Dóra Steinunn Ármannsdóttir og Steinunn Soffía Skjernested.
Dóra Steinunn Ármannsdóttir og Steinunn Soffía Skjernested. — Morgunblaðið/ÞÖK
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is TVÆR ungar söngkonur, Steinunn Soffía Skjernested og Dóra Steinunn Ármannsdóttir, hlutu í gær styrk úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen. Hvor um sig hlaut 500.000 krónur í styrk.
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is

TVÆR ungar söngkonur, Steinunn Soffía Skjernested og Dóra Steinunn Ármannsdóttir, hlutu í gær styrk úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen. Hvor um sig hlaut 500.000 krónur í styrk.

Þetta er í annað sinn sem veitt er úr sjóðnum, sem starfar undir væng Listaháskóla Íslands. Meginmarkmið hans er að styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn skólans. Auk þess veitir sjóðurinn árlega styrki til tónlistarnema sem hafa náð framúrskarandi árangri að mati sjóðsstjórnar. Er gert ráð fyrir að styrkþegar hafi lokið námi á háskólastigi.

Heiður og hvatning

Dóra Steinunn og Steinunn Soffía sögðust báðar afar þakklátar fyrir styrkinn í samtali við Morgunblaðið. "Þetta er mikill heiður fyrir mig, og hvatning," segir Steinunn Soffía, en hún hóf mastersnám við Síbelíusarakademíuna í Helsinki í haust, þar sem kennari hennar er Sirkku Wahlroos-Kaitila.

Þar sem Steinunn þarf ekki að greiða skólagjöld við akademíuna mun styrkurinn ekki fara í að greiða þau. Hún fullyrðir þó að hann muni koma sér afar vel. "Maður getur til dæmis notað hann til að athuga með góða söngkennara í sumar, eða óperustúdíó. Hann mun að minnsta kosti koma sér vel."

Í sama streng tók Dóra Steinunn. "Það er nú búið að vera dálítið erfitt að þegja yfir þessu, af því að maður er svo stoltur af þessu sjálfur," sagði hún í samtali við Morgunblaðið í gær. "En ég get ekki sagt annað en að ég sé himinlifandi."

Dóra Steinunn segist munu nýta styrkinn í skólagjöld, en hún stundar nú nám við óperudeild Tónlistarháskólans í Vínarborg. "En það verður samt eitthvað eftir, enda er þetta hár styrkur. Þetta kemur sér mjög vel, því annars hefði ég þurft að taka bankalán - enda fæ ég ekki lán fyrir skólagjöldunum hjá LÍN. Þannig að þetta er bara æðislegt."

Að mati Hjálmars H. Ragnarssonar, rektors Listaháskólans, er styrktarsjóður Halldórs Hansen skólanum og nemendum hans afar mikilvægur. "Það sem gefur sjóðnum fyrst og fremst gildi er að hann er tengdur nafni Halldórs, þessa manns sem var svo þýðingarmikill í íslenskri sönglist," segir hann. "Í öðru lagi skiptir það alla þjóðina máli að tónlistarsafn við skólann sé byggt upp. Bókasafn skólans hefur byggst hratt upp fyrir tilstilli sjóðsins. Síðast en ekki síst eru þessar styrkveitingar mikilvægar nemendunum - það að styðja og hvetja fólk á þessu stigi námsins getur skipt afar miklu máli."

Hann segir að valið sé úr stórum og glæsilegum hópi nemenda. "Ég er sannfærður um, að það að hljóta styrk úr þessum sjóði er þeim nemendum sem hann hljóta mikil hvatning, og liðkun á þeirra frama."

Færanlegur salur

Sjóðsúthlutunin fór fram í nýjum tónlistarsal Listaháskólans við Sölvhólsgötu 13. Nýlega var einnig tekinn í notkun danssalur á sama stað, og verða þeir báðir formlega vígðir eftir viku. Salirnir eru sérstakir að því leyti að hægt verður að taka þá niður og setja upp á nýjum stað, komi til þess að Listaháskólinn flytji í annað húsnæði á næstunni. "Þetta er ný lausn á vandamálunum," segir Hjálmar. "En okkur sýnist að þessir salir eigi eftir að koma mjög vel út, bæði hvað hljómburð varðar og aðstaðan. Neyðin kennir naktri, og svo framvegis, en þetta kemur enn betur út en við þorðum að vona."

Salurinn er í kaupleigu hjá Listaháskólanum hjá verktökum á Selfossi, sem hafa byggt húsið með þeim hætti að hægt verði að taka það í sundur og setja það upp á ný. "Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið reynt með svo stórtækum hætti áður," segir Hjálmar að síðustu.

Leiðrétting 4. febrúar - Úthlutun úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen

Í FRÉTT um úthlutun úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen í blaðinu í gær misritaðist nafn annars styrkþegans. Hið rétta nafn er Steinunn Soffía Skjenstad, og er beðist velvirðingar á þessum leiðu mistökum.