10. febrúar 2006 | Lifun | 736 orð | 15 myndir

tímalaus hönnun

innlit

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í vesturbæ Kópavogs má finna fallegt steinhús í fúnkis-stíl, sem byggt var í kringum 1960. Þarna hefur sama fjölskyldan átt heimili í 34 ár, en núna eru ungarnir flognir úr hreiðrinu.
Í vesturbæ Kópavogs má finna fallegt steinhús í fúnkis-stíl, sem byggt var í kringum 1960. Þarna hefur sama fjölskyldan átt heimili í 34 ár, en núna eru ungarnir flognir úr hreiðrinu. Húsfreyjan hefur alla tíð haft mikinn áhuga á innanhússhönnun og bera innviðir hússins þess greinilega merki. Hjónin hafa ferðast víða og tekið með sér listmuni, húsgögn og handverk frá ýmsum stöðum í gegnum árin. Lifun leit í heimsókn og fékk að skoða hönnun og húsgögn með sögu.

Drápuhlíðargrjót setur svip sinn á stórar stofurnar en það er notað á stóran vegg í miðju stofurýminu sem skilur að stofu og eldhús. Inn í þennan vegg er byggður arinn sem veitir óneitanlega mikla hlýju. Í kring um steinvegginn á gólfinu er líka lagt Drápuhlíðargrjót en annars er gegnheilt og upprunalegt parket á öllu húsinu.

Eigendur hússins fengu Gunnar Magnússon arkitekt til þess að hanna fyrir sig borð og skenka í stofurnar, en hann teiknaði einnig eldhúsið. Þessi húsgögn öll eru úr svonefndum wenge-við sem ræktaður er í sumum löndum Afríku. Wenge-viðinn getur hins vegar verið erfitt að nálgast í dag, þar sem hann vex mjög hægt og er sums staðar í útrýmingarhættu. Steinplöturnar í borðunum eru úr íslensku grágrýti og sjálf segir húsfreyjan að þótt hún leitaði um allan heim þá fyndi hún ekki fallegar hönnuð borð eða húsgögn. Þau eru í dökkum og þungum stíl en með áberandi hreinar og einfaldar línur.

Eldhúsið er líka komið til ára sinna, enda hannað fyrir u.þ.b. 25 árum, en hefur þrátt fyrir það staðist vel tímans tönn. Viðurinn hefur til að mynda haldist nánast óbreyttur öll þessi ár, enda þykir wenge-viðurinn sérlega endingargóður. Innréttingar og húsgögn þar voru smíðuð af Reyni Pálssyni, sem þá var með trésmíðaverkstæði í Dugguvogi.

Borðstofuhúsgögnin keyptu hjónin hins vegar í brúðkaupsferð sinni í Kaupmannahöfn árið 1960. Sjöundi áratugurinn er um margt tímabil tekksins og bera húsgögnin tíðarandanum merki - unnin úr tekkviði og stólarnir með ullaráklæði. Það segir líka sitt um hringrás tískunnar að þótt hönnun þessara húsgagna sé barn síns tíma þá eru mörg sérkenna tímabilsins einnig ráðandi í húsgagnahönnun samtímans.

Antíkhúsgögn og listaverk eru þá áberandi í stofunum, en hjónin eru bæði listaverkasafnarar af lífi og sál og safna helst verkum eftir íslenska myndlistarmenn - jafnt eldri sem yngri. Stofurnar eru málaðar með olíumálningu, en sérstök áferð veggjanna er tilkomin vegna striga sem veggirnir voru veggfóðraðir með áður en málað var. Olíumálningin gerir það svo að verkum að ekki þarf að mála svo árum eða áratugum skiptir. Þannig voru stofurnar t.d. síðast málaðar fyrir um 20 árum og þrátt fyrir það eru þrif einföld og þægileg, enda þarf aðeins að moppa veggina annað hvert ár. Húsfreyjan var með mjög sérstakan lit í huga fyrir stofurnar og tók það langan tíma að finna rétta dökkfjólubláa litinn, en tókst þó loksins með aðstoð listamanna og málarameistara.

Sólstofan var byggð fyrir 22 árum. Á gólfinu eru kínverskar náttúruflísar og er allt gólfið upphitað. Þetta veitir mikinn yl og hefur sólstofan verið aðalíverustaður fjölskyldunnar í gegnum árin. Þar er líka notalegt að dvelja á veturna, en á sumrin notar húsfreyjan sólstofuna til að rækta basilíkumplöntur í stórum stíl og býr til heimagert pestó fyrir fjölskylduna. Í sólstofunni hafa líka verið ræktaðar tómat- og paprikuplöntur og má reyndar líka finna þar stærðarinnar appelsínutré, sem ber örlitlar appelsínur sem eru þó fullsúrar til neyslu.

Á baðherberginu eru baðtækin upprunaleg og voru þau öll flutt inn frá Bandaríkjunum á sínum tíma. Hjónin létu svo smíða innréttinguna eftir sínu höfði og setja á marmaraplötu frá Steinsmiðju S. Helgasonar. Innréttingin hefur líka haldið sér vel, orðin tæplega 34 ára gömul, en vart látið á sjá.

Húsfreyjan á þessu fallega heimili hefur alla tíð haft mikinn áhuga á innanhússhönnun. Á hennar yngri árum og þegar hún var að koma sér upp heimili, var lítið úrval af húsgögnum á Íslandi, en sem flugfreyja í þá daga, gat hún kynnt sér helstu strauma og stefnur erlendis. Þannig gat hún líka reglulega bætt við einum og einum hlut í búið, eins og borðstofuhúsgögnunum. Hún segist alltaf hafa hrifist af frönskum og ítölskum sveitastíl, sem er grófur og stílhreinn, og að hreinar línur og einfaldleiki hafi alltaf heillað hana. Þess vegna sé hún hrifin af hönnun Gunnars Magnússonar. En þrátt fyrir að stílhreinar línur og geómetrísk form séu ráðandi, sækir heimilið hlýju sína í þyngri og dekkri efni - voldugan við, gegnheilt parkett, leður, grágrýti, steinflísar og dökka liti.

Texti Sigrún Sandra Ólafsdóttir. Ljósmyndir Arnaldur Halldórsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.