Dagur Snær Sævarsson
Dagur Snær Sævarsson
Dagur Snær Sævarsson fjallar um styttingu náms til stúdentsprófs: "Krafan um styttri námstíma hefur aldrei komið frá nemendum sjálfum heldur frá VR, Verslunarráði og Samtökum atvinnulífsins."

UMRÆÐAN um skerðingu náms til stúdentsprófs náði ákveðnu hámarki á þessu skólaári þegar nemendur og kennarar lögðu niður störf og mótmæltu áformum menntamálaráðherra. Hagsmunaráð framhaldsskólanna hefur verið stofnað og verið í fararbroddi í mótmælum nemenda. Hvert sem Þorgerður Katrín fer mætir hún mikilli andstöðu og finnur eflaust fyrir mikilli andúð í sinn garð.

Umræðan hefur þó dalað síðustu daga en í byrjun þessa mánaðar gerði menntamálaráðherra samkomulag við Kennarasamband Íslands um þessi mál og hefur frestað skerðingunni um eitt ár. Ráðherra gaf út skjal þar sem fram komu ýmsir punktar sem hann ætlaði að vinna eftir í sameiningu við kennara, þótt fátt gáfulegt hafi komið fram í þessu skjali.

Nemendur hunsaðir

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, skrifar grein í Morgunblaðið þann 22. febrúar sl. og fagnar því að ráðherrann skuli opna augun og átta sig á því að hún er ekki ein í heiminum. Vissulega væri það fagnaðarefni ef Þorgerður Katrín gerði það, en undirritaður hefur þó litla trú á því að hún hafi endurskoðað markmið sín. Þessi ákvörðun ráðherra er einungis til þess fallin að hún fái frið í smátíma, en eins og flestir vita gleymast skyssur stjórnmálamanna því miður fljótt.

Þess utan er þetta samkomulag einungis gert við kennarasambandið eitt og sér og hafa t.a.m. kennarar við fjölmarga framhaldsskóla mótmælt þessum vinnubrögðum. Ennþá verra er að nemendur eru ekki hafðir með í ráðum og er greinilegt að ráðherra finnst ekki mikið til þekkingar þeirra á skólakerfinu koma. Það er því gert að einskonar innanhússmáli menntamálaráðuneytisins og Kennarasambands Íslands og nemendum úthýst. Það er lítið fagnaðarefni.

Vilji nemenda

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spyr í þessari umræðu hvers vegna íslenskir nemendur þurfi lengri tíma til að klára stúdentspróf en þeir erlendu. Það er ekki það sem umræðan snýst um. Fáir hafa sett sig á móti því að nemendur ljúki stúdentsprófi ári yngri. Til er meira að segja skóli sem útskrifar nemendur með stúdentspróf á tveimur árum og í mörgum framhaldsskólum er hægt að ljúka náminu á þremur árum, ef nemendur svo kjósa. Það er því ekki þannig að nemendur geti ekki klárað sitt nám nítján ára.

Það sem bæði nemendur og kennarar setja út á þetta mál er framkvæmd styttingarinnar, ráðherra hefur valið þá einföldu en heimskulegu leið að skera niður innihald námsins. Þannig verða nemendur ekki jafnvel undirbúnir fyrir háskólanám og þeir eru nú, en íslenskir nemendur hafa hingað til staðið sig mjög vel í námi á erlendri grundu. Spurningu Sigurðar er því auðsvarað.

Með hnífinn á lofti

Krafan um styttri námstíma hefur aldrei komið frá nemendum sjálfum heldur frá VR, Verslunarráði og Samtökum atvinnulífsins. Þegar Þorgerður Katrín tók við embætti menntamálaráðherra bundu margir vonir við hana og að hún hyrfi frá áformum Tómasar Inga Olrich. Þeir sem það gerðu eru eflaust vonsviknir. Þorgerður hefur frá upphafi reynst vera sendiboði þessara markaðssamtaka og mun eflaust oftar hefja niðurskurðarhníf sinn á loft.

Nú hefur Þorgerður Katrín eitt ár í viðbót til að átta sig á því hversu illa ígrunduð þessi áform hennar eru og vonandi komast hún, kennarar og nemendur að samkomulagi. Kannski ákveður hún í þetta sinn að byrja á réttum enda ef henni er svona mikið um að breyta menntakerfi landsins, sem full sátt ríkti áður um meðal landsmanna. Hver veit nema þvermóðskan hverfi jafnvel alveg?

Höfundur er formaður Ungra vinstri grænna í Reykjavík.