Frá setningu kjötkveðjuhátíðarinnar.
Frá setningu kjötkveðjuhátíðarinnar.
Ríó de Janeiro. AP.

Ríó de Janeiro. AP. | Bíræfnir glæpamenn nýttu sér öngþveitið sem fylgdi upphafi kjötkveðjuhátíðarinnar í Ríó de Janeiro í Brasilíu í fyrrakvöld og stálu málverkum eftir Pablo Picasso, Salvador Dalí, Henri Matisse og Claude Monet úr listaverkasafni í borginni.

Lögreglan hefur mikinn viðbúnað í Ríó vegna kjötkveðjuhátíðarinnar. Áherslan er þó einkum lögð á að draga úr vasaþjófnaði, en erlendir ferðamenn þykja auðveld bráð fyrir ræningja í borginni, og ofbeldi sem jafnan setur mark sitt á þessa frægu borg.

Ræningjarnir munu hafa ráðist til atlögu í Chacara do Ceu-safninu í Ríó í fyrrakvöld vopnaðir skammbyssum, einn þeirra mun jafnframt hafa haldið á handsprengju. Þvinguðu ræningjarnir öryggisverði á safninu til að slökkva á öllum öryggismyndavélum og létu síðan greipar sópa í kjölfarið. Nældu ræningjarnir fjórir sér í allra verðmætustu verk safnsins; þ.e. verk eftir Picasso, Monet, Matisse og Dalí, sem fyrr segir, og jafnframt hirtu þeir alla fjármuni fimm ferðamanna, sem voru í safninu. Hurfu ræningjarnir síðan út í mannþröngina á götum Ríó og hefur ekki spurst til þeirra síðan.