Reynir Böðvarsson fæddist í Steinsbæ á Eyrarbakka 29. desember 1925. Hann varð bráðkvaddur 19. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Böðvar Friðriksson, f. 7. mars 1878, d. 31. maí 1966, og Jónína Guðmundsdóttir, f. 18. júlí 1878, d. 13. október 1940, Einarshöfn á Eyrarbakka. Reynir átti níu systkini. Þrjú þeirra dóu á unga aldri, þau sem upp komust eru: Guðmundur Böðvarsson, f. 28. október 1905, d.12. ágúst 1980; Friðsemd Böðvarsdóttir, f. 5. mars 1907, d. 18. febrúar 1988; Óskar Böðvarsson, f. 20. júlí 1911, d. 27. apríl 1992, öll látin, en eftirlifandi eru; Guðbjörg Lilja Böðvarsdóttir, f. 9. apríl 1914; Ragnar Böðvarsson, f. 6. janúar 1920; og Guðlaug Böðvarsdóttir, f. 9. desember 1922.

Reynir var ókvæntur og barnlaus. Útför Reynis verður gerð frá Eyrarbakkakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Það var vor í lofti í góubyrjun, glettni og bjartsýni ríktu í takt við tíðarfarið og fjölskyldan bjó sig undir góðan sunnudag á Eyrarbakka. Þá stöðvaðist snögglega lífsganga Reynis vinar okkar og mildur morgunninn litast af sorg og trega.

Reyni kynntumst við er við urðum nágrannar við Eyrargötuna og vináttan byrjaði er hann og Pjakkur urðu óaðskiljanlegir göngufélagar og vinir. Vináttan var þeim báðum mikils virði, enda byrjuðu þeir hvern dag fagnandi hvor öðrum, annar með brosi og vinatali, hinn með rófudilli og blíðlegu hjali. Síðan gengu þeir af stað í sína daglegu gönguför, nánast í hvaða veðri sem var.

Þegar komið var til baka úr gönguferðinni, lá leiðin ætíð í sjoppu okkar Eyrbekkinga sem Reynir af kerskni kallaði Stórval og mjólkurpottur keyptur ferfættum vini til drykkjar.

Reynir fylgdist vel með að Pjakkur hefði það gott. Fyrir utan mjólkurmat þá gaukaði hann að honum beini og kjötbitum ef svoleiðis hafði verið "soðið í kjaftinn" á Breiðabóli.

Og ef veður voru vond þá tók hann Pjakk inn til sín og bjó honum þar skjól þar til við komum heim. Og fleiru bjó hann skjól. Við hús sitt kom hann upp myndarlegum trjágarði, einmitt með alúð og iðjusemi sem launaði honum með þroskamiklum plöntum.

Og frekar en að gefast upp fyrir útrænu og sjóroki þá byggði hann bara utan um viðkvæmustu trén að hausti og sleppti þeim svo út að vori. Þannig gæti margur lært sem gefst upp við andbyr, að iðja og alúð í bland við útsjónarsemi getur mörgu breytt til betri vegar. Og ekki var hann Reynir kveif, heldur hraustmenni sem gekk hér teinréttur um þorpið röskum skrefum, helmingi yngri mönnum fyrirmynd um líkamlegt atgervi. Hann var heldur ekkert að pukrast með skoðanir sínar eða hvíslandi þeim upp í vindinn, heldur lét menn heyra það vel völdum orðum og glotti þá gjarnan við tönn og spýtti til áheyrsluauka. Hann var semsé skemmtilegur karl og hraustur sem við áttum alls ekki von á að að myndi breyta gönguleiðum sínum nærri því strax, þó að árin hefðu nýlega fyllt áttunda tuginn.

En almættið ræður okkar gönguför og hefur nú kallað Reyni á eilífðarvegi. Við óskum honum góðrar ferðar og þökkum honum samfylgdina og göngurnar allar hérna megin. Einhvern daginn hefja þeir félagarnir svo gönguna á ný og slökkva svo þorstann á eftir með ískaldri nýmjólk.

Með kveðju frá Pjakki,

Bjarki, Margrét Lovísa og Helga, Stíghúsi, Eyrarbakka.

Reynsi minn, alveg var það eftir þér að fara að deyja á konudaginn. Og ekki búinn að gefa mér blómin.

Þegar ég flutti hingað á Bakkann leist mér ekki meira en svo á þennan "geðvonskukarl" í næsta húsi. Sá ætlaði að vera fúll við mig. Hann mátti reyna það. Hann kæmist ekki upp með það. Ég fór að bjóða honum í kaffi. Í marga daga svaraði hann "nei, takk, nýbúinn". Þetta ætlaði ekki að ganga vel. Ég tók að tala sama mál og hann og sagði dag einn: ,,Hættu þessari vitleysu, karlremba, og komdu í kaffi, ég á gott með kaffinu." Þá brosti sá gamli í kampinn og kom. Björninn við hliðina á mér var unninn. Þarna hófst vinátta okkar.

Reynsi tók upp á því að rækta tré og við Már keyptum fyrstu hundrað og áttatíu plönturnar í skjólgarð fyrir hann. Hann hugsaði vel um trén sín. Þeim Má kom saman um það að hann væri í svo nánu sambandi við þennan í neðra, jarðvegurinn heitur og því sprytti vel. Þeir létu hvor annan hafa það óþvegið en voru alltaf bestu vinir. Reynsi hlúði vel að viðkvæmum plöntum og undirbjó þær fyrir veturinn. Segir það okkur heilmikið um hann.

Reynsi var alltaf með okkur á jólum og áramótum og naut sín vel.

Þegar Már kom austur fór hann fljótlega út á hlað og hóf upp raust sína: ,,Hvað er með þennan karlskarf, sefur þetta allan daginn?" Það leið ekki á löngu þar til Reynsi birtist bölvandi og ragnandi. ,,Þarftu að láta eins og þú sért kolvitlaus, mannfýla, þó þú látir sjá þig annað slagið?"

Þegar ég tilkynnti Má andlát Reynsa sagði hann það skrýtið hvernig hann hefði síðast kvatt sig. Hann sagði: ,,Vertu blessaður, vinur, og Guð veri með þér." Allir sem umgengust Reynsa, sáu að hann bar ekki Guðsmanninn utan á sér. En enginn veit hvað í annars huga býr.

Við Reynsi urðum mjög góðir vinir. Reynsi minn, þú veist að þegar þú hittir Pétur, þennan með lyklana, mátt þú alls ekki bölva.

Ég mun sakna ljóssins sem þú kveiktir í ganginum og sagðir vera fyrir mig.

Kæri vinur, við Már þökkum þér samfylgdina á Bakkanum.

Við söknum þín, hvíl í friði.

Sonja.