Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir fjallar um verð á skólamáltíðum: "Er ekki sennilegast að sumir foreldrar treysti sér einfaldlega ekki til þess að kaupa mataráskrift vegna kostnaðarins?"

HAGVÖXTUR á Íslandi er eitt af uppáhaldsumræðuefnum stjórnmálamanna og sérfræðinga. Á þeim mælikvarða hefur Íslendingum vegnað vel frá 1945. Stöðugt gleymist að geta þess hvað hefur valdið þessum hagvexti, eða hvað skýri hann. Þar munar án nokkurs vafa einna mest um stóraukna atvinnuþátttöku kvenna. Aukin þátttaka kvenna á vinnumarkaði skapar þeim að sjálfsögðu um leið margvísleg tækifæri, en þau eru ekki án fórna. Aðlögun samfélagsins að breyttum aðstæðum fjölskyldna og breyttum þjóðfélagsháttum almennt er hæg og ástandið oft í litlu samræmi við aðstæður í daglegu lífi fólks. Því fer víðs fjarri að karlarnir hafi reynst tilbúnir til að yfirtaka heimilisstörfin til jafns við útivinnandi konur. Sveigjanleika vantar á vinnumarkaðinn og aðlögun að aðstæðum fjölskyldna þar sem báðir foreldrar eða einstætt foreldri vinnur úti allan daginn. Einsetning grunnskóla er t.d. afleiðing af því að núna vinna yfirleitt báðir foreldrar úti. Það kallar á lengri viðveru barna í skólanum og iðulega einnig gæslu eftir að honum lýkur.

Svo fremi sem fjölskyldan sé umtalsvert samvistum í sínum frítíma hafa börnin auðvitað gott af meiri samveru við jafnaldra sína og taka út mikinn þroska í skólanum. En þau þurfa líka að borða og nú er ekki lengur hægt að senda þau heim í hádeginu þar sem matur bíður á borðum. Þess vegna er boðið upp á mat í hádeginu fyrir nemendur í grunnskólum Reykjavíkur. Skólaárið 2004-2005 voru um 94% almennra grunnskóla með slíkt í boði. En þetta er ekki ókeypis. Gjald fyrir mataráskrift í grunnskólunum er frá 4.000-5.500 á mánuði. Það þýðir að hver máltíð kostar á milli 200 og 312 kr.

Nýting mataráskriftar var síðast könnuð veturinn 2003-2004. Þá nýttu að jafnaði 68,6% nemenda sér hádegismatinn í skólanum. Velta má fyrir sér hvers vegna nýtingin er ekki meiri. Eru virkilega svona margir foreldrar sem koma heim í hádeginu og elda næringarríkan mat fyrir börnin? Einhver hluti barnanna er efalaust með hollt nesti að heiman en líklegt má telja að sá hluti sé lítill.

Er ekki sennilegast að sumir foreldrar treysti sér einfaldlega ekki til þess að kaupa mataráskrift vegna kostnaðarins? Og hvernig ætlum við að bregðast við því? Finnst okkur ásættanlegt að skipta börnunum okkar í stéttir eftir efnahag strax í grunnskólanum? Þau sem hafa efni á því að borða í mötuneytinu og hin sem hafa það ekki?

Nú er staðfest það sem mörg okkar hefur lengi grunað, að ríkisstjórnin hefur ekki verið að lækka skatta undanfarinn áratug nema bara á þá ríkustu en þá er það líka svo um munar. Þvert á móti hafa skattarnir hækkað á 90% landsmanna Jafnframt er dregið úr mikilvægri þjónustu við þá lægst launuðu, eða kostnaðinum velt yfir á þá sem þurfa á henni að halda með beinni gjaldtöku. Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkinn langar til að gera það sama í Reykjavík og hann hefur gert í landsstjórninni. Það er sami Sjálfstæðisflokkurinn með sömu hugmyndafræðina að leiðarljósi sem nú sækist eftir völdum í borginni og ráðið hefur ríkjum í fjármálaráðuneytinu við Arnarhól sl. 16 ár tæp. En Reykjavíkurborg á að stefna í gagnstæða átt. Meðal þess sem við getum gert til þess er að greiða mötuneytiskostnað skólabarna úr sameiginlegum sjóðum okkar borgarbúa. Borgin er rík en það eru ekki allar barnafjölskyldurnar. Stöndum saman um að reka skólamötuneytin og gerum ekki upp á milli barnanna okkar. Við vinstri græn viljum stöðva fyrirætlan hægri aflanna í borginni og sækja fram með aukinni þjónustu við börnin án tillits til efnahags.

Höfundur skipar 1. sæti á V-listanum til borgarstjórnarkosninganna í vor.