LANDSVIRKJUN hefur nú sent öllum grunnskólum í landinu frekari upplýsingar um samkeppni um verkefni unnin um orku og orkumál. Samkeppnin stendur til 7. apríl nk.

LANDSVIRKJUN hefur nú sent öllum grunnskólum í landinu frekari upplýsingar um samkeppni um verkefni unnin um orku og orkumál. Samkeppnin stendur til 7. apríl nk. Í bréfi sem Landsvirkjun hefur sent skólastjórnendum vegna samkeppninnar er rifjuð upp sú gagnrýni sem kom fram í fjölmiðlum í haust á samkeppnina.

Kemur fram að það sé von fyrirtækisins að sem flestir skólar og kennarar telji gagn að því að nýta fræðsluefnið til að vinna t.d. þemaverkefni um orku og orkumál á þessari önn sem er nýhafin. Það sé síðan sjálfstæð ákvörðun kennara í samráði við forráðamenn hvort úrlausnir nemenda skuli sendar Landsvirkjun í samkeppnina. Þá segir: "Ástæða er til að árétta eftirfarandi atriði í tilefni af opinberum umræðum um þetta framtak Landsvirkjunar:

* Í námskrá grunnskólans er gert ráð fyrir kennslu um orku og orkunýtingu og þar á meðal að fjallað verði um íslenskar orkulindir.

*Yfirvöld menntamála í landinu hafa staðfest að ekkert sé því til fyrirstöðu að skólarnir nýti sér efni frá Landsvirkjun og taki þátt í samkeppninni.

*Eðlilega ræður mat skólafólks og foreldra því hvort efnið frá Landsvirkjun er nýtt og verkefni unnin og loks hvort úrlausnir verði sendar inn í samkeppnina.

* Skólafólk og nemendur verða að sjálfsögðu að vega og meta og fjalla um verkefnin frá Landsvirkjun með sjálfstæðum hætti eins og hver önnur verkefni í skóla. Ekki er rétt eins og heyra mátti í fjölmiðlum í haust að verið sé að leita eftir því að verkefnin skuli unnin á þann hátt sem er þóknanlegur Landsvirkjun.

* Mat á úrlausnum sem berast Landsvirkjun fer fram með aðstoð valinkunns skólafólks og mun byggjast á því að efninu verði gerð vönduð skil."

Á fræðsluvef Landsvirkjunar (sjá www.lv.is) er aðgengilegt efni og leiðbeiningar fyrir skólana, meðal annars myndir af veggspjöldum um orkumál sem skólarnir fengu sendar fyrr í mánuðinum.

Háaleitisbraut 68 103 Reykjavík. Sími: 515 9000. Fax: 515 9007. Tölvupóstfang: landsvirkjun@lv.is. Vefsíða: www.lv.is.