Á eftir vatni drekka jarðarbúar mest af tei. Te, tea, tay, thé, thee. Þessi orð og fleiri, t.d. ch'a á kínversku, eru notuð um þennan vinsæla drykk, sem Kínverjar hafa drukkið í tæplega fimm þúsund ár sér til ánægju og heilsubótar.

Á eftir vatni drekka jarðarbúar mest af tei. Te, tea, tay, thé, thee. Þessi orð og fleiri, t.d. ch'a á kínversku, eru notuð um þennan vinsæla drykk, sem Kínverjar hafa drukkið í tæplega fimm þúsund ár sér til ánægju og heilsubótar. Áhöld eru um hvenær nákvæmlega og hvernig drykkurinn uppgötvaðist.Ýmsar goðsagnir hafa verið lífseigar, einkum sú sem Kínverjar halda sig við og vestrænar þjóðir hallast kannski að vegna þess að þær hafa ekki betri skýringu. Árið 2732 f. Kr. mun keisarinn í Kína, "hinn guðdómlegi græðari" Shen Nung, hafa uppgötvað drykkinn fyrir einskæra tilviljun þegar vindurinn feykti nokkrum, gljáandi, grænum, laufblöðum af nærliggjandi runna (Camellia sinensis) ofan í bollann sem hann var að drekka sjóðandi vatn úr. Keisarinn var nógu forvitinn til að bragða á þessari skrýtnu blöndu og uppgötvaði það sem tedrykkjumenn um allan heim vita; að te er í senn bragðgott og hressandi. Svo hrifnir voru Kínverjar til forna af tei að þeir höfðu á orði að betra væri að vera matarlaus í þrjá daga en telaus í einn.

Frá Kína breiddust tesiðirnir til Indlands og Japans, síðan til Evrópu og Rússlands og loks til nýja heimsins seint á sautjándu öld. Ein goðsögnin um uppruna tesins til neyslu er að á Indlandi hafi búddamunkur nokkur í örvinglan farið að tyggja telauf til að geta sofið eftir að sjö ára svefnlausu hugleiðslutímabili lauk. Þótt sagan segi að tiltækið hafi gefið góða raun náði tetugga engri útbreiðslu. Tedrykkja þekktist heldur ekki á Indlandi fyrr en á nítjándu öld, en landið er nú með stærstu teframleiðslulöndum heims.

Shen Nung hafði mikla trú á lækningamætti jurta og er sagður hafa borðað 365 gerðir af jurtum á ævinni eða allt þar til hann varð grænn (!) og dó af eituráhrifum. Honum varð þó ekki meint af teinu, enda inniheldur það m.a. vítamín, olíur, steinefni og önnur efni sem eru líkamanum nauðsynleg.