Opið á verslunartíma. Sýningunni er lokið.

Fyrir nokkrum árum las ég viðtal við bandaríska listamanninn Julian Schnabel þar sem hann vitnaði í rithöfundinn William Gaddis; "Vandamálið við málverk í dag er að um leið og það birtist manni sýnist það kunnuglegt." Schnabel var þó ekki sammála samlanda sínum um að þetta væri vandamál í málaralistinni heldur sá hann kunnuglegheitin sem kost. Álíka viðhorf og Schnabels endurspegluðust einnig í abstraktverkum póstmódernismans þar sem kunnuglegheitin voru/eru beinlínis notuð til að gera tungumál abstraktlistarinnar aðgengilegt. Haft var eftir hollensk-bandaríska málaranum Peter Schuyff í viðtali í Art in America að þessi staða abstraktmálverksins væri öllum í hag því að nú þekktu allir abstraktsjónina og þar af leiðandi auðveldara að nálgast hana og skilja.

En auðvitað skilja ekki allir abstraktlist. Sá sem skilur hana er samt ekkert klárari en þeir sem ekki skilja hana heldur finnur hann samhljóm við myndmálið eða tungumálið og fær þar af leiðandi áhuga á að kynnast því til hlítar. Byrjar þá að læra tungumálið. Abstraktsjónin er í raun jafnskiljanlegt tungumál og hið talaða orð. Skilningurinn er einfaldlega af skynrænum toga. Ekki rökrænum.

Helgi Már Kristinsson er ungur listmálari sem lítið hefur borið á í sýningarhaldi en ég hef rekist á eina og eina mynd eftir hann síðan á útskriftarsýningu hans frá LHÍ árið 2002. Hann málar abstrakt myndir. Að forminu til hafa verk hans minnt svolítið á seinni tíma verk Brice Mardens, nema að þau hafa verið heldur einhæf og aum samanborið við Marden. Myndir upp byggðar af einhverskonar óræðu net-mynstri eða kerfi sem fléttast saman á fletinum.

Helgi sýnir nú sína fyrstu einkasýningu í Gallerí Sævars Karls og má sjá áhugaverðar hreyfingar frá því sem var. Annars vegar hefur hann "poppað" myndirnar upp með skærum tærum litum. Formið er þó takmarkað við áðurnefnda þræði og fagurfræðin miðast við sætleika yfirborðsins sem væntanlega eru borgaralegu áhrifin sem listamaðurinn greinir frá í texta sem fylgir sýningunni. Aðrar myndir spegla náttúruáhrifin og eru öllu líflegri að sjá. Þar gætir sterkra áhrifa af málverkum Bernds Koberling þar sem þunnt litarefnið flýtur um myndflötinn. Netþræðirnir liggja svo ofan á líkt og listamaðurinn sé að sýna míkró-nærmyndir af teikningu. Mynd innan myndar, eins og það er jafnan kallað. Þessi aðferð opnar myndflötinn allverulega og rýmikennd skapast á milli þess ósjálfráða og stýrða.

Hvað nálgunina varðar bera verkin þess merki að listamaðurinn sé enn að taka inn efni og áhrif án þess að vinna markvisst úr þeim. Þ.e. að tungumálið liggur fyrir en listamaðurinn er ennþá að leita að eigin rödd þótt hljómur sé vel á veg kominn. Ég vænti þess að þetta smelli nú allt saman í náinni framtíð og ég hlakka bara til að sjá þegar það gerist.

Jón B.K. Ransu