Bjarni og Þórður munda kylfurnar á bandýæfingu.
Bjarni og Þórður munda kylfurnar á bandýæfingu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur khk@mbl.
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur khk@mbl.is
Á ensku heitir þessi íþrótt Floorball en hér köllum við hana bandý, rétt eins og gert er hjá hinum Norðurlandaþjóðunum," segja þeir félagarnir Þórður Skúli Gunnarsson og Bjarni Rafn Gunnarsson sem eru miklir áhugamenn um þessa íþrótt sem nýtur æ meiri vinsælda hér á landi. "Bandý er innanhússíþrótt þar sem eru sex í hvoru liði, fimm útspilarar og einn í marki. Spilað er á velli af svipaðri stærð og handboltavöllur og hann er afmarkaður með hálfs metra háum "batta" sem er einhvers konar veggur til að boltinn sé ekki alltaf að fara út af. Leikmenn eru með kylfu sem þeir nota til að skjóta litlum bolta á milli sín og reyna að koma honum í mark. Í raun er þetta eins og fótbolti nema kylfur eru notaðar til að senda boltann en ekki fætur."

Fengu græjur sendar frá Noregi

Þeir segja bandý mikið spilað í grunnskólum hér á landi en

Þórður kynntist þessari íþrótt úti í Svíþjóð þegar hann bjó þar, en í Svíþjóð er bandý næstvinsælasta hópíþróttin á eftir fótbolta. "Við vorum sex félagar í Menntaskólanum í Reykjavík sem byrjuðum að spila saman bandý fyrir fjórum árum. Fyrst spiluðum við einu sinni í viku en núna er komin meiri alvara í þetta hjá okkur og við æfum þrisvar í viku. Árið 2004 stofnuðum við félag sem heitir Bandýmannafélagið Viktor." Þeir sendu tölvupóst um stofnun félagsins á alþjóðlega bandýsambandið iff og þaðan barst það til bandýsambandsins í Noregi þar sem Íslendingur var aðalritari norska bandýsambandsins. "Þessi maður er búinn að hjálpa okkur mikið og hann sendi okkur batta frá sænska bandýsambandinu og annan búnað, eins og mark, kylfur, grímur og búninga, svo við gætum stundað þetta af alvöru."

Kvennaliðið Trukkarnir

Bjarni og Þórður segja eitt af því skemmtilegasta sem þeir gera að spila bandý. Hraðinn og snerpan séu það sem heillar í bandý. "Þetta er rosalega mikil og góð hreyfing. Mikill sviti og æsingur. Og það er frekar auðvelt að skora þannig að markafjöldinn er nokkuð mikill og það gerir þetta líka skemmtilegt." Þeir eru ánægðir með að bandýíþróttin breiðist út hér á landi og nefna sem dæmi að í Fjölbrautaskóla Garðabæjar hafi verið bandýáfangi á síðustu önn. Eins æfa nemendur Háskóla Íslands bandý og nokkrir meðlimir í Háskólakórnum æfa þessa íþrótt sérstaklega. "Þar æfa bæði kynin saman en yfirleitt æfa konur og karlar hvor í sínu lagi. Nokkrar bekkjarsystur okkar í MR stofnuðu til dæmis kvennalið í bandý sem heitir Trukkarni."

Stefnt er að því að hafa framhaldsskólamót í bandý fljótlega til að fá fleira fólk til að stunda þessa íþrótt. Aðeins eitt Íslandsmeistaramót hefur verið haldið hingað til og var það síðasta sumar og státar lið Þórðar og Bjarna af því að hafa farið með sigur af hólmi þar. Bandý er ekki aðeins vaxandi íþrótt á Íslandi heldur líka úti í hinum stóra heimi. "Bandý var kynningaríþrótt á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 en verið er að vinna að því að gera bandý að ólympíuíþrótt. Heimsmeistaramót í bandý karla verður á Spáni í maí og Íslandi var boðin þátttaka. Stefnan er að senda lið héðan, en á þessum tíma erum við reyndar í prófum, þannig að við komumst sennilega ekki. Samt erum við búnir að fá rektorsleyfi til að fara, þannig að við látum okkur dreyma."

Fyrir þá sem langar að prófa þá eru bandýæfingar í Fífunni (Breiðabliksheimili) á mánudögum kl. 22-23 og fimmtudögum kl 21-22. www.floorball.org