— Morgunblaðið/Ólafur Örn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ólaf Örn Haraldsson
Ferðafélag Íslands hefur um árabil farið gönguferðir um Þjórsárver. Mikill áhugi er nú á Þjórsárverum og hefur þess orðið verulega vart í fyrirspurnum hjá félaginu. Þess vegna er vel við hæfi að segja stuttlega frá ferðum Ferðafélagsins á þær slóðir. Margar myndir hafa birst úr verunum en tiltölulega fáar af því svæði sem mest hefur verið rætt um vegna virkjunarframkvæmda sem nú hafa verið lagðar til hliðar. Hér er reynt að bæta úr þessu og brugðið upp myndum af austurhluta veranna og nágrenni Arnarfells hins mikla.

Því miður hafa tiltölulega fáir landsmenn komið í Þjórsárver og notið einstæðrar náttúru svæðisins en mörgum þykir að öræfakyrrð, tign og fegurð Íslands nái þar sinni dýpstu merkingu. Sagt hefur verið að enginn verði samur eftir að hafa ferðast um Þjórsárver en ferðamaðurinn þarf helst að dvelja nokkra daga, horfa ekki eingöngu til fjalla og jökla heldur rýna líka niður í svörðinn, virða fyrir sér stör, freðmýrarrústir og blómskrúð, skima niður í tjarnir og fræðast um líf og landmótun. Þá verður hverjum manni ljóst að náttúrufar Þjórsárvera er ein verðmætasta eign landsins og einstök á heimsvísu.

Þjórsárver eru því sem næst í miðju landsins og eitt einangraðasta svæði á hálendinu, umkringt hvítum jöklum, mórauðum fljótum og svörtum eyðisöndum. Sjálf skarta verin ekki aðeins grænu heldur sýnir náttúran alla sína auðgi í litavali. Einangrun veranna er ferðamanninum í senn hindrun og lokkandi ögrun.

Sumarleyfisferðir Ferðafélagsins eru að jafnaði 5 til 6 dagar. Á þeim dögum er gengið í Nautöldu, um Arnarfellsmúlana sunnan Múlajökuls, öslað fram í Oddkelsver, stikað upp að jökli við Ólafsfell og loks er Arnarfell hið mikla klifið ef veður leyfir og reyndar einnig Arnarfell hið litla eða Kerfjall. Á síðasta degi er vaðið vestur yfir Blautukvísl og göngunni lýkur við Setur, skála Ferðaklúbbsins 4x4, vestan Þjórsárvera. Náttstaðir í ferðinni eru aðeins tveir, í Nautöldu og undir Arnarfellsbrekkum, og er gengið þaðan daglega þannig að ekki þarf að bera nema dagsnesti helming ferðadaganna. Dagleiðir eru ekki ýkja langar en vaða þarf jökulár og ótal sprænur og feta sig upp brattar og lausar skriður Arnarfells hins mikla.

Við nálgumst Þjórsárver úr austri. Jökulhvel Hofsjökuls er framundan þar sem fjallakollar Hásteina gægjast upp úr langt inni á jökli og verða æ sýnilegri með hverju ári eftir því sem jökullinn hjaðnar. Suðaustur úr meginjökli Hofsjökuls skríður Þjórsárjökull, lágur en breiður, og höfum við hann á hægri hönd. Í vestri breiðir Múlajökull úr sér en mörgum þykir hann einna formfegurstur íslenskra jökla. Lögun hans minnir helst á hörpuskel. En það er Arnarfell hið mikla sem fangar auga okkar umfram allt annað, glæsilegt og mikilúðlegt. Við finnum nærveru þess afar sterkt en samt er það svo óaðgengilegt þar sem það spyrnir baki við þunga jökulsins en við fótskör þess byltist flaumur jökulánna.

1. Horft til Þjórsárjökuls

Á fyrsta degi ökum við Sprengisandsleið en sveigjum síðan vestur yfir Þjórsá á stíflu 5. áfanga Kvíslaveitu töluvert innan við Hreysiskvísl og Háumýrar. Við hefjum síðan gönguna þegar komið er að vestari Þjórsárkvísl eða Vesturkvísl eins og hún hefur verið nefnd. Hún kemur sunnan undan Þjórsárjökli. Á myndinni erum við hér stödd austan við Þjórsárkvíslina, utan við hið afmarkaða friðland og horfum norðnorðaustur til Þjórsárjökuls í Hofsjökli. Til hægri sjáum við Miklafell og Klakk í fjarska, austan við Hofsjökul. Við horfum yfir hluta þess svæðis sem ætlað hefur verið til aursöfnunar með mótvægis- og veitulónum. Með þessum lónum hefur verið gert ráð fyrir að komist verði hjá gerð stórs lóns sem upphaflega átti að ná inn í núverandi friðland neðar í verunum, í nágrenni Norðlingaöldu. Gróðurinn sem við sjáum er aðallega móa- og víðiheiðar á þurrari svæðum og mosar og hélumosar í lægðum, með störum og öðrum votlendisgróðri. Þar í milli eru lítt grónir melar og áraurar.

2. Stefnt á Arnarfell hið mikla

Við tökum stefnuna á Arnarfell hið mikla sem hér er fyrir miðju, Kerfjall og Múlajökull til vinstri, Rótarjökull er til hægri og sér þar í Arnarfell hið litla. Við erum enn stödd utan friðlandsins eins og það er afmarkað nú. Framundan er gróðursvæði sem mikið hefur verið fjallað um og raunar deilt um hvort verði fyrir áhrifum ef vatnafari í nágrenni þess yrði breytt. Við erum ferjuð á báti vestur yfir Þjórsárkvíslina, höldum fyrst norður í átt til Þjórsárjökuls til þess að krækja fyrir votlendi og ganga á þurrari árbakkanum þar til komið er upp á greiðfærara svæði nær jökli. Síðan er snúið beint til Arnarfells hins mikla. Við tjöldum við rætur fjallsins.

3. Undir Arnarfellsbrekku

Öræfakyrrðin verður vart áhrifameiri en snemma á sumarmorgni undir Arnarfellsbrekku sem hefur verið rómuð um aldaraðir fyrir fegurð og gróðursæld. Brekkurætur eru í um 600 m hæð yfir sjó. Þaðan rís brekkan með samfelldum gróðri í fast að 1.000 metra hæð. Niðri á sléttlendinu leita tærar lækjarsytrur sér leiðar innan um gróðurinn.

4. Þjórsárkvíslar og Arnarfellskvíslar

Á öðrum degi klífum við Arnarfell hið mikla. Útsýni af tindi fjallsins gleymist seint. Stórfenglegast er það til suðurs og suðvesturs, yfir Múlajökul og Arnarfellsmúla. En hér á myndinni horfum við hins vegar til austurs. Þar djarfar fyrir Tungnafellsjökli. Áhugavert er að líta nær okkur, svo til beint niður af fjallinu og austur með Þjórsárjöklinum. Þar streyma Þjórsárkvíslar og Arnarfellskvíslarnar undan jöklinum og flæmast um verin austanverð. Þarna gefst nokkuð glögg sýn yfir hluta þess svæðis sem ætlað hefur verið undir mótvægis- og veitulón ásamt skurði og leiðigarði eins og fram kom hér áður. Með því móti yrði mikið af rennsli kvíslanna leitt úr farvegi sínum, frá Þjórsá og yfir til Þórisvatns ásamt tilheyrandi áhrifum á landslag, vatnafar og minna vatni í fossum Þjórsár.

5. Norðurhlið Arnarfells hins mikla

Við yfirgefum Arnarfell hið mikla og skundum þvert yfir sléttan Rótarjökulinn en höfum þó nánar gætur á grængolandi svelgjum skriðjökulsins sem verða á vegi okkar. Handan jökulsins bíður okkar Arnarfell hið litla sem reyndar gefur hinu mikla ekkert eftir í hæð. Fáir ganga á Arnarfell hið litla og því er óvenjulegt að sjá myndir þaðan af norðurhlið Arnarfells hins mikla. Hér sjáum við ekki blómskrúð í suðurbrekkum heldur þvert á móti er ásýnd fjallsins að norðan köld og nakin en þó heillandi þrátt fyrir hrikaleik sinn. Rótarjökull teygir sporð sinn niður með fjallinu en undan honum fellur Arnarfellskvíslin innri. Handan Arnarfellsins mikla sjáum við suður í votlendi Þjórsárvera.

Þriðja dag ferðarinnar göngum við um 15 km leið um Arnarfellsmúla í Nautöldu. Slóðin hlykkjast um gróskumikla múlana innan um hvannstóð og blaðmiklar og blómfagrar jurtir. Við erum reyndar um 8 til 10 klukkutíma þann spotta. Ekki er það vegna torleiðis þó að margar ár þurfi að vaða heldur vegna þess að við stönsum hvað eftir annað og fræðumst um náttúru svæðisins allt frá myndun freðmýrarrústa til skötuorma í tjörnum. Fararstjórinn er gagnfróður og sagnameistari. Hann opnar fyrir okkur bók náttúrunnar sem við áður gátum ekki lesið.

Síðustu ferðadagana látum við veður ráða för ýmist upp að jökli við Ólafsfell, skoðum hrunin jökulstál, striplumst í villibaði í volgum læk eða heimsækjum óðal lágfótu frammi við Oddkelsver og könnum fornar gæsaréttir. Og á síðasta degi göngum við vestur frá Nautöldu að hinu myndarlega Setri þeirra félaga í 4x4. En þegar við höfum rétt vaðið vestur yfir Blautukvísl finnum við að eitthvað hefur gerbreyst. Við erum skyndilega stödd í algerri auðn; svartur sandur, blásnir melar og grár jökulruðningur er á báðar hendur. Viðbrigðin eru mikil. Í tæpa viku höfum við verið umlukin gróðri, litum og vatni. Við lyftum okkur upp á malarásinn framundan og eigum hálfgert von á þar birtist gróðurlendi að nýju en þar er sama líflitla eyðimörkin eins langt og augað eygir. Að baki liggja Þjórsárver. Þau bíða allra þeirra sem þangað vilja leita. Og þó að fáir komi til þess að njóta þessarar gróðurvinjar lifir fegurð og náttúrugildi Þjórsárvera. Góður vinur hverfur ekki né traust vinátta við hann þó að við hittum hann ekki oft eða jafnvel aldrei framar.

Höfundur er forseti Ferðafélags Íslands.