EITT af lykilatriðunum í heilbrigðisáætlunum bresku stjórnarinnar er, að öllum breskum þegnum verði boðin víðtæk og ókeypis læknisskoðun fimm sinnum um ævina.

EITT af lykilatriðunum í heilbrigðisáætlunum bresku stjórnarinnar er, að öllum breskum þegnum verði boðin víðtæk og ókeypis læknisskoðun fimm sinnum um ævina. Það myndi auðvelda læknum að fást við suma sjúkdóma strax og hvetja fólk til að breyta lífsháttunum.

Kemur þetta fram í skýrslu, sem birt verður á morgun, mánudag, en Patricia Hewitt, heilbrigðisráðherra Bretlands, segir, að hugmyndin sé, að þeir, sem þurfi á því að halda, fái sérstakan umsjónarmann eða þjálfara, sem gefi þeim góð ráð um mataræði og hreyfingu. Ekki yrði þó um neina einkatíma að ræða, heldur stöðugt samband og eftirlit að því er fram kom á fréttavef BBC , breska ríkisútvarpsins.

Aukið fé til forvarna

Hewitt sagði, að auk víðtækrar læknisskoðunar yrði hugað að mataræði, reykingum, hreyfingu og líkamsþunga og sjúkdómssaga fjölskyldu og náinna ættingja skoðuð.

Ákveðið var að vinna að þessu eftir að 75% þátttakenda í könnun kváðust hlynnt eftirliti af þessu tagi. Er það í samræmi við þá stefnu stjórnarinnar að færa til fé innan heilbrigðiskerfisins og leggja meira í forvarnir.