ANNARRI umræðu um frumvarp iðnaðarráðherra um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, lauk á Alþingi, rúmlega þrjú aðfararnótt föstudagsins. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, talaði samfellt í nær fimm klukkustundir.

ANNARRI umræðu um frumvarp iðnaðarráðherra um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, lauk á Alþingi, rúmlega þrjú aðfararnótt föstudagsins. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, talaði samfellt í nær fimm klukkustundir. Gert er ráð fyrir því að frumvarpinu verði vísað til þriðju og síðustu umræðu á mánudag.

Í frumvarpinu er m.a. lagt til að gildissvið fyrrgreindra laga nái einnig til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Iðnaðarnefnd þingsins lagði fram breytingartillögu við frumvarpið á fimmtudag, og voru þingmenn VG ósáttir við að hún skyldi strax tekin á dagskrá. Ekki var orðið við beiðni um frestun og hófst umræðan því síðdegis og stóð fram á nótt, eins og áður sagði.

Þingmenn VG létu þó ekki sitt eftir liggja í umræðunni og stóð Jón Bjarnason í pontu frá kl. 18.02 til kl. 22.54. Hann talaði því samfellt í nærri fimm klukkustundir eins og áður sagði, en sló þó ekki ræðumet Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Hún talaði samfellt í fimm og hálfan tíma vorið 1998, í umræðum um húsnæðisfrumvarp félagsmálaráðherra.