Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is SAMKYNHNEIGÐ og kirkjuleg hjónavígsla hefur mikið verið rædd hér á landi undanfarið, ekki síst eftir að lagt var fram á Alþingi frumvarp um breytingar á lagaákvæðum um réttarstöðu samkynhneigðra.
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is

SAMKYNHNEIGÐ og kirkjuleg hjónavígsla hefur mikið verið rædd hér á landi undanfarið, ekki síst eftir að lagt var fram á Alþingi frumvarp um breytingar á lagaákvæðum um réttarstöðu samkynhneigðra. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að trúfélögum verði veitt heimild til lögformlegrar vígslu samkynhneigðra para, en breytingartillaga sem Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingar, hefur lagt fram vegna frumvarpsins kveður á um að slíkt verði leyft. Umræður um samkynhneigða og kirkjuna fara víðar fram um þessar mundir en á Íslandi. Nýlega gerði Nils-Henrik Nilsson, sem starfað hefur hjá sænsku biskupsstofunni, samantekt um stöðu þessara mála í Svíþjóð og víðar.

Fram kemur í samantektinni að þrjú ár eru liðin frá því að lögð var fyrir sænska kirkjuþingið tillaga þess efnis að samkynhneigð pör gætu látið gefa sig saman í kirkjulegu brúðkaupi, líkt og gagnkynhneigðu fólki stendur til boða. Tillagan var felld, en kirkjuyfirvöldum var falið að vinna að hugmyndum sem lagðar yrðu fyrir kirkjuþing næsta árs. Áttu hugmyndirnar að skapa grunn að kirkjulegri framkvæmd staðfestrar samvistar samkynhneigðra para. Á kirkjuþingi sænsku kirkjunnar í fyrra var svo samþykkt, með um 2/3 hlutum greiddra atkvæða, að útbúa form vegna fyrirbæna- eða blessunarathafnar samkynhneigðra para í staðfestri samvist. Frá því um miðjan tíunda áratuginn höfðu samkynhneigð pör getað leitað til kirkjunnar um blessun en engar skýrar reglur höfðu þó gilt um form hennar.

Þrenns konar form

Sænska kirkjan hyggst láta útbúa þrenns konar form vegna athafnanna en þau á að taka í notkun í sænskum kirkjum í haust. Er ætlunin sú að pör geti valið milli formanna þriggja. Eitt formið mun líkjast mjög venjulegu hjónavígsluritúali hjá sænsku kirkjunnni, en annað byggist upp á grind sem hver söfnuður notar svo til þess að móta athöfnina. Þriðja formið er svo byggt upp á allt annan hátt en hefðbundið hjónavígsluritúal og lýtur öðrum forsendum en það.

Ekki nýjar umræður

Umræður um samkynhneigð og kirkju eru ekki nýjar af nálinni, hvorki í Svíþjóð né annars staðar í Evrópu. Sænska kirkjan vann fyrstu greinargerð sína um þessi mál árið 1972 og var sú úttekt bæði umdeild og mikið rædd. 1988 var í fyrsta sinn lögð fram tillaga á kirkjuþingi um blessunarathöfn fyrir samkynhneigð pör. Árið 1995, ári eftir að sænsk yfirvöld lögleiddu staðfesta samvist samkynhneigðra, sendu sænskir biskupar frá sér tillögu um fyrirbæn til handa þeim sem hefðu gengið í slíka samvist. Tekið var fram að kirkjan tæki engan þátt í skráningu samvistarinnar og að ekki væri um opinbera guðsþjónustu að ræða. Árið 1999 var tillagan endurskoðuð og þá var fyrirbænin færð nær opinberri guðsþjónustu, en á þeim tíma var orðið algengt að vinir og ættingjar samkynhneigðra para væru viðstaddir blessunarathafnirnar.

Danir fyrstir að lögleiða staðfesta samvist

Sem fyrr segir var staðfest samvist samkynhneigðra lögleidd í Svíþjóð árið 1994. Danir urðu þó fyrstir þjóða til þess að samþykkja lög um staðfesta samvist, en þetta var árið 1989. Samskonar lög tóku gildi í Noregi árið 1993, á Íslandi árið 1996 og árið 2001 í Finnlandi. Allnokkur Evrópulönd fylgdu svo fordæmi Norðurlandanna. Í dag er staðan sú að fjögur ríki í heiminum hafa lögleitt borgaraleg hjónabönd samkynhneigðra. Umrædd ríki eru Holland, Belgía, Spánn og Kanada. Hvergi er málum háttað með þeim hætti að þjónandi prestar gefi samkynhneigð pör saman með lögformlegum hætti.

Eftir að breytingar höfðu verið gerðar á löggjöf sumra Evrópuríkja sem tryggðu réttarstöðu samkynhneigðra jukust væntingar til kirkna í þessum löndum um að taka á málum þessa hóps, að því er fram kemur í sænsku samantektinni.

Þrír flokkar kirkna

Þar segir að skipta megi í þrjá flokka þeim kirkjum sem hafa á einhvern hátt viljað koma til móts við samkynhneigð pör. Í fyrsta flokknum séu kirkjur eða biskupsdæmi sem hafa ákveðið bjóða samkynhneigðum pörum í staðfestri samvist upp á blessunarathöfn í nafni kirkjunnar og hafa í því skyni útbúið sérstakt form. Í öðrum flokknum eru kirkjur sem í raun hafa leyft að slíkar athafnir fari fram, en fara fram á að þær séu ekki framkvæmdar í nafni kirkjunnar heldur með einstaklingsbundnum hætti, í samvinnu presta og samkynhneigðra para. Í þriðja flokknum eru kirkjur sem telja að fyrirbæn með pari í staðfestri samvist geti ekki talist hluti af opinberum athöfnum kirkjunnar heldur sé einkamál prests og þess sem hann veitir fyrirbænina.

Form fyrir blessun tekið upp í fjórum mótmælendakirkjum

Aðeins fjórar mótmælendakirkjur og þrjú biskupsdæmi innan bandarísku biskupakirkjunnar, sem tilheyrir anglikönsku kirkjunni, hafa tekið upp form fyrir blessun para í staðfestri samvist og þau verið samþykkt af viðeigandi stofnunum kirkjunnar. Tvær mótmælendakirknanna eru evangelískar kirkjur í Þýskalandi auk mótmælendakirkju Hollands og dönsku þjóðkirkjunnar.

Margar mótmælendakirkjur á Norðurlöndum og í Þýskalandi teljast til síðasta flokksins, en æ fleiri þessara kirkna eru að skoða möguleika á opinberri blessunarathöfn samkynhneigðra para. Í miðflokknum eru svo nokkrar þýskar mótmælendakirkjur, að því er segir í samantekt Nils-Henrik Nilssons.