Megas æfir Passíusálmana í Hallgrímskirkju með hljómsveit og barnakór.
Megas æfir Passíusálmana í Hallgrímskirkju með hljómsveit og barnakór. — Morgunblaðið/Ómar
MEGAS er maður dagsins í Hallgrímskirkju, en á tónleikum þar klukkan fimm í dag flytur hann nokkra af Passíusálmum sínum auk veraldlegra kvæða eftir Hallgrím Pétursson og Matthías Jochumsson.

MEGAS er maður dagsins í Hallgrímskirkju, en á tónleikum þar klukkan fimm í dag flytur hann nokkra af Passíusálmum sínum auk veraldlegra kvæða eftir Hallgrím Pétursson og Matthías Jochumsson. Fjölmargir hljóðfæraleikarar koma fram auk Kammerkórs Biskupstungna sem skipaður er ungu fólki. Flutningnum stjórnar Hilmar Örn Agnarsson.

Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir er framkvæmdastjóri tónleikanna, og tók sjálf þátt í flutningi Passíusálmanna með Megasi og kórnum sínum í Skálholti 2001, og þekkir sálmana og lög Megasar því vel. Þótt hún sé vaxin upp úr kórnum tekur hún þátt í flutningnum nú - og leikur á blokkflautu í hljómsveitinni. Hún segir krakkana hafa mikið dálæti á Passíusálmunum og söngvum Megasar. "Jú, þeim finnst þetta sumt skrýtið, en um leið og farið er að tala um textana finnst þeim þeir skemmtilegir. Sjöundi sálmurinn, um Malkus sem missti eyrað, er í miklu uppáhaldi, og reyndar fleiri, sá fimmtándi og fertugasti og sjötti, Um teiknin sem urðu við Kristí dauða. Melódían er flott og krakkarnir skynja vel hvað textinn er magnaður.

Margir telja Passísálmana eiga við á öllum tímum, - þeir fjalli um mannlegt eðli, bresti mannsins og samvisku hans og gefi honum heilræði um hvernig eigi að lifa lífinu. Passíusálmalög Megasar voru síðast flutt í heild sinni af honum sjálfum og Kammerkórnum undir stjórn Hilmars í Skálholtskirkju á páskum 2001. Á næstunni kemur út tónleikaupptaka af þeim flutningi í viðhafnarútgáfu.

Hugarfarið til íslenskunnar breyttist

"Mér finnst þetta mjög merkilegt," segir Hilmar Örn Agnarsson um Passíusálma Megasar, "og fullyrði að ef Passíusálmarnir eigi að lifa, verði að koma þessum nýju lögum að. Annars deyja þeir út. Ég fæ alveg gæsahúð þegar ég heyri unga fólkið í kórnum - fermingarkrakka syngja Passíusálmana - þau alveg í sæluvímu. Þá öðlast maður trú á æskunni. Þeim finnst auðvitað dásamlegt að syngja með Megasi. Þegar við fluttum Passíusálmana í Skálholti 2001 vorum við svo heppin að Megas bjó hjá okkur í Skálholti í viku, meðan við vorum að æfa, og var með krökkunum meira og minna alla vikuna. Sumir þessara krakka eru nú komnir í íslenskunám í Háskólanum. Ég segi að það sé Megasi að þakka. Hugarfar krakkanna til íslenskrar tungu breyttist. Íslenskan varð svo skemmtileg. Jákvætt - jákvætt - jákvætt! Í tímariti íslenskunema er nú stór og flott ritgerð um texta Megasar. Hann hefur mikil áhrif, og þetta er örugglega eitt fallegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í," segir Hilmar Örn Agnarsson organisti og kórstjóri í Skálholti.

Í Skálholti verða tónleikar 8. apríl með sömu flytjendum, en þar verða einungis fluttir Passíusálmar.