"Það er virkilega kallað eftir rödd foreldra hérna og það er mjög jákvætt," segja foreldrarnir Dagný Gísladóttir og Ingibjörg Ólafsdóttir. María Valentína gæðir sér á matarkexi.
"Það er virkilega kallað eftir rödd foreldra hérna og það er mjög jákvætt," segja foreldrarnir Dagný Gísladóttir og Ingibjörg Ólafsdóttir. María Valentína gæðir sér á matarkexi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Til að styðja foreldrastarf í Reykjanesbæ hafa bæjaryfirvöld gert regnhlífarsamtökum foreldra kleift að ráða starfsmann í hlutastarf.

Til að styðja foreldrastarf í Reykjanesbæ hafa bæjaryfirvöld gert regnhlífarsamtökum foreldra kleift að ráða starfsmann í hlutastarf. Ingibjörg Ólafsdóttir er starfar fyrir FFGÍR, sem stendur fyrir Foreldrafélög og foreldraráð grunnskólanna í Reykjanesbæ. "Já ég veit, nafnið FFGÍR hljómar dálítið eins og bílaklúbbur eða eitthvað álíka!" segir hún og hlær.

Í bæjarfélaginu eru 5 skólar og jafnmörg foreldrafélög. Ingibjörg styður við starf félaganna og samhæfir það. "Það er virkilega kallað eftir rödd foreldra hérna og það er mjög jákvætt. Það er líka einstakt að njóta þessa styrks frá bænum og geta þannig byggt upp öflugra foreldrastarf en ella. Innan foreldrafélaganna starfar kraftmikið fólk," segir hún. Dagný Gísladóttir, formaður FFGÍR, tekur undir. "Landsamtökin Heimili og skóli hafa litið til Reykjanesbæjar varðandi þetta. Foreldrastarf er unnið í sjálfboðavinnu og getur oft verið ansi tímafrekt. Það er því frábært að hafa starfsmann sem getur haldið utan um það," segir hún.

Samræmdur vinnudagur kom ánægjulega á óvart

FFGÍR varð upprunalega til í tengslum við forvarnarverkefnið Reykjanesbær á réttu róli og var hugsað sem málsvari foreldra grunnskólabarna. Félagið reynir einnig að efla samstarf foreldra innbyrðis og auka samstarf heimila og skóla. "Fólk er oft tilbúið að kvarta yfir skólunum en síður tilbúið að eiga í samráði við þá. Okkar hlutverk er kannski að stuðla að samskiptum við skólana og sjá til þess að við foreldrar getum stutt starf þeirra. Það er mikilvægt að leitað sé eftir rödd okkar, hún sé einhvers metin og þetta verði til að bæta skólastarfið. Á endanum snýst þetta náttúrlega um börnin okkar og vinnustaðinn þeirra," segir Dagný.

Aðspurðar hvað þeim sem foreldrum finnist um þá hugmynd að samræma vinnudag yngstu grunnskólabarnanna og foreldra, segja Dagný og Ingibjörg það hafa verið jákvætt skref. Ingibjörg bendir á að þetta hafi komið henni ánægjulega á óvart. Hún er tiltölulega nýflutt til Reykjanesbæjar. "Auðvitað hafa einhverjir hnökrar verið á þessu en grunnhugmyndin er góð og ég hef verið óþreytandi að dásama þetta við hvern þann sem spurði af hverju í ósköpunum ég væri að flytja til Reykjanesbæjar! Það breytti til dæmis mjög miklu fyrir mig að þurfa ekki endalaust að skutla á æfingar og í tómstundir."