Svanberg Kristófer Þórðarson fæddist á Akureyri 26. ágúst 1934. Hann lést á Landspítalanum Landakoti hinn 25. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Birna Sæmundsdóttir, f. 1913, d. 1970, og Þórður Sveinbjörn Davíðsson, f. 1912, d. 1986, og bjuggu þau lengst af í Keflavík. Svanberg varði frumbernsku sinni hjá hjónunum Margréti Sigríði Eyjólfsdóttur, f. 1903, d. 1996, og Sigfúsi Davíðssyni, f 1903, d. 1985, á Læk í Holtum í Rangárvallasýslu en þar dvaldi hann þangað til hann fór á sjó. Svanberg var einn af sex systkinum sem öll eru á lífi. Hinn 4. maí 1964 eignuðust Svanberg og Hólmfríður Sveinbjörndóttir, f. 1945, soninn Sigfús Sveinbjörn. Árið 1966 kynntist Svanberg Sigurbjörgu Kristjánsdóttur, f. 19. mars 1944, og kvæntist henni 16. september 1967. Synir þeirra eru: 1) Kristján, f. 3. júní 1967, kvæntur Jónu Rut Guðmundsdóttur. Börn þeirra eru Kristófer Dagur og Hrafnhildur Edda Magnúsdóttir. 2) Helgi, f. 20. ágúst 1968. Dætur hans eru Lára Eygló og Hera Sísí.

Svanberg fór ungur til sjós og starfaði m.a. á síðutogurum og millilandaskipum. Ungur að árum lærði Svanberg til bifvélavirkjunar og var það eitt hans helsta áhugamál. Auk þess starfaði Svanberg við ýmis störf, m.a. sem vörubílstjóri, vaktmaður og undir það síðasta sem húsvörður hjá ÍTR.

Svanberg var jarðsunginn frá Grafarvogskirkju 3. janúar, í kyrrþey að ósk hins látna.

Mig langar að minnast pabba míns með því að skrifa nokkrar línur sem ná þó engan veginn að gera skil öllum góðum minningum mínum um samverustundir okkar pabba.

Það er mér ofarlega í huga þegar pabbi kom í heimsókn til mín á sumrin á Sólheima þegar ég var unglingur. Þá fórum við í bíltúr um Laugarvatn, skoðuðum bíla um leið og við renndum niður gómsætum rjómaís. Á leiðinni spjölluðum við um heima og geima en þó sérstaklega tónlist. Við feðgarnir áttum það sameiginlegt að vera báðir miklir aðdáendur Elvis Presley. Síðar meir áttum við góðar samverustundir á Laugarvatni í hjólhýsi foreldra minna og var pabbi góður í því að kenna mér að leggja spilakapal. Oft gengum við í fallegu umhverfi Laugarvatns og hlustaði hann þolinmóður á sögur mínar um leiklistina og leikhópinn minn, Perluna. Í staðinn reyndi ég þolinmóður að aðstoða hann við þrif á bílnum en voru bílar hans áhugamál. Annað ævintýri okkar pabba var þegar hann tók mig með sér á sjóinn. Ég fékk að fara einn stuttan túr með honum og fékk að upplifa sjóinn sem hann var svo hugfanginn af.

Þetta eru bara minningabrot af öllu því sem ég mun geyma með mér um þig og gefur mér svo mikið þegar þú hefur kvatt okkur öll sem söknum þín. Nú þegar ég kveð þig, elsku pabbi minn, hugsa ég til þess hversu góður þú varst mér og langar mig að hafa fallegustu bæn sem ég kann lokaorð mín um minningu mína um þig.

Ó, Jesús bróðir besti

og barnavinur mesti,

æ breið þú blessun þína

á barnæskuna mína.

Mér gott barn gef að vera

og góðan ávöxt bera,

en forðast allt hið illa,

svo ei mér nái' að spilla.

Það ætíð sé mín iðja

að elska þig og biðja,

þín lífsins orð að læra

og lofgjörð þér að færa.

Þín umsjón æ mér hlífi

í öllu mínu lífi,

þín líknarhönd mig leiði

og lífsins veginn greiði.

(Páll Jónsson.)

Sigfús.

Elsku pabbi minn, nú ert þú dáinn og farinn á betri stað. Þú varst búinn að vera veikur lengi en ekki varst þú að kvarta. Það var alltaf stutt í grínið hjá þér og prakkaraskapinn. Ég man þegar Lára var lítil þá þurftir þú alltaf að stríða henni með því að nudda skeggbroddunum við kinnina á henni. Ég man líka eftir því þegar þú sást Heru Sísi í fyrsta skipti, hvað hún ljómaði öll og þú líka. Þú varst yndislegur afi sem vildir allt fyrir barnabörn þín gera. Barnabörnin munu sakna þess að hafa þig ekki nálægt en ég veit að þú vakir yfir okkur. Sterkari karakter og betri pabba var ekki hægt að óska sér. Ég mun sakna þess að geta ekki tekið utan um þig, knúsað og kysst, og sagt að ég elska þig. Við áttum góðar stundir saman og mun ég varðveita þær í hjarta mínu þangað til við hittumst aftur. Góða nótt, elsku pabbi minn, þín verður sárt saknað eða eins og kóngurinn sagði, sem var þitt goð, "you are always on my mind" .

Þinn sonur og barnabörn,

Helgi, Lára Eygló og Hera Sísi.

Hann Svanberg Kristófer Þórðarson tengdafaðir minn, eða Svansi eins og hann var kallaður, hefur nú fengið hvíld. Þrátt fyrir að barátta hans við sjúkdóm síðustu vikurnar hafi verið honum erfið þá sýndi hann mikinn styrk alla tíð og var óhræddur. Ég kynntist honum vel fyrir nokkrum árum þegar hann bjó í sama húsi og við mæðgurnar í Breiðholti. Oft áttum við áhugaverðar samræður um sjómannslífið, bernsku Svansa og synina hans sem voru honum afar kærir. Ein af fjölmörgum hlýjum minningum sem ég á í dag er hversu góður hann var dóttir minni. Mér er mjög minnisstætt þegar ég heimsótti hann í eitt skipti og hann lagðist á stéttina með henni og lék við hana á hennar forsendum. Hann tók henni opnum örmum og leit ætíð á hana sem eitt af barnabörnum sínum. Hlýja og væntumþykja hans gerði það að verkum að hann varð mikill afi í huga dóttur minnar sem saknar hans en býr eins og við öll yfir góðum minningum um hann Svansa. Barnabörnin öll voru honum afar ofarlega í huga og sá ég hversu vænt um honum þótti um Láru Eygló og Hrafnhildi Eddu og svo yngstu krílin, þau Heru Sísí og nafna sinn Kristófer. Þrátt fyrir að heilsu hans hrakaði mikið síðustu árin var hann ótrúlega öflugur að sinna börnunum og fylgdist vel með þeim þó svo að þrek til þess að halda í við þau hafi minnkað til muna. Gamalt bílasafn hans með viðkvæmum bílum var opið fyrir nafna hans og reyndi afi að kenna nafna sínum að meðhöndla það með virðingu þrátt fyrir ungan aldur afastráksins.

Þrátt fyrir að við fyrstu kynni hafi Svansi birst sem fábrotinn maður sem ekki vildi láta fyrir sér hafa, bjó hann yfir svo mörgum öðrum persónulegum þáttum sem hann sýndi þegar kynni urðu sterkari. Þannig meinti hann alltaf vel þó að ákveðnin, eða þvermóðskan eins og við stundum hlógum saman að, hamlaði honum stundum í samskiptum við aðra. Hann var mikill húmoristi og hafði lúmskt gaman af þegar synir hans þóttust geta strítt honum. Svansi átti afar auðvelt með að samgleðjast þeim sem honum þótti vænt um og var laus við alla öfund eða snobb eins og hann kallaði það sjálfur. Hann var óhræddur að prófa nýjungar, þrátt fyrir að meta ákveðin rótgróin gildi umfram nýjungar. Þannig prófaði hann nýjungar í matreiðslu minni en viðurkenndi að gamla góða skyrið og hefðbundið brauð hentaði honum betur en pastað. Samskipti okkar voru sérstaklega hlý og skemmtileg og þrátt fyrir ólíkar skoðanir á ýmsu þá fann ég gagnkvæma virðingu. Þannig var mér það ofviða að skilja einlægan áhuga hans á Elvis Presley en fannst þeim mun áhugaverðara að sjá hann í dansskónum að bíða eftir því að komast út á dansgólfið. Áhugamál hans voru einkum fjölskyldan, bílar, sund, ferðir til Laugarvatns þar sem þau hjónin áttu hjólhýsi og ýmislegt fleira.

Í haust þegar ég heimsótti hann á hjartadeild Landspítalans áttum við gefandi samræður og virtist hann vera ákveðinn í því að nýta alla möguleika til endurhæfingar og sækja ýmislegt félagsstarf fyrir aldraða sem hann hafði áður álitið fyrir mun eldra fólk en sjálfan sig. Þrátt fyrir ákveðna feimni og kvíða við að sækja félagsstarf virtist hann ákveðinn í að reyna fyrir sér og horfa á þennan þröskuld sem áskorun. Gömul gildi hans komu sterkt fram um að hann ætti ekki að setja eigin þarfir í forgang og ekki að skapa neina óþarfa fyrirhöfn en eftir talsverðar samræður og hvatningu horfði hann jákvæðum augum á endurhæfingu á Landakoti. Því miður náði Svansi ekki að sinna þessari áskorun vegna stöðugt hrakandi heilsu en þess í stað mætti honum frábær umönnun á þeim tveimur deildum Landakots sem hann dvaldi á síðustu mánuðina. Mig langar að nota tækifærið og þakka starfsfólki Landakots fyrir þann kærleik og hlýju sem einkenndi umönnun þess.

Svansi minn, ég þakka þér af miklum hlýhug fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og nú þegar þú hefur lokið þeim verkefnum sem fyrir þér lágu mun ég gæta sonar þíns og afkomenda þinna um leið og við geymum minningar um þig í hjarta okkar. Að lokum ég kveð þig með ljóði Katrínar Rutar Þorgeirsdóttur "afi minn" fyrir hönd barna minna.

Nú hefur það því miður gerst

að vond frétt til manns berst.

Kær vinur er horfinn okkur frá

því lífsklukkan hans hætti að slá.

Rita vil ég niður hvað hann var mér kær

afi minn góði sem guð nú fær.

Hann gerði svo mikið, hann gerði svo margt

og því miður get ég ekki nefnt það allt.

En alltaf í huga mínum verður hann

afi minn góði sem ég ann

í himnaríki fer hann nú

þar verður hann glaður, það er mín trú.

Því þar getur hann vakað yfir okkur dag og

nótt

svo við getum sofið vært og rótt

hann mun ávallt okkur vernda

vináttu og hlýju mun hann okkur senda.

Elsku afi, guð mun þig geyma

yfir okkur muntu sveima

en eitt vil ég þó að þú vitir nú

minn allra besti afi, það varst þú.

Jóna Rut Guðmundsdóttir.