Gaza, Washington. AP, AFP. | Vaxandi spenna er á milli stuðningsmanna Fatah- og Hamas-hreyfingarinnar eftir sigur þeirrar síðarnefndu í kosningunum í Palestínu.

Gaza, Washington. AP, AFP. | Vaxandi spenna er á milli stuðningsmanna Fatah- og Hamas-hreyfingarinnar eftir sigur þeirrar síðarnefndu í kosningunum í Palestínu. Í fyrrakvöld kom til átaka með þeim á Gaza þar sem vopnum var beitt og í gær var óttast, að upp úr kynni að sjóða eftir boðaðar mótmælagöngur. George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að hætta stuðningi við palestínsku heimastjórnina nema Hamas hafni ofbeldi og láti af þeirri stefnu að tortíma Ísrael.

Þúsundir stuðningsmanna Fatah efndu til mótmæla á Gaza í fyrrakvöld og í gærmorgun, brenndu bíla og kröfðust þess, að Mahmoud Abbas forseti og öll miðstjórn Fatah-hreyfingarinnar segði af sér. Kenndu þeir spillingu hennar um ósigurinn. Níu manns, þar af fimm lögreglumenn, særðust er stuðningsmenn fylkinganna skiptust á skotum á Gaza í fyrrakvöld. Um 400 Fatah-liðar lögðu í gær undir sig skrifstofur hreyfingarinnar í Betlehem á Vesturbakkanum og ítrekuðu kröfur um afsögn flokksforystunnar.

Bush Bandaríkjaforseti sagði í fyrrakvöld, að ákveðið hefði verið að hætta öllum stuðningi við Palestínustjórn nema Hamas afvopnaðist, hafnaði ofbeldi og léti af þeirri stefnu að afmá Ísraelsríki.

Fjárhagslegur stuðningur við Palestínumenn og framhald á honum í ljósi sigurs Hamas-hreyfingarinnar verða eitt helsta málið á fundi Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í London á morgun með fulltrúum Evrópusambandsins, Rússlands og Sameinuðu þjóðanna, kvartettsins svokallaða, sem reynt hefur að hrinda í framkvæmd Vegvísinum, áætlun um frið í Mið-Austurlöndum.