Önnu og Mörtu finnst löngu tímabært að leyfa Íslendingum að njóta grósku í pólsku menningar- og listalífi.
Önnu og Mörtu finnst löngu tímabært að leyfa Íslendingum að njóta grósku í pólsku menningar- og listalífi. — Ljósmynd: Þorkell
Þótt Pólverjar skipi stærsta hóp innflytjenda á Íslandi þekkja landsmenn kannski lítið til uppruna þessa fólks.

Þótt Pólverjar skipi stærsta hóp innflytjenda á Íslandi þekkja landsmenn kannski lítið til uppruna þessa fólks. Tvær ungar dugnaðarkonur frá Póllandi sem hér eru búsettar hyggjast bæta úr þessu, þær Anna Wojtynska og Marta Macuga, höfðu frumkvæði að pólskri menningarhátíð sem halda á í Reykjavík í septemberlok.

Þeim finnst löngu tímabært að leyfa Íslendingum að njóta grósku í pólsku menningar- og listalífi, arfleifðar sem þær segja einkennast af fjölbreytni. Í heimalandinu mætist mismunandi þjóðabrot og trúarbrögð í merkilegri sátt, stjórnmálasaga Póllands hafi þannig verið gefandi. Menningin sé brú manna á milli, í henni liggi rætur þeirra og það sem mestu skipti um gagnkvæman skilning, vináttu og virðingu.

"Þetta kann að hljóma hátíðlega," heldur Anna áfram, "en hefur margsannast. Svona hátíð ætti að vera öflug aðferð, bæði til að auðga mannlífið og draga úr einangrun innflytjenda, sem oft er skiljanleg í ljósi lítils tíma aflögu og tungumálaþröskulda ekki síst. Eftir langan vinnudag getur lítil orka verið eftir til að læra málið í nýjum heimkynnum og sumum sækist það seint. Þá er eðlilegt að verja frítíma með fjölskyldunni, iðulega pólskri og einfaldast fyrir marga að rækta vinskap við landa sína. Auðvitað er afar mikilvægt að innflytjendur tileinki sér nýja menningu og tungumálið gegnir lykilhlutverki til þess að taka þátt. En það er ekki síður mikilvægt, höldum við, að gefa með sér af uppruna sínum í öðru landi. Okkur langar, í samvinnu við Vináttufélag Íslendinga og Pólverja, að leggja dálítið af mörkum með þessu framtaki."

Tengslin milli fólks eru meðal þess sem Anna veltir fyrir sér í doktorsnámi í mannfræði við Háskóla Íslands, en hingað kom hún fyrst í frí fyrir tíu árum. Nokkru seinna sneri hún aftur í stutt íslenskunámskeið og næst sem skiptinemi 2001. Þá hafði hún lagt stund á háskólanám í mannfræði í Póllandi og athugað sérstaklega málefni pólskra innflytjenda á Íslandi. Og þau eru áfram rannsóknarefnið í doktorsnáminu, sem hún hóf 2003, þróunin frá árunum kringum 1970 þegar fyrstu hóparnir komu hingað í fiskvinnslu.

Síðan segir Anna hafa verið minna um slíka hópa, þar til nýverið vegna stóriðjunnar á Austurlandi. Flutningar hingað hafi annars tekið kipp um 1990, enda Ísland eitt fárra landa sem fyrst buðu Pólverjum lögleg störf eftir fall kommúnismans í Austur-Evrópu. Tala þeirra hér hafi þá tvöfaldast og nú séu á þriðja þúsund Pólverja í margvíslegum störfum víðast hvar um landið. Opinber tala 2004 hafi verið nærri 2.200 manns og þar af hafi tæplega 200 haft íslenskt ríkisfang. En við hana hafi nokkur hundruð bæst í bili að minnsta kosti vegna virkjanaframkvæmda og álvers.

Hvetjandi undirtektir | Anna og Marta fóru að leita fyrir sér um hátíðina haustið 2004 og jákvæðar undirtektir komu þeim á skrið. "Þetta hefur eiginlega gengið betur en við þorðum fyrst að vona," segja þær, "þó nokkuð af dagskránni er mótað, við höfum legið yfir henni, notað alls konar sambönd til að ná í listafólk í Póllandi og svo bankað upp á hjá opinberum menningarskrifstofum og ýmsum fyrirtækjum bæði ytra og hér. Það virðist ekki veita af þessum tíma til að dæmið gangi upp, hafa uppi á listafólki ytra í skemmtilega heild, finna því staði hér og fjárstuðning til að allt gangi. En með okkur í þetta kom Þorleifur Friðriksson, sem var formaður Vináttufélags Íslendinga og Pólverja og ýmsir fleiri. Þar nýtist líka viss reynsla, enda hefur félagið staðið að fjölsóttum kynningum á pólskri menningu og sögu og komið Póllandi á kort sem vinsælum áningarstað íslenskra ferðalanga.

Við fáum hingað frá Póllandi, þá fjóra daga sem hátíðin stendur, stór nöfn úr pólsku menningarlífi og erum stoltar af því. Líka forvitnileg verk eins og kvikmyndir eftir minna þekkta höfunda og dæmi um þjóðlegar hefðir, eins og handverk eða matargerð. Markmiðið er að sem flestir geti fundið eitthvað sem vekur áhuga; hvort sem það eru bókmenntir, bíó, tónlist, myndlist eða leikhús; málstofur um mannlíf og tungumál eða háskólakynning."

Þær stöllur hafa smíðað dagskrána í sameiningu, í samvinnu við vináttufélagið, en Marta sér þó um kvikmyndirnar. Enda hefur hún starfað við allskyns verkefni í kvikmyndagerð í átta ár, tvö undanfarin hér á Íslandi. Hún sérhæfir sig í leikmunum og leikmynd og segist þar feta í fótspor afa síns, svo ástin á kvikmyndum sé ef til vill í blóðinu auk þess sem mikil kvikmyndahefð sé í Póllandi. Hún hafi verið svo heppin að rata þessa leið að loknu námi í hagfræði, þegar hún opnaði gallerí og bar í borginni Lodz, þar sem einmitt er þekktur kvikmyndaskóli, og kynntist mörgu listafólki. Fyrstu verkefnin tengdust þessum skóla og eitt leiddi af öðru, en hagfræðina segir Marta nýtast þannig að hún örvænti ekki þótt fjárhagshlið verkefna virðist snúin. Sköpunin sé þó það sem heilli, hún vilji kynna hér nokkra leikstjóra sem hafi ekki hlotið frægð á borð við Kieslowski eða Polanski en verðskuldi athyglina virkilega. Alþjóðleg kvikmyndahátíð verður í Reykjavík sömu daga og verða pólsku myndirnar hluti hennar.

Annars verður þekktasta nafnið tengt pólsku dögunum efalítið tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Krysztof Penderecki, sem hingað kemur á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í septemberlok. Þá hefur rithöfundurinn og blaðamaðurinn Ryszard Kapuscinski þekkst boð á hátíðina, en hann hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir ljóðrænan texta á mörkum skáldsögu og veruleikafrásagnar. Eins er klárt að ljósmyndarinn Chris Niedenthal, sem búið hefur í Póllandi á fjórða áratug og birt myndir sínar í heimspressunni, sýnir í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og verður væntanlega við opnunina.

Félagar úr leikhópnum Lodz Kaliska, þekktir fyrir pólitíska ádeilu og húmor, ætla líka að mæta, og áfram mætti halda - nefna kindaskæraklippimyndir í Ráðhúsinu, djassklúbb og pólska tónlistarmenn sem hér eru búsettir að ógleymdri verðlaunasamkeppni barna úr tónlistarskólum landsins í flutningi pólskra verka. Alls kyns pólskar kræsingar í vændum.

Eftir Þórunni Þórsdóttur