum í einu horninu. Brjálað stuð á Borginni ... | flugan@mbl.is