GÍTARINN ER MÉR ALLT EFTIR ÞÓRARIN SIGURBERGSSON "Ég leitaði í tónlistina til að finna gleði, frið og viðurkenningu." Manuel Barrueco, sem er einn virtasti klassíski gítarleikarinn í heiminum í dag, kemur til landsins í næstu viku til að halda tónleika og...

GÍTARINN ER MÉR ALLT EFTIR ÞÓRARIN SIGURBERGSSON "Ég leitaði í tónlistina til að finna gleði, frið og viðurkenningu." Manuel Barrueco, sem er einn virtasti klassíski gítarleikarinn í heiminum í dag, kemur til landsins í næstu viku til að halda tónleika og námskeið. Hann fæddist á Kúbu árið 1952, en fluttist ungur til Bandaríkjanna ásamt fjölskyldu sinni og er nú búsettur í Baltimore. Hann spilar með reglulegu millibili í öllum helstu tónlistarborgum heims og er bókaður langt fram í tímann. Það er því mikill fengur fyrir íslenska tónlistarunnendur í heimsókn hans hingað til lands. g byrjaði átta ára gamall að spila á gítar, aðallega suður-ameríska tónlist og eftir að hafa lært í um eitt ár hvatti kennarinn foreldra mína til að senda mig í tónlistarskóla til að læra meira í tónfræði og þá einnig klassíska tónlist," segir Manuel Barrueco um forsögu sína. Þaðan fór ég svo stuttu seinna í Tónlistarháskólann í Santiago sem var að byrja með gítardeild. Castro hafði þá verið við völd í u.þ.b. tvö ár. Ég man að á Kúbu ríkti mikil óánægja og ringulreið. Ástandið var ógnvekjandi vegna þess að við bjuggum við kerfi sem var ekki umburðarlynt, það leið ekki að einhver væri ósammála. Fólk gat hvorki kvartað né gagnrýnt. Fjölskylda mín var á móti Fidel Castro og um tíma tóku þau mig úr almennum skóla og réðu einkakennara. Þegar ég fór síðan aftur í almennan skóla man ég að ég var alltaf hræddur. Kennararnir þar hæddust að mér vegna þess að foreldrar mínir voru ekki kommúnistar. Eitt sinn þurfti ég að svara spurningu um hvort væri betra kommúnismi eða kapítalismi og ég vissi ekki hvernig ég átti að svara þessu. Fjölskylda mín trúði ekki á kommúnisma, en ég gat auðvitað ekki sagt það, svo ég svaraði að ég væri ekki nógu gamall til þess að svara slíkri spurningu! Ef þú svarar þannig er auðvitað öllum ljóst að þú ert ekki kommúnisti."

Hvernig gekk að fá strengi, nótur o.þ.h.?

"Mjög illa. Það var næstum ógerlegt. Þegar strengirnir slitnuðu reyndum við að binda þá saman og halda áfram að nota þá. Að finna nótur var ekki hægt. Það sem við gerðum var að fá lánaðar nótur hjá einhverjum sem við þekktum og síðan voru þær afritaðar. Ég man að móðir mín afritaði æfingar og stúdíur fyrir mig, heilu bækurnar, sem kannski var ekki svo merkilegt nema fyrir þær sakir að hún les ekki nótur og hafði því enga hugmynd um hvað hún var að skrifa."

Það hlýtur að hafa verið mikil breyting að flytjast til Bandaríkjanna?

"Já, það var mikil breyting. Ég held ég geti best lýst því með því að segja að það hafi verið eins og að reyna að troða ferhyrningi inn í eitthvað hringlaga. Í Bandaríkjunum mættu mér allt aðrir siðir og venjur, sem ég skildi ekki. Ég gerði mér í fyrsta sinn grein fyrir því að ég var kúbanskur og að það eru til Kúbanir og Ameríkanar. Það hafði ég ekki hugsað út í áður. Ég talaði ekki ensku, sem var mjög erfitt, því ég var látinn í skóla strax við komuna til Miami. Eitt af því sem ég man hvað best eftir er frelsistilfinningin. Mér fannst ég vera svo frjáls. Þvílík breyting eftir einungis hálftíma flug frá Kúbu. Annað sem er mér sterklega í minni er þegar ég fór í fyrsta skipti í stórmarkað og sá allt brauðið sem var á boðstólum og engar biðraðir. Á Kúbu, ef þú fórst í bakarí, þá voru venjulega allar hillur tómar, ekkert brauð. Við fórum þá í biðröðina og vonuðumst til að það yrði eitthvað eftir þegar röðin kæmi að okkur. Biðröðin gat tekið allan daginn. Lengsta biðröð sem ég man eftir var fyrir jólin, en þá stóð móðir mín í þrjá daga til að geta keypt leikföng fyrir okkur systkinin."

Á hvern hátt telur þú að þessi reynsla hafi mótað þig?

"Ég held að það hafi haft mikil áhrif á mig, að þar sem ég ólst upp var litið upp til þeirra sem gátu átt samskipti við fólk af öllum kynþáttum og úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Í dag fyndist mér það því stór galli ef ég gæti það ekki. Þetta hljómar kannski eins og ég sé að setja mig á háan hest, en sem dæmi þá man ég að þegar ég byrjaði að spila á gítar, þá var gítarinn allt fyrir mér, heimurinn snerist um það að spila á gítar. Ég leitaði í tónlistina til að finna gleði, fegurð og viðurkenningu. Seinna kom tímabil þar sem ég hætti að spila í um eitt og hálft ár og þegar ég fór að lokum að spila aftur þá leit ég það öðrum augum, gítarinn var ekki lengur það sem allt snerist um, heldur einungis það sem allt snerist um fyrir mig. Mér líkar það ekki þegar ég hitti tónlistarfólk sem gengur um með það viðhorf að það sem það geri sé það mikilvægasta í heiminum. Mér fyndist það vera mér mikil hindrun og ég vil vera opinn gagnvart öðru fólki."

Hefur frægðin haft mikil áhrif á líf þitt, breytt þér?

"Hún hefur gert það, stundum til hins betra og stundum til hins verra. Það er mjög ánægjulegt að fá viðurkenningu fyrir það sem maður hefur unnið við allt sitt líf og það skiptir mig miklu máli ef fólk hefur ánægju af því að koma og hlusta á mig spila. Að því leyti hefur þessi sama viðurkenning gefið mér aukið sjálfsöryggi. Það neikvæða samfara því "að vera frægur" eru t.d. ferðalögin, þ.e. erfiðleikarnir þeim samfara við að halda sambandi við fólk. Sumir hafa þá tilhneigingu til að líta þig öðrum augum, setja þig á ákveðinn stall og það gerir manni stundum svolítið erfitt fyrir. Stundum líða mánuðir án þess að tækifæri gefist til þess að hitta vini sína og það er leiðinlegt að kveðja þá og þurfa að segja: "Sjáumst eftir, ja ... 2­3 mánuði!" Það er ekki venulegur háttur á vináttusambandi milli fólks. Ferðalögum fylgja miklar truflanir, það getur verið erfitt að hafa reglu á hlutunum.

Á hinn bóginn finnst mér mjög gaman að ferðast. Ferðalögin hafa gefið mér tækifæri til að kynnst svo mörgu sem ég annars hefði farið á mis við. Til dæmis táknar Ísland fyrir flesta heima í Baltimore ekki meira en land sem þau hafa lesið um í landafræði, heyrt um í fréttum, en aðallega staður á landakortinu. Fyrir mig táknar Ísland miklu meira en það. Fyrir mig þýðir það fólk, vinir, landslag; eitthvað miklu raunverulegra. Ég hef lært mikið á því að kynnast fólki og sjá að það eru til svo margar aðferðir við að gera sama hlutinn og að einhver ein aðferð þarf ekki endilega að vera "sú rétta".

Ert þú gagnrýninn á eigin aðferðir?

Ég reyni að spila eins vel og ég get. Til þess að geta það verð ég að vera gagnrýninn á sjálfan mig og geta tekið gagnrýni annarra. Sá sem ekki getur tekið gagnrýni á í miklum erfiðleikum með að bæta sig. Við skulum hafa það í huga að það er mjög auðvelt að gagnrýna. Ég get hlustað á upptöku með sjálfum mér og rifið hana niður lið fyrir lið og ég get líka hlustað án þess að vera gagnrýninn, þ.e. reyni að njóta tónlistarinnar, taka henni eins og hún kemur fyrir.

Annað dæmi um þetta er þegar ég fer á tónleika með nemendum mínum í Peabody Tónlistarháskólanum í Baltimore. Ég verð oft undrandi á því hve vel þeir spila. Ástæðan fyrir því er að í kennslustundunum rífum við allt í sundur, eins og verið væri að laga bílvél. Við tökum allt í sundur, pússum og fægjum, skiptum um þá hluti sem eru ónýtir eða í ólagi; við beinum athyglinni að því sem virkar ekki. Þegar ég heyri þá síðan spila á tónleikum reyni ég að hugsa ekki um hvernig þessi vél var sett saman, heldur hlusta á það hve vel hún gengur."

Á gítarinn góða framtíð fyrir sér?

"Ég held að sökum fegurðar hljóðfærisins muni það halda áfram að vera til. Þrátt fyrir það að ýmis mikilvæg tónskáld hafi ekki skrifað fyrir gítar, þá er hann samt eitt af vinsælli hljóðfærum. Það er ánægjulegt að sjá hve stór hópur af ungum efnilegum gítarleikurum er að koma fram og ég held að við eigum André Segovia mikið að þakka."

Höfundur er gítarkennari Nýja tónlistarskólans.

Manuel

Barrueco