[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kvikmyndagerðarmennirnir Páll Steingrímsson og Friðþjófur Helgason ferðuðust "á heimsenda" til þess að festa fugla á filmu. Pétur Blöndal kynnti sér þær fimm skarfategundir sem urðu fyrir þeim í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi.

Kvikmyndagerðarmennirnir Páll Steingrímsson og Friðþjófur Helgason eru að vinna að röð heimildarmynda undir yfirskriftinni Fjórar fuglasögur. Þar taka þeir fyrir skarfa, hrafna, spóa og rjúpur. Nýverið fóru þeir í reisu til Ástralíu og Nýja-Sjálands til að mynda skarfa. En sagan um skarfinn er hnattrænt verkefni, tekið víða á jörðinni. Þeir ferðast m.a. til Bandaríkjanna, Kína, Rúmeníu, Suður-Ameríku og Írlands. "Við ætlum okkur ár í viðbót í myndina um skarfinn," segir Páll.

Skarfar messa og snyrta sig

Í Tasmaníu fóru Páll og Friðþjófur út á sjó í skarfavarp smáa svartskarfs eða "little black cormorant". "Þeir urðu hálfóraunverulegir í þokunni og stutt skyggni rammaði þeim svið," skrifar Páll í dagbókina 29. nóvember. "Þeir fóru hratt yfir og hömuðust við veiðar. Þegar við komum að bryggju í Maríuey sátu snotrir skarfar með hvíta bringu og svarta grímu fremst á kantinum. Þeir högguðust ekki við landtöku 40 gesta en héldu áfram að "messa" og snyrta sig."

Fjölbreytt dýralíf var í eynni, en þar sáu félagarnir einnig höfðagæsir og það sem þeir vildu kalla stórhöfðagæsir. En einnig páfagauka, villihænsni, spörfugla og endur. Þegar rættist úr veðrinu sást Maríufjall, "skógi vaxið á toppa með þverhnípta hamra og hvíta sandströnd. En sérkennilegastir voru Painted Cliffs eða máluðu klettar. Þetta er lágur sandsteinshöfði með furðulegu litamunstri, sem snýr að hafi. Regnvatn seytlar niður í sandsteininn og leitar fram í stálið. Það ber með sér járnoxíð og litar hvítan sandsteininn. Ekki bara einlitan rauðbrúnan, heldur furðulegustu munstur allt frá hringjum og sporöskjum í beina og hlykkjótta tauma. Þannig myndast geometrísk listaverk sem blasa við þegar maður gengur forvaðann. Við vorum á rölti í sex klukkutíma þar sem ný upplifun var við hvert fótmál."

Timburvirki fyrir skarfinn

Eitt af því sem vakti fyrir Páli og Friðþjófi var að sýna hvernig sömu skarfategundir gætu nýtt sér bæði sjó og fersk vötn. Á gríðarmiklu verndarsvæði vestur af Melbourne mátti finna skjótta skarf og smáa skarf á ströndinni, en innan við stíflugarða meðfram allri ströndinni voru hólfuð vatnslón langt inn í land.

"Fuglamergðin sem þarna hélt til var hreint ótrúleg," segir Páll. "Einna fjölliðaðastur var einkennisfugl Ástrala, svarti svanurinn, en einnig mergð anda og vaðfugla. Upp úr kjarri flugu spörfuglar sem við höfðum aldrei séð áður."

Í einu lóninu gaf að líta einkennilegt timburvirki. "Þetta voru greinalausir trjábolir, augljóslega reistir af mönnum. Á þeim voru pallar á þremur eða fjórum hæðum. Hugmyndin var að fá smáu skarfana til að verpa á pöllunum. Þeir sköruðust þannig að ef tilraunin tækist þá drituðu þeir ekki í hausinn hver á öðrum. William Steele, líffræðingur hjá Melbourne Water, sagði okkur að þetta hefði verið gert bæði í Bandaríkjunum og Kanada með góðum árangri, en þannig má stýra því að skarfar fari ekki í tré sem eftirsjá er í. Þau drepast nefnilega af súru dritinu sem fellur á laufin. Nakin tré skammt undan með hreiðurrytjum í voru sláandi dæmi um það."

Sjaldgæfasti skarfurinn

Erindið til Ástralíu var fyrst og fremst að mynda sjaldgæfasta skarf á jörðinni, kóngsskarfinn eða "king shag", en af honum eru aðeins 500 fuglar. Og heldur hann til á afar takmörkuðu svæði á skerjum á sundinu milli Norður- og Suðureyjar Nýja-Sjálands. Varpstaðirnir eru fjórir eða fimm klakkar eða sker og er helmingur stofnsins, um 200 fuglar, í einum þeirra. Fuglinn er alfriðaður og hvergi leyft að fara í land þar sem hann heldur sig. Leiðsögumaður var Rob Suckhard sem fylgst hefur með kóngsskarfinum um árabil og er sérstakur gæslumaður hans. Hann hafði varað Pál og Friðþjóf við því að kóngsskarfurinn væri viðkvæmur og ekkert víst að þeir kæmust nærri honum. "Hann hélt að við værum göldróttir," segir Páll og hlær. "Fuglarnir áttu að fælast þegar við kæmum að og fljúga burt, en þeir sátu eins og límdir við skerið. Í fyrsta klakknum voru níu fuglar og fjögur hreiður, sem kom á óvart því varptíminn átti að vera liðinn. Og á stóra varpstaðnum sátu fuglarnir allþétt, sex hreiður og ungar í einu þeirra."

Ungar sátu um foreldra

Leiðsögumaðurinn féllst síðan á að setja Pál og Steingrím í land á strönd þar sem skyld tegund hélt sig, mun fjölliðaðri, skjótti skarfur eða "pied shag". "Við stukkum þarna á land og notuðum tímann fram í rökkur. Skjótti skarfurinn lét sem við værum ekki til, flugtök, lendingar, fæðuburður og mötun unga. Um fenginn varð oft heilmikill slagur, því fleygir ungar sátu um foreldra sem komu af hafi. Okkur kom saman um að þarna fengi sá sem fyrst kæmi, ekki endilega afkvæmi fiskarans."

Skarfar éta steina

Eitt ævintýrið enn var að mynda dílótta skarf eða "spotted shag". Páll og Friðþjófur fóru á fætur klukkan fjögur um nóttina til að mæta á ströndina í myrkri. Þeim hafði verið sagt að koma sér fyrir áður en skarfarnir mættu til að styggja þá ekki við lendingu. "Ströndin var löng og í hálfrökkrinu sáum við skarfa lenda 300 metrum innar en við áttum von á," segir Páll.

"Við færðum okkur í skyndi og fikruðum okkur fram á kamb. Skarfarnir styggðust ekki en fjölgaði smátt og smátt. Þarna urðum við vitni að atferli sem líklega er einstætt. Fuglarnir fóru í sjóinn hver af öðrum, tóku stuttar dýfur og komu með smásteina úr kafi. Ýmist gleyptu þeir þá strax eða löbbuðu með þá upp í sandinn áður en þeir kyngdu. Sumir léku sér smástund með "bráðina". Einn ungfuglinn elti foreldri með sníkjum en skildist loks að þetta ætti hann að sækja sjálfur."

En hver var tilgangurinn? "Rob heldur að þeir séu að taka ballest til að kafa á ákveðið dýpi þar sem fiskurinn heldur sig. Önnur skýring sé varla til. Allt gekk eftir. Skarfarnir tóku sér klukkutíma í að gera sig klára fyrir alvöru köfun og það nægði okkur í tökunum."

Á slóð Jörundar

Í Tasmaníu gáfu Páll og Friðþjófur sér tíma til að kynna sér sögu Jörundar hundadagakonungs, sem afplánaði í þessari gömlu fanganýlendu dóm sem hann hlaut í Bretlandi fyrir óhollustu við konungsveldið. Páll og Friðþjófur mynduðu staði í Tasmaníu sem tengdust nafni hans, m.a. brú við bæinn Ros, þar sem listhneigð Jörundar fékk notið sín, en hún var byggð af refsiföngum.

"Jörundur er sagður ábyrgur fyrir myndskreytingum sem prýða bogana þrjá sem bera brúna uppi," segir Páll. "Þetta eru lágmyndir úr steinlíminu sem notað er í brúna. Sagan segir að þekkja megi sum andlitin og að Jörundur hafi komið sér og konu sinni fyrir í myndunum."

Í bænum Oatlands er koparskjöldur þar sem Jörundar er getið sem lögreglustarfsmanns, en dugnaður hans og greind skapaði honum orðspor sem yfirvöld nýttu sér og fólu þau honum skyldur sem aðrir gátu ekki valdið. "Ef fangarnir höfðu hæfileika gátu þeir unnið sér til frelsis," segir Páll. "Snemma var Jörundur valinn til starfa við að leita uppi afbrotamenn í S-Tasmaníu og reyndist snjall í starfi þar sem reyndi á líkamsþrek í ferðum um óbrotið skóglendi við lélegan útbúnað og oft erfitt tíðarfar."

pebl@mbl.is