Áströlsk vín ódýrari? Áströlsk vín festu sig rækilega í sessi á heimsmarkaði á sínum tíma ekki síst fyrir það hversu verð þeirra var hagstætt miðað við gæði. Nú benda spár til að áströlsk vín eigi eftir að verða enn ódýrari á næstu árum.

Áströlsk vín ódýrari?

Áströlsk vín festu sig rækilega í sessi á heimsmarkaði á sínum tíma ekki síst fyrir það hversu verð þeirra var hagstætt miðað við gæði. Nú benda spár til að áströlsk vín eigi eftir að verða enn ódýrari á næstu árum. Samtök ástralskra vínframleiðenda greindu frá þessu á dögunum og hafa af því nokkrar áhyggjur enda gæti verðlækkunin numið 25-35% í mörgum tilvikum, ekki síst á ódýrari vínum. Ástæðan er sú að hver metuppskeran rekur aðra á sama tíma og aukningin í útflutningi er óveruleg og samkeppni fer harðnandi. Ástralar standi því brátt frammi fyrir því að framleiða meira af víni en þeir geta selt.

Vínrækt hefur verið atvinnugrein í örum vexti í Ástralíu síðastliðinn áratug. Fyrir áratug var vín ræktað á 67 þúsund hektörum en nú þekja vínekrur Ástralíu heila 167 þúsund hektara.

Veitingahús opnuð á ný í New Orleans

New Orleans hefur löngum verið ein þekktasta matarborg heims en þegar fellibylurinn Katrína skall á urðu flest veitingahús borgarinnar að loka og mörg hver urðu fyrir gífurlegu tjóni er vatn flæddi inn. Nú berast þær fréttir að 436 veitingahús af þeim 1.350 sem voru starfandi í borginni hafi opnað dyr sínar fyrir gestum á nýjan leik. Sum þeirra eru þó ekki svipur hjá sjón og þá ekki síst þegar kemur að vínlistunum. Hitabylgjan og vatnið eyðilagði marga stórkostlega vínkjallara m.a. kjallara Brennan's sem var talinn vera einn sá besti í heimi. Þar voru geymdir ómetanlegir fjársjóðir á borð við Haut Brion 1929 og Lafite Rotschild 1987. Eigendur hússins voru vel tryggðir og segjast stefna að því að nota sambönd sín í Evrópu til að byggja upp góðan kjallara á nýjan leik þótt hann verði ekki í líkingu við þann sem fyrir var.