Magnús Már Lárusson fæddist í Kaupmannahöfn 2. september 1917. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 15. janúar síðastliðinn og var jarðsunginn í kyrrþey 24. janúar.

Lágvaxinn, grannur og fíngerður. Snjóhvítt hár og gleraugu á nefinu. Teinréttur. Hvítur stafur við hönd. Óaðfinnanlega klæddur, alltaf í skyrtu. Snyrtipinni. Afi Magnús.

Afi Magnús á Erluhrauninu og Tómasarhaganum. Afi Magnús á Selfossi og á Aflagrandanum. Afi Magnús á Eir. Við eigum margar ljúfar og góðar minningar um afa Magnús. Hann var alveg sérlega dagfarsprúður maður og ekki hægt að segja að mikið hafi farið fyrir honum. En það sem hann kunni og vissi. Skopskynið og hláturrokurnar ótrúlegar. Afi og vindlarnir. Sælkerinn afi. Fræðimaðurinn afi. Skrifstofan hans afa, helgidómurinn, bækur upp um alla veggi og skrattinn á skrifborðinu. Lítil börn féllu í stafi við það eitt að stíga þar inn fæti. Ósjaldan stolist til að kíkja inn og prufa stækkunarglerið, horfa á bækurnar og koma við skrattann. Lyktin þar inni engu lík. Afi sem átti sænska móður og íslenskan föður. Fæddur í Kaupmannahöfn og afar stoltur af sínum uppruna. Afi sem elskaði Svíþjóð og allt sænskt. Afi sem var bara afi í augum lítilla barna. Afi sem okkur þótti svo vænt um og honum þótti vænt um okkur. Allar heimsóknirnar hans og ömmu til okkar norður í land. Alltaf leyndist súkkulaði hjá afa því afi var jú heimsins mesti sælkeri. Einn daginn er vöfflujárnið tekið fram heima hjá börnunum og bakaðar vöfflur því forsetinn hafði gefið afa fína viðurkenningu. Þann dag áttuðu börnin sig á því að afi var merkilegur maður. Ekki bara í okkar augum heldur svo margra annarra líka. Afi var guðfræðingur, sagnfræðingur, kennari, rannsóknarmaður, vísindamaður, skrifaði greinar í blöð og bækur. Passaði upp á að við glötuðum ekki þjóðararfinum okkar. Afi var fræðimaður fram í fingurgóma.

Og svo afi Magnús og amma Maja. Leiddust saman í gegnum lífið í meira en hálfa öld. Yndislegi afi og yndislega amma. Ástúð og hlýja, faðmlög og knús. Fallega heimilið þeirra var síðast í Vesturbænum. Hátt uppi þar sem yndislegt var að sitja og horfa út á sjóinn. Heima hjá afa og ömmu þar sem allt var svo fínt og fágað og fallegir hlutir út um allt. Ruggustóllinn og stóra klukkan. Alltaf eitthvað gott í litla og stóra maga. Alltaf þessi góða afa og ömmu lykt. Afi og amma sem áttu tvær dætur og þrjá syni og nú heilan her af afkomendum.

Afi Magnús var einstakur maður. Hann lét ekki augnsjúkdóm stoppa sig í því að gera það sem honum datt í hug. Duglegi afi og stundum þveri afi. Afi sem flutti á Eir þegar amma dó. Afi sem alltaf kættist þegar honum voru færðar smákökur eða eitthvert annað gotterí. Átti það til að gleyma að taka bréfið utan af súkkulaðimolanum. Afi sem saknaði ömmu.

Nú hefur afi kvatt okkur og við erum þess fullviss að nú haldi þau áfram að feta veginn, hönd í hönd, afi Magnús og amma Maja. Með djúpri virðingu kveðjum við. Megi afi Magnús hvíla í friði.

Ragnheiður María,

Magnús Már og Steinunn.