Ólafur Sigurðsson fæddist í Hafnarfirði 15. júní 1918. Hann andaðist á Vífilsstöðum föstudaginn 20. janúar síðastliðinn.

Ólafur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Fjóla Hermannsdóttir, d. 1952. Þau eignuðust þrjú börn, þau eru: Guðrún Ólafsdóttir, f. 1946, gift Herði H. Garðarssyni, þau eiga þrjú bö rn og fimm barnabörn. Hermann Ólafsson, f. 1947, kvæntur Jóhönnu Þorvaldsdóttur.

Þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn. Sigurður Ólafsson, f. 1950, sambýliskona Hildisif Björgvinsdóttir. Sigurður á eina dóttur úr fyrra hjónabandi.

Seinni kona Ólafs var Hulda Jóna Hávarðardóttir en þau skildu 1980. Þau eignuðust þrjá syni og eru þeir: Hilmar Dagbjartur Ólafsson, f. 1955, kvæntur Jóhönnu Egilsdóttur og eiga þau fjögur börn og tvö barnabörn. Ólafur Ólafsson, f. 1964. Hlynur Ólafsson, f. 1967, kvæntur Sólborgu Guðmundsdóttur og eiga þau fjórar dætur og eitt barnabarn.

Fyrir átti Hulda einn son sem Ólafur ól upp, Reyni Örn Eiríksson.

Ólafur gekk í Samvinnuskólann og vann við ýmis störf en lengst vann hann hjá Olíufélaginu, í 38 ár, allt þar til hann hætti störfum sjötugur að aldri. Síðustu tvö ár hefur Ólafur búið á elliheimilinu á Vífilsstöðum.

Útför Ólafs fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Elsku afi, núna ertu farinn og kemur aldrei aftur. Það eina sem við fáum að halda eftir eru minningar og frábærar stundir sem við áttum með þér.

Að eiga afa einsog þig var æðislegt, þú varst svona ekta afi. Einmitt einsog afar eiga að vera, alltaf með eitthvað sniðugt, ef það var ekki nammi, einhver brögð þá voru það sögurnar sem ég hélt alltaf svo mikið uppá. Rétt áður en ég átti að fermast sagðirðu mér sögu af því þegar þú varst ungur og sast uppá kirkjulofti með Kalla og varst að kasta steinum í prestinn. Síðan var það líka þegar mamma þín fór með þig og Kalla á hestbaki uppí sveit, og það tók ykkur þrjá daga, mér fannst það ansi merkilegt! Það er ömurlegt að geta ekki lengur haft neinn afa til að heimsækja og gera líf manns enn áhugaverðara. Nú verða víst ekki fleiri afakarmellur, sódastrím eða flatkökur og kókómjólk. Ekki einu sinni harðfiskur með smjöri, sem tekur á móti manni þegar maður kemur í heimsókn á næstu tímum.

Við söknum þín svo mikið og vildum að lífið væri ekki svona ósanngjarnt.

Við komum saman einn daginn og ákváðum að telja upp nokkrar góðar minningar um þig en þær komu svo fljótt að það var varla hægt að koma þeim öllum niður á blað, þetta segir mörgum bara það hvað þú varst æðislegur og leitt að missa. Marín man eftir því þegar hún var yngri og þið tvö voruð alltaf að fara í búðina. Eitt sinn keyrðu þið á rauða skodanum uppí 10/11 í Engihjalla og ætluðuð að kaupa í matinn, þegar það var búið drógstu Maríni inní nammideildina og baðst hana að velja eitt stykki. Hún valdi sér súkkulaði, síðan var komið að því að borga byrjaði Marín að fá sér bita af súkkulaðinu, þá allt í einu stóð hann í kokinu á henni, hún hóstaði og náði varla andanum, þá kom einhver kona og byrjaði að hrista hana til og beyta ýmsum brögðum. Loks náði Marín að hósta þessu upp, þá kemur þú í sömu andrá með kókómjólk í hendinni og sagðir ,,Ég ætlaði nú bara að sækja kókómjólk handa þér". Þetta er svo fyndið, og ég veit svo sannarlega að þú vilt ekki hafa okkur grátandi einsog kornabörn, heldur eigum við að brosa og hafa það gaman.

En minningarnar verða enn fleiri og fleiri. Þú í köflóttu skyrtunni þinni, með derhúfuna á skodanum. Eða gamli herjeppinn sem þú gast einungis ferðast á á sumrin.

Þegar þú fluttir í Smárann breyttist margt, það var styttra fyrir Maríni og systur hennar að kíkja oftar í heimsókn til þín og fá sér flatköku og kókómjólk. Svo var öllum pappír eytt með því að skreyta veggina þína, og þegar pappírinn var búinn var byrjað að teikna á servíettur, þetta var allt hengt upp og þegar maður kom í heimsókn sá maður að þú áttir þína aðdáendur! Þú varst líka snillingur í því að gera sódastrím, það var alger snilld að koma í heimsókn til afa og fá sér sódastrím. Eftir veikindin þín á tíma, gerðistu kókisti og varst án efa verri heldur en unglingar nú á dögum, það var kók sem lagaði allt hjá þér, ég og Marín hlógum oft af þér.

Eldri maður að drekka kók, við ætluðum bara að bíða og sjá hvenær við mættum bjóða þér pizzu! Það er æðislegt að geta bara hlegið og haft gaman af þessu, þó að söknuðurinn segi oft til sín.

Okkur langar bara að þakka fyrir æðislegar og ógleymanlegar stundir.

Og okkur þykir endanlega vænt um þig og munum aldrei gleyma hversu yndislegur þú varst.

Þín barnabörn,

Linda Ósk Hilmarsdóttir,

Marín Ósk Hlynsdóttir.