5. janúar sl. var Björn Ingi Sveinsson, verkfræðingur, ráðinn framkvæmdastjóri Saxbygg ehf., sem er fjárfestingarfélag í sameiginlegri eigu Saxhóls ehf og Byggingarfélags Gylfa og Gunnars (BYGG) ehf.

5. janúar sl. var Björn Ingi Sveinsson, verkfræðingur, ráðinn framkvæmdastjóri Saxbygg ehf., sem er fjárfestingarfélag í sameiginlegri eigu Saxhóls ehf og Byggingarfélags Gylfa og Gunnars (BYGG) ehf. Áður hafði Björn Ingi um nokkurra mánaða skeið unnið með félaginu að undirbúningi og samningagerð vegna verkefna þess erlendis, sér í lagi í Englandi.

Björn Ingi er með meistaragráðu (1979) í byggingarverkfræði frá Kaliforníuháskóla í Berkeley, Kaliforníu og hefur víðtæka reynslu að baki, nú síðast sem forstjóri verkfræðistofunnar Hönnunar hf., borgarverkfræðingur í Reykjavík og sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar.

Stór verkefni í London

Saxbygg, sem stofnað var í maí árið 2004, er fjárhagslega öflugt fjárfestingarfélag með fjárfestingargetu upp á 25 milljarða króna. Áherslur félagsins eru bæði á erlendum og innlendum vettvangi og er félagið nú þegar með stór fasteignatengd verkefni í London, jafnframt því að vera virkur þátttakandi á innlendum fjárfestingamarkaði. Fleiri hliðstæð fasteignatengd verkefni ytra eru í burðarliðnum.

Formaður stjórnar Saxbygg er Jón Þorsteinn Jónsson, en aðrir stjórnarmenn eru Gunnar Þorláksson, Gylfi Héðinsson og Einar Örn Jónsson. Skrifstofa Saxbygg verður í Skógarhlíð 12 í Reykjavík.