Sóley Tómasdóttir
Sóley Tómasdóttir
Sóley Tómasdóttir fjallar um gjaldfrjálsan grunnskóla og skólamáltíðir: "Við núverandi ástand læra grunnskólabörn aðgreiningu eftir efnahag í mötuneytunum. Börn efnameiri foreldra velta fyrir sér hvers vegna sum börn fái mat en ekki öll og börn efnaminni foreldra læra að verðmæti séu ekki fyrir þau."

EITT af góðum verkum Reykjavíkurlistans undanfarinn áratug er að nemendur í grunnskólum Reykjavíkur eiga kost á því að fá mat í hádeginu. Því miður hefur borgin ekki séð sér fært að bjóða upp á þennan mat heldur hefur gjald fyrir mataráskrift í grunnskólunum verið frá 4.000-5.500 á mánuði.

Mataráskriftin vegur þungt í pyngju foreldra á lágmarkslaunum sem sjá má á nýtingu hennar. Einungis um tveir þriðju nemenda nýta sér hádegismatinn, hærra hlutfall í efnameiri hverfum og lægra í þeim efnaminni. Svandís Svavarsdóttir benti réttilega á þennan ójöfnuð í grein sinni í Morgunblaðinu 29. janúar sl. og fékk mál hennar stuðning frá skólastjóra Fellaskóla og í leiðarahöfundi Morgunblaðsins í kjölfarið. Ástæða er til að fagna þessum ábyrgu viðhorfum sem auka möguleikann á því að ná breiðri og þverpólitískri samstöðu um að færa þessi mál til betra horfs.

Kostnaðarvitund grunnskólabarna?

Þverpólitísk samstaða um málið virðist þó vera lengra undan en ætla mætti. Í viðtali við Morgunblaðið 3. febrúar sl. segir formaður menntaráðs, Stefán Jón Hafstein, að ekki sé rétt að hafa skólamáltíðir ókeypis, því börnin þurfi að fá tilfinningu fyrir því að um verðmæti sé að ræða. Hann telur skólamáltíðir sum sé vera leið til að efla kostnaðarvitund grunnskólabarna. - Hverjum dettur í hug að kostnaðarvitund grunnskólabarna eflist við það að senda foreldrum þeirra gíróseðil upp á einhverjar þúsundir? - Og hvers vegna í ósköpunum þarf að efla kostnaðarvitund 6 ára barna?

Við grunnskóla Reykjavíkur starfar fjöldi kennara sem eru sérmenntaðir til að kenna börnum um lífsins gagn og nauðsynjar - í samræmi við aldur þeirra og þroska. Ég treysti þessu fólki mun betur en innheimtuþjónustu bankanna til að efla kostnaðarvitund grunnskólabarna.

Við núverandi ástand læra grunnskólabörn aðgreiningu eftir efnahag í mötuneytunum. Börn efnameiri foreldra velta fyrir sér hvers vegna sum börn fái mat en ekki öll og börn efnaminni foreldra læra að verðmæti séu ekki fyrir þau.

Velferð eða aðstoð?

Í kjölfar umræðunnar leggur Velferðarráð fram bókun, þar sem bent er á þá aðstoð sem tekjulágum foreldrum stendur til boða. Í bókuninni er ekkert efast um að slík aðstoð eigi við um þessa grundvallarþjónustu sem R-listinn hefur lagt kapp á að veita, heldur er tilgangur hennar að sýna fram á að tekjulágir Reykvíkingar geti þegið hana.

Vinstri græn eru ekki sammála þeirri hugmyndafræði sem hér býr að baki. Velferð á ekki að byggja á því að einstaklingar þurfi að biðja um hjálp til að geta notið velferðar borgarinnar. Velferð felst að okkar mati í félagslegri samhjálp samfélags þar sem allir geta lifað með reisn, óháð efnahag.

Á meðan aðeins hluti grunnskólabarna hefur aðgang að skólamötuneyti ríkir ekki fullkomið jafnrétti til náms. Börn sem eru södd og sæl hljóta að njóta þeirrar fræðslu sem staðið er fyrir í grunnskólunum betur en hin. Skólamáltíðir eiga því að standa öllum börnum til boða, óháð fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Börn eiga enn síður að vera háð því að foreldrar þeirra leiti sér aðstoðar. Þau eiga að hafa skýlausan rétt til að njóta þeirrar menntunar sem samfélagið er sammála um að sé forsenda lífs og starfs í lýðræðisþjóðfélagi.

Gætum hagsmuna barna okkar. Bjóðum upp á gjaldfrjálsan grunnskóla.

Höfundur er deildarstýra barnasviðs í félagsmiðstöðinni Miðbergi.