Pistilhöfundur við gröf Pablo Neruda og þriðju eiginkonu hans, Matilde Urrutia, Isla Nera.
Pistilhöfundur við gröf Pablo Neruda og þriðju eiginkonu hans, Matilde Urrutia, Isla Nera. — Ljósmynd/ Símon Bragason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lauk síðasta pistli mínum með því að vísa rétt aðeins til dáðrekkis kvenþjóðarinnar og forsetakosninganna í Chile.

Lauk síðasta pistli mínum með því að vísa rétt aðeins til dáðrekkis kvenþjóðarinnar og forsetakosninganna í Chile. Sigur sósíalistans og trúleysingjans Michele Bachelet á auðkýfingnum Sebastian Piñera var í meira lagi athyglisverður, einkum sökum þess að ekki varð betur séð en frambjóðendurnir væru hnífjafnir í skoðanakönnunum þremur eða fjórum vikum fyrir kosningar. En þá yfir lauk hafði Bachelet vinninginn með meiri mun en nokkur frambjóðandi frá falli herforingjastjórnarinnar, og þrátt fyrir að bæði kaþólska kirkjan og fjármagnið stæði þétt að baki keppinautnum sem til viðbótar hafði til að bera mikinn þokka og flutti mál sitt af prúðmennsku og áberandi sannfæringarkrafti. En það var fólkið sem kaus Bachelet, hún hafði þjóðarsálina og hin skapandi öfl sem lágu ekki á liði sínu með sér, og hér hefur munað um framlag þjóðlagasöngkonunnar Isabel, dóttur goðsögunnar Violetu Parra, og félaga hennar. Þessi Parra-fjölskylda skipar alveg sérstakan sess í seinni tíma menningarsögu Chile og þannig mun hinn aldni Nicanor Parra (f. 1914) hafa verið orðaður við Nóbelsverðlaunin fyrir ljóð sín og þó frekar andljóð sem sumum þykja jafnvel ekki ómerkari en margt sem Mistral og Neruda létu eftir sig.

Starfssvið forseta Chile er á svipuðum nótum og í Bandaríkjunum, þar af leiðandi mikið í húfi, um leið mikill hiti í kosningunum eins og þar. Í þessu tilviki var það grasrótin sem flykkti sér um Bachelet, sem er umhverfissinni, hafði hin mýkri gildi og græna byltingu á stefnuskrá sinni. Ekki vanþörf á þar sem hin hörðu gildi erlendra stórfyrirtækja og einkavæðing hafa leikið landið grátt og borið með sér mengun og óþrif sem eru sívaxandi vandamál. Af vissum öflum hér á landi væri Bachelet vafalítið úthrópuð ofverndunarsinni jafnframt titluð fleiri báglegum nafngiftum, en að því kemur óhjákvæmilega að við þurfum að kljást við sömu vandamál ef heldur fram sem horfir.

Síðla dags rétt fyrir kosningar var ég staddur aleinn á Armas-torgi í Santiago og fékk þá hugmynd að skoða mig um enn vestar og kom þá í alveg nýjan borgarhluta hvar fyrir var gífurlegur mannfjöldi líkt og á breiðgötum New York þá mest er um að vera. Þar mátti sjá uppákomur ýmiss konar og sums staðar veifuðu menn myndum af frambjóðendunum og var áberandi að áhangendur Piñera höfðu sig meira í frammi enda kominn í minnihluta í skoðanakönnunum. Þetta áberandi fínt borgarhverfi með mörgum sallafínum kaffihúsum, þó einungis fyrir skyndisopa, bara stæði við flott, vel hönnuð og aflöng borð en hvergi sæti, gjarnan holdfríð fljóð við afgreiðslu. Kominn aftur til Viña horfði ég svo á kosningaúrslitin í sjónvarpinu á sunnudagskvöldi. Reyndist mikilsháttar sjó að fylgjast með hinum mikla og einlæga fögnuði sem braust út í Santiago og Antofagasta þegar ljóst var að Bachelet hafði sigrað, og gat maður ómögulega annað en látið hrífast með. Piñera stóð sig karlmannlega þegar hann viðurkenndi ósigurinn og hélt firnalanga tölu svo naumast var maðurinn af baki dottinn.

Þótt misskipting sé öllu meiri og fátækt sýnilegri ásamt meðfylgjandi betli og fjölmörgum klækjum og sniðugheitum einstakra til að verða sér úti um peninga er í raun furðumargt líkt með Chile og Íslandi. Báðar þjóðirnar til skamms tíma mjög einangraðar, önnur langt úti á Ballarhafi en hina skilur Andesfjallaraninn heila 4.000 kílómetra frá öðrum löndum álfunnar, sums staðar rís hann meira en 6.000 metra yfir sjávarmál og víðast nær ókleifur. Í báðum tilvikum rufu skipaferðir einangrun og þarnæst flugið, vegasamband komst að vísu á milli Santiago og Buenos Aires, en svo hlykkjótt að í samanburði voru Kambarnir þegar þeir voru erfiðastir sem flatlendi, og einn hæsti ef ekki hæsti fjallavegur Evrópu, Gross Glockner í austurrísku Ölpunum, trúlega mun viðráðanlegri. Þá er hætta á ef eitthvað kemur fyrir á leiðinni að menn frjósi í hel, raunar ekki langt síðan herflokkur á æfingu varð slíkum örlögum að bráð. Sonur minn, sem fyrir nokkrum árum fór í stjörnuskoðunarferð rúma 2000 metra upp í Andesfjöllin, segist aldrei gangast undir slíka raun aftur. Þetta er þannig eitt af því sem menn láta sér detta í hug að gera einu sinni, eins og til að mynda að ganga upp alla stigana í Kirkju Frelsarans á Amager, kominn niður heitir margur sér að gera slíkt ekki öðru sinni.

Bæði löndin rík að náttúrugæðum og hér hefur Chile vinninginn því að auk ómældrar orku í iðrum jarðar er gróðursæld víða mikil, jarðmöttullinn frjósamur og gjöfull. Þaðan koma og bestu vín álfunnar sem landsmenn hafa góðar tekjur af ekki síður en gulli, kopar, nítrati og öðrum verðmætum málmum og efnasamböndum. Þá má ekki gleyma fiskimiðunum í hafinu, laxeldi né hinum mörgu baðströndum. Viña del Mar, Vínbjargið við hafið, er sér á báti þar sem einnig er um borg að ræða sem býður upp á frábæran arkitektúr og nokkur söfn. Húsagerðarlistin heldur áfram í Renace, framlengingu Vina lengst við enda lónsins, byggðin liggur hærra og slær öllu við um fjölþætt og ævintýraleg hótel og í björgin ofan hennar gæti nafngiftin Viña del Mar verið sótt. Þá skiptir fljótið Marga Marga borginni, einkum til frásagnar að í því mun hafa fundist gull! Báðar þjóðirnar hafa af lítilli fyrirhyggju ausið upp úr hafinu sem um ótæmandi auðlindir væri að ræða og einkum er ástandið slæmt í Norður-Chile þar sem grípa hefur þurft til róttækra ráðstafana. Þá ber á frumstæðum hugsunarhætti hjá báðum þjóðunum og tilhneigingar til bruðls og rangsnúins verðmætamats og ekki laust við að dömurnar renni hýru auga til útlendinga einkum séu þeir ljósir eða blakkir yfirlitum. En að þeir í Chile skuli hafa slíka yfirburði yfir okkur í nútíma arkitektúr má rekja til þess að húsameistararnir hafi meiri skilning á þýðingu eldri gilda og staðbundnum umhverfisþáttum. Frá fyrri tíð var og er ennþá til mikið af fallegum húsum, einkum þeim sem innflytjendur frá Evrópu, helst Þýskalandi, byggðu, og kauphöllin gamla í Santiago ber sterk evrópsk einkenni frá tíma barokksins.

Annað líkt með þjóðunum er nánasarsemi hins opinbera við listir og listasöfn og hér hafa einkaaðilar ekki styrkt skapandi athafnir í sama mæli og víða gerist, má þó vera skiljanlegt í ljósi stjórnarfarsins á síðustu öldum ásamt erlendum yfirráðum. Til að mynda er aðkoman í mörgum safnanna í Chile næsta ömurleg og allri kynningu mjög ábótavant eins og áður hermir. Þá er næstum jafn erfitt að gera sér grein fyrir stöðu myndlistar í Chile í Bella Arte, Listasafninu í Santiago, og stöðu íslenskrar listar á Listasafni Íslands. Þekkingu almennings á sjónmenntum er takmörkuð og fólk kaupir frekar myndefni og/eða frásögn en málverk, innri lífæðar listaverka þeim lokuð bók. Það sagði okkur listakona nokkur, Paulete að nafni, sem við hittum á krá við höfnina í Valparaiso, að 90% almennings keyptu götulist, en hvað hin 10% snerti réði klíkuskapur frama myndlistarmanna, nokkrir væru í sviðsljósinu en fleiri settir hjá. Tveir málarar teljast bera höfuð og herðar yfir aðra og hafa báðir sótt frama sinn til útlandsins. Skal fyrstan nefna Roberto Matta, sem fann sinn eigin stíl sem er eins konar sambland af abstrakt og hjástefnu, og þarnæst Claudio Bravo, sem málar í stíl ofurraunsæis, þó án þess að styðjast við ljósmyndir, og mun ég kynna þá báða á næstunni.

Það er meira en athyglisvert að þrátt fyrir að bókabúðir séu lítið áberandi og þær flestar litlar státar Chile af tveimur og hérumbil þremur nóbelshöfundum, sem undirstrikar rækilega að gæði eru eitt en magn annað. Til sanns vegar má færa að það er gríðarleg lifun og hún eftir því lærdómsrík að koma á þessar slóðir, Rómanska Ameríka alveg sérstakt fyrirbæri á hnettinum. Menning hennar og arfleifð umheiminum stöðugt ljósari og meira umhugsunarefni eftir því sem hátækninni tekst að draga fleiri tjöld frá fortíðinni. Svo er það ekki einasta sorgarsaga hvernig farið hefur verið með alla þessa frjósömu heimsálfu, sem með regnskógum sínum er lífæð heimsbyggðarinnar, heldur einnig menningararfleifð, óhemju ríkidæmi flutt til Evrópu en græðgin samt svo mikil að meira kann að liggja á hafsbotni.

Einstakt að hafa fengið tækifæri til að heimsækja öll þrjú húsin sem hið mikla skáld og þjóðhetja Pablo Neruda byggði og setja sig inn í daglegt líf hans og umhverfi, einkum magnað að koma í draumahúsið við Isla Nera. Neruda var afar sterkur og litríkur persónuleiki sem ræktaði öðru fremur geð heimahaga í ljóðum sínum eins og allir sannir listamenn. Var maður gleði og alvöru, dálítið sérvitur og þannig hélt hann því staðfastlega fram að vatn bragðaðist betur í lituðum glösum, hafði sinn háttinn á við ljóðagerðina, notaðist aldrei við ritvél, lét sér nægja blýant, pennastöng og grænt blek og var alltaf með græna blekbyttu í farteskinu.

- Minnist þess að níu ára sonardóttir mín var alveg heilluð og sagði: "Afi, þetta var aldeilis gaman." Um leið kemur heimsþorpið og samhæfing náms upp í huga mér. Er kvöldaði vorum við að snæðingi á veitingastað við ströndina. Þá bar að fjórtán ára hálfíslenska hnátu sem tyllti sér hjá okkur. Þegar hún heyrði nafnið Isla Nera var hún alveg gáttuð og spurði hvað það nú væri, við sögðum það heiti á ströndinni neðan draumahúss Pablos Neruda, og þá hrökk út úr henni: "Hvaða kall var nú það?"

Bragi Ásgeirsson