Kryddpían Victoria Beckham segist ekki vera að undirbúa endurkomu Kryddpíanna, eða Spice Girls, en orðrómur þess efnis komst á kreik eftir að Victoria sást með Geri Halliwell í Los Angeles fyrir skömmu.
Kryddpían Victoria Beckham segist ekki vera að undirbúa endurkomu Kryddpíanna, eða Spice Girls, en orðrómur þess efnis komst á kreik eftir að Victoria sást með Geri Halliwell í Los Angeles fyrir skömmu. Victoria neitar því að þær hafi verið að ræða um endurkomu hljómsveitarinnar, en segir að þær hafi verið að ræða um ungbörn þar sem Geri er ólétt að sínu fyrsta barni. "Geri hætti að vinna þegar hún varð ólétt þannig að við höfum getað eytt meiri tíma saman," segir Victoria. "Hún kom og gisti heima hjá mér og ég hef verið að sjá svolítið um hana. Hún lítur frábærlega út og það fer henni mjög vel að vera ólétt. Henni líður vel og er mjög ánægð með lífið," bætir Victoria við. "Við vorum ekki að skipuleggja endurkomu. Ég á ekkert mjög margar vinkonur þannig að það var bara frábært að eyða smátíma með Geri," segir Victoria að lokum.