Sýnileiki og viðurkenning ráða miklu um að samkynhneigðir staðfesta samvist sína.
Sýnileiki og viðurkenning ráða miklu um að samkynhneigðir staðfesta samvist sína. — Morgunblaðið/Ásdís
Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur ben@mbl.is ÁST til maka og öryggi er aðalástæða þess að pör af sama kyni velja að ganga í staðfesta samvist, fremur en þau réttindi sem fylgja staðfestingunni.
Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur ben@mbl.is

ÁST til maka og öryggi er aðalástæða þess að pör af sama kyni velja að ganga í staðfesta samvist, fremur en þau réttindi sem fylgja staðfestingunni. Þetta er meðal niðurstaðna í nýrri rannsókn sem Anna Einarsdóttir uppeldis- og menntunarfræðingur hefur gert á áhrifum lagasetningar um staðfesta samvist samkynhneigðra.

Rannsókn Önnu er hluti af doktorsnámi hennar í félagsvísindum við London South Bank University en um er að ræða spurningalistakönnun sem dreift var í nóvember 2004 til allra kvenna og karla sem gengið höfðu í staðfesta samvist frá því að lög um hana voru samþykkt árið 1996. Alls voru sendir út 216 listar og fengust svör frá 103 einstaklingum.

Spurt var hverjar væru þrjár meginástæður þess að viðkomandi staðfesti samvist sína. og Langflestir, eða um 80%, gáfu upp ástæðuna "Ást". Um 35% nefndu "öryggi" og 31% "erfðamál". "Þetta kom mér mjög á óvart," segir Anna. "Í aðdraganda lagasetningarinnar var baráttan fyrir staðfestri samvist fyrst og fremst rekin á því að með henni myndu samkynhneigðir öðlast lagaleg réttindi sem þeir höfðu ekki áður, s.s. erfðaréttindi. Reyndin er hins vegar að fólk lítur á þetta sem tilfinningalega tryggingu fremur en praktíska ráðstöfun."

Rúmlega 20% gáfu "sýnileika" upp sem ástæðu fyrir ákvörðun sinni. "Almennt leit fólk svo á að með því að ganga í staðfesta samvist væri það að gifta sig. Þar með var kominn merkimiði á samböndin og þannig varð miklu auðveldara fyrir fólkið sjálft og aðstandendur þess að finna samböndunum einhvern stað í samfélaginu."

Um 60% fögnuðu tímamótunum með veislu en aðeins 10% fengu blessun prests eða forstöðumanns trúfélags. Þá voru viðbrögð ættingja og vina við giftingunni mjög góð að sögn Önnu. "Almennt höfðu svarendur ákaflega jákvæða reynslu af því að hafa gengið í staðfesta samvist og mjög fáir, eða aðeins tæplega 7%, treystu sér ekki til að segja öllum frá því að þeir hefðu valið sér þetta sambúðarform."

Fjallað er um hjónabönd og samkynhneigða í Tímariti Morgunblaðsins í dag. | Tímarit