Telur rétt að halda áfram. Ingólfur Sigfússon fiskifræðingur á leið að kvíunum í Ekru, ásamt Erlendi Jóhannssyni við stýrið.
Telur rétt að halda áfram. Ingólfur Sigfússon fiskifræðingur á leið að kvíunum í Ekru, ásamt Erlendi Jóhannssyni við stýrið. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Þeir eiga að halda áfram, það er það eina sem gildir" segir Ingólfur Sigfússon fiskeldisfræðingur, sem starfað hefur við laxeldi Sæsilfurs í Mjóafirði frá upphafi.

Þeir eiga að halda áfram, það er það eina sem gildir" segir Ingólfur Sigfússon fiskeldisfræðingur, sem starfað hefur við laxeldi Sæsilfurs í Mjóafirði frá upphafi. "Það er búið að taka okkur fimm ár að koma þessu eldi á rétt ról og þess vegna finnst mér mjög hart að þurfa að hætta þessu. Persónulega hef ég lagt mig allan fram og margt hefur spilað inn í og gert eldið erfitt. Menn fóru of geyst af stað, eins og að ætla sér að setja næstum því tvær milljónir fiska á eina staðsetningu þar sem eru kannski sextán kvíar og þurfa setja yfir hundrað þúsund fiska í hverja kví. Það er ekki raunhæft. Menn lögðu of mikið undir í byrjun og svo þegar ytri aðstæður verða erfiðar og áföll eins og seiðaveiki kemur upp, þá er búið að sóa of miklu. Það var lán í óláni að innst í firðinum, þar sem eldið gengur best í dag, komu milljón seiði í stað þeirra 1.800 þúsunda sem áttu að fara þar í kvíar." Ingólfur segir að eftir fimm ára rannsóknir og þróun lausna á m.a. aukningu vaxtarhraða og fóðurnýtingu telji hann búið að vinna bug á öllum helstu vandamálum í eldinu. "Reynslan hefur nýst okkur og allt byggist á henni. Við viljum hiklaust leggja að eigendum Sæsilfurs að endurskoða ákvörðun sína."

Ingólfur segir vanda Sæsilfurs mega rekja til þess er upp kom nýrnaveiki í seiðastöðvunum Íslandslaxi og Silfurstjörnunni, sem sjá áttu Sæsilfri fyrir laxaseiðum. Árið 2004 fengu Mjófirðingar þriðjung þeirra seiða sem til stóð að setja í kvíar og 2005 komu engin seiði. Þetta hafi verið mikið áfall og nú blasi við að þau 600 þúsund laxaseiði, sem tiltæk séu, fari til Færeyja en ekki í kvíar í Mjóafirði. Þangað þurfi að flytja þau í nokkrum ferðum í ferskvatni og reynsla gefi til kynna að afföll verði mjög mikil. "Mér skilst á framkvæmdastjóranum að þeim finnist ekki svara kostnaði að koma með þau hingað til að ala upp og framhaldið sé ekki gott heldur í þessu. Það er lítið af hrognum til að búa til ný seiði og þeir sjá ekki fram á að verði nema svipaður skammtur þar næsta ár. Það er eins og þeir hafi bara gefist upp. Það er spurning af hverju þeir bíða ekki og sjá, með allar þær fjárfestingar sem lagðar hafa verið í þetta. Seiðaflutningur hefur farið handaskolum hjá þeim og afföll verið of mikil, vandræði hafa verið með seltumagn í seiðastöðvum og menn ekki vandað nægjanlega til verka. Í fyrstu hefur Samherji sjálfsagt ætlað sér að græða á þessu strax frá upphafi og svo komist að því þetta væri nú kannski ekki svo einfalt í raunveruleikanum, að henda bara einhverjum hundrað þúsund stykkjum í kví og fá upp úr því fleiri hundruð tonn af fiski. Það er ekki raunhæft. En vel er hægt að láta þetta bera sig og græða ágætis pening á því. "

Ingólfur segir hundruð milljóna króna liggja í seiðum, kvíum og búnaði í Mjóafirði. Engin von sé til að Mjófirðingar geti haldið áfram á eigin spýtur en spurning hvort fyrirtæki eins og HB Grandi vilji koma að málum. Þeir séu með eldi í Berufirði, hafi farið hægar í sakirnar og hafi kannski meira þanþol. Þá sé þorskeldi ekki raunhæfur kostur fyrir Mjófirðinga, því rannsóknir séu allt of skammt á veg komnar til að byggja megi á slíku eldi.